Hafnarstræti 49
Sýslumannshúsið, sem svo var nefnt, stendur í fallegum hvammi nokkuð fyrir ofan götuna sem ber nafnið Barðslaut. Páll Briem amtmaður lét reisa það 1895 í landi Eyrarlands sem þá var enn í Hrafnagilshreppi. Náði lóð hússins upp á brekkubrún. Eftir Pál Briem átti Guðlaugur Guðmundsson sýslumaður húsið og bjó þar um allmörg ár, og fengu þá bæði húsið og hvammurinn nafn af sýslumanninum. Um fárra ára skeið rak Sigurður Fanndal, veitingasölu í húsinu. 1920 varð Steingrímur Jónsson frá Gautlöndum sýslumaður og bæjarfógeti á Akureyri, keypti þá húsið og bjó þar til æviloka 1956. Skátar eignuðust síðar húsið og gerðu þar félagsheimili sitt 1969. Þeir nefndu húsið Hvamm.