Alþingismaðurinn Guðlaugur Guðmundsson

 

Þann 3. september 1892, ári eftir að Guðlaugur var skiðpaður sýslumaður í Skaftafellssýslum, var kosið til Alþingis. Á kjörstað mættu 50 kjósendur. Frambjóðendur voru tveir auk sýslumanns. Það voru þeir Ólafur á Höfðabrekku, sem fékk 1 atkvæði (sýslumanns) og Jón í Hemru sem fékk 8 atkvæði en sýslumaður var kosinn með 41 atkvæði. Eftir það var Vestur –Skaftafellssýsla talin “óvinnanleg borg” Guðlaugs sýslumanns.

Næst var kosið 9. júní 1894. Þá var Jón í Hemru aftur í framboði á móti sýslumanni. Að áliðinni atkvæðagreiðslunni lýsti Jón því yfir, að hann tæki aftur framboð sitt. Guðlaugur var kosinn með 43 atkvæðum.

Kosningarnar árið 1900 voru bæði harðar og spennandi, þótt lítt gætti þess í Vestu-Skaftafellsýslu. Þá var kosið um Valtýskuna, sem Guðlaugur fylgdi á þingi. Mótframbjóðandi hans var dr. Jón Þorkelsson. Því segir í Alþingisrímum:

                                    Dr. Forni fúll í svörum

                                    fór með kukl og seið.

                                    Skaut hann mörgum eiturörum,

                                    austr á Síðu reið.

Dr. Jón taldi sig hafa loforð fyrir stuðningi Mýrdælinga en það brást hrapalega, einkum vegna þess, að á kosningadaginn glaðnaði til eftir langan rosa:

                                    Hrakið lá í hrúgum víða

                                    hey hjá bændum

                                    uggði þá, að ótíð stríða

                                    ættu í vændum.

 

                                    Kjörþingsdaginn röðull roða

                                    reifar engi’ og tún,

                                    glit af skærum geislaboga

                                    gyllti fjallabrún.

 

Kjörfundur var haldinn á Leiðvelli 3. september og stóð í 4 stundir, svo að eitthvað hafa frambjóðendurnir ræðst við áður en til kosninga var gengið. Svo fóru leikar, að Guðlaugur var kosinn með 52 atkvæðum, dr. Jón hlaut 8 atkvæði (af þeim aðeins 2 úr Mýrdal: Pál á Heiði og Guðmund Þorbjarnarson  á Hvoli)

 

                                    Fáir kappar Forna mættu

                                    á fundi þennan dag, 

                                    heyja sinna gildir gættu

                                    garpar sér í hag.

 

                                    Laugi stoltur slíðrar vígur,

                                    stál var ekki reynt,

                                    frægan hafði ‘ann hlotið sigur,

                                    hélt á Alþing beint.

 

Enn var Guðlaugur sýslumaður tvisvar sinnum kosinn þingmaður Vestur-Skaftfellinga og þá mótframboðslaust, árin 1902, með 58 atkv. og árið 1903 með 36 atkv. Sýnir það að engum þýddi við hann að keppa. Svo öruggt og eindregið var fylgi þessa röggsama yfirvalds og annálaða mælskugarps meðal Vestur-Skaftfellinga.

 

 

 

 

Í ljóði Matthíasar um Guðlaug látinn eru m.a. þessar hendingar:

                                    Liðinn var lofsæll

                                    lýðskörungur

                                    heim frá ströngu stríði.

 

Samkvæmt Alþingistíðindum frá árinu 1894 átti Guðlaugur sæti í nefndum neðrideildar um eftirfarandi mál:

1.      Útflutningslög og var hann formaður og framsögumaður nefndarinnar.

2.      Áfengisbannssamþykktir og var hann formaður nefndarinnar.

3.      Botnvörpuveiðar og var hann skrifari nefndarinnar.

4.      Nýbýli og var hann framsögumaður nefndarinnar.

5.      Hreppsstjóralaun.

6.      Kirkjugjald og kirkna umsjón og fjárhald.

7.      Sáttanefnda úrskurðarvald m.m.

Þá var hann einnig í skrifari og framsögumaður í kjörbréfanefnd í sameinuðu Alþingi.

 

Á þessu þingi flutti hann frumvarp um bann gegn botnvörpuveiðum, sem varð að lögum. Frumvarpið var svohljóðandi:

1.gr.

            Í landhelgi við Ísland skulu bannaðar vera fiskveiðar með botnvörpu (trawl).

2. gr.

            Brot gegn 1. gr. varða sektum,1.000 – 10.000 kr. er renna í landssjóð, og skulu hin ólöglegu veiðarfæri og afli upptæk og andvirði þeirra renna í landssjóð. Leggja má löghald á skip og afla og selja, að undangengnu fjárnámi til lúkningar sektum og kostnaði.

3. gr.

            Mál þau, er rísa af brotum á 1.gr. , skal fara með sem opinber lögreglumál.

4. gr.

            Lög nr. 13, 9. ágúst 1889 eru úr gildi numin.

 

Hann var flutningsmaður fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um tilsjón með þeim mönnum er flytja úr landi í aðrar heimsálfur. Þetta frumvarp fjallaði um réttindi og skyldur þeirra sem sáu um og skipulögðu ferðir til Vesturheims á þessum tíma. Frumvarpið varð ekki að lögum

 

Í umræðu um áfengisbannslög ’94 er hann meðmæltur frumvarpinu, en vill láta bíða með að afgreiða málið. Hann hafði þá verði búinn að taka þátt í stofnun Stórstúku Íslands og verið formaður hennar til 1891. Í umræðunni sagði hann meðal annars:”Guð forði mér við vinum mínum; fyrir óvinum mínum mun ég gæta mín sjálfur”

 

Hann var andvígur tillögum í frumvarpi sem hafði í för með sér lækkun launa sumra hreppsstjóra sem eru “svo lítil sem minnst má vera í samanburði við það starf og þann vanda sem á hreppstjórum hvílir”.

 

Í umræðu um frumvarp um fjárræði ómyndugra sagði hann meðal annars:

            “Ég hef nú það fyrir reglu, að greiða aldrei atkvæði með þeim lögum, sem jeg er ekki viss um að eru til verulegra bóta; jeg vil ekki breyta lögum, nema jeg sé samfærður um, að brýna nauðsyn beri til”.

 

Í umræðu um ævinlega erfingjarentu, sem hann var á móti, sagði Guðlaugur þann 20. ágúst 1894:

“...því gildi peninga er breytilegt. Hálf miljón hefur ekki sama gildi eftir 50 ár eins og hún hefur í dag”.

 

Þá var hann ekki heldur hrifinn af hugmyndum Valtýs Guðmundssonar um að veita erlendu félagi einkaleyfi á að halda uppi siglingum milli Íslands og útlanda og byggja og reka járnbraut hér á landi. Guðlaugur var í sjálfu sér ekki á móti lagningu járnbrautar hér á landi. Eftirfarandi eru hlutar af einni ræðu hans um það mál:

            “Af því að tíminn er nú orðinn svo naumur, skal jeg að eins leyfa mjer að leiðrjetta það, sem einkum er athyglisvert í ræðum þeirra, sem hafa verið að bögglast við að svara mjer.

            H. þm. Rvk. (J. Jenss.) taldi það málinu óviðkomandi, að vera að koma með upplýsingar í því, og lá við að hann væri að leitast við að gjöra skop að mjer fyrir það að jeg skyldi hafa verið að reyna að leita upplýsinga um það, og síðan verið að þeim óþarfa, að bera þær hjer fram.

...........hingað til munu fæstir hafa neitað því, að það væri fremur kostur en ókostur, að þingmaður vissi dálítið um mál það, sem hann er að fjalla um og á að greiða atkvæði um.

Jeg held það væri t.d. ekki á móti því, áður en atkvæði er greitt um málið, að hafa einhverja hugmynd um, hvort hina fyrirhuguðu járnbraut á að leggja um mögulega staði eða ómögulega, hvort það á að leggja hana upp í tunglið, norður í land eða austur í sveitir. Vitneskja um það hefir ekki svo lítil áhrif á málið.

................

H. þm. Vestm. (V.G.) hefir hjer farið heldur langt, og líklega lengra en hann sjálfan varði, því að það sjer þó hver lifandi maður, að ef jeg hefði trú á því að járnbrautir hjer mundu borga sig nú, þá mætti jeg vera hringlandi vitlaus, ef jeg vildi borga útlendingum 50,000 kr. á ári fyrir að leggja þær og halda uppi ferðum á þeim, með öðrum orðum gefa 50,000 kr. fyrir verk, sem borgaði sig sjálft styrkjalaust; það væri þó fjarri því að jeg væri í mótsögn við sjálfan mig, þótt jeg vildi ekki samþykkja þetta frumv., ef jeg á annað borð hefði trú á , að járnbrautir mundu borga sig.................  Jeg gjöri ráð fyrir, að járnbrautin austur muni kosta 2 1/2 – 3 miljónir króna; vextir af þessu fje má gjöra ráð fyrir að sje um 120,000 kr á ári; kostnaður við að halda brautinni við og við að halda uppi ferðum á henni má gjöra ráð fyrir að verði að meðaltali um 10,000 kr. á mánuði eða 120,000 kr. á ári. Þær tekjur sem járnbrautin þyrfti að hafa árlega yru því 240,000 kr. Nú búa á því svæði er járnbrautina getur notað, um 20,000 manns, og ef vjer gjörum ráð fyrir 5 króna fargjaldi alla leið með brautinn eða 10 kr. fram og aptur, og að á henni ferðist að meðaltali 4. hver maður af þessu svæði einu sinni á ári, þá ættu að fást um 50,000 kr. á ári fyrir mannflutninga, og ef gjört er ráð fyrir að annað eins muni fást fyrir vöruflutninga, en það mun þó vera heldur of ríflegt í lagt, þá ættu árstekjurnar alls að vera 100,000 kr., en 140,000 kr. vantar til að tekjurnar hrykkju upp í gjöldin.

Jeg sagði að jeg gæti ekki verið með málinu, af  því, að engin trygging væri fyrir fje nje forgöngumönnum, og jafnvel þótt þetta væri fyrir hendi, þá þætti mjer næsta viðsjárvert að binda landið þessum gjöldum, því þótt hann kalli styrkinn lítinn, þá er hann þó mikill, já mjög mikill, þegar miðað er við vorar aðstæður.

..............

H. framsögumaður (V.G.) bar mjer það á brýn að jeg hefði verið að reyna “at stikke” h. deild “Blaar i Öjnene”, eða varpa sandi í augu hennar.......... Ætli það mætti ekki fremur segja slíkt um það, þegar fimbulfambað er um málið eitthvað út í loptið? Mjer finnst það kenna nokkurrar óþolinmæði, að vilja ekki bíða eptir því, að samþykkja þetta frumv., þangað til nokkur vissa er fengin fyrir því, hvort kostnaðurinn við brautarlagninguna muni fara geipilega fram úr áætlun eða ekki.

....................... 

Hann benti einnig á í annarri ræðu að halli megi ekki vera meiri en 1:90 og því verði að gera ‘holgöng’ gegn um Hellisheiði og auk þess megi geisli í járnbrautarsveig  ekki vera minni en 600 ft. samkvæmt norskum reglum en í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að fara niður í 300 ft.

 

Guðlaugur taldi það stórmál þegar rætt var um frumvarp um umsjón og fjárhald kirkna. Hann var á móti málinu og var í minnihluta í nefnd sem fjallaði um málið. Við fyrstu umræðu um málið sagði hann meðal annars:

            “Af því þetta er stórmál og af því að jeg varð í minni hluta í nefndinni, þykir mjer það viðkinnanlegra að fara fáeinum orðum sjerstaklega um 1. atriði mitt í nefndarálitinu, - “að slík lög mundu ganga of nærri eignarrjetti bændakirkju-eigenda” – og svo frv.

.........vil jeg benda á mönnum á ritgerð eptir lögmann Pál Vídalín um jus patronatus í “Skýringum yfir forn. lögb.;” þar segir hann, að það sje vafalaust, að stofnendur kirknanna hafi í upphafi áskilið “plenum jus patronatus” fyrir sig og alla sína afkomendur um alla tíma;

Um “jus patronatus” hefir alltaf orðið ágreiningur;........ Það sem bændakirkjueigendur að lokum misstu fyrir fullt og allt í þessum deilum var “jus vocandi” eða rétturinn til að kjósa sjálfir prest til kirkju sinnar; aptur á móti varð því aldrei framgengt, að svipta þá umráðum yfir tekjum kirknanna.

.........

Þannig var það eingöngu yfirgangi klerkastjettarinnar að kenna, að þrengdur var réttur bændakirkjueigendanna, og nú er þetta komið svo langt, að jafnvel gamlir og gætnir menn koma fram með svo fjarstæðar kenningar, eins og í nefndarálitinu: “að réttu hinna svo nefndu bændakirknaeigenda sje mjög vafasamur eða að minnsta kosti mjög takmarkaður”.

..........

Það er ekki góður vottur um frjálslyndi þessa tíma, ef nú er gengið lengra í því að raska rjetti manna en biskupar jafnvel á ramm-katólskum öldum hafa treyst sjer til.

Hitt atriðið sem jeg hefi tekið fram í nefndarálitinu, að þessi lög mundu valda óánægju og ófriði í söfnuðum, álít jeg óefandi. Má vel vera, að þetta verði ekki nema á einstöku stað, og ef til vill í svip, en þó er jeg hræddur um, að þetta kunni að hafa meiri afleiðingar en menn nú sem stendur gera sjer hugmynd um”.

 

 

 

Samkvæmt Alþingistíðindum frá árinu 1895 átti Guðlaugur sæti í nefndum neðrideildar um eftirfarandi mál:

            Áfengisverzlunarbann og var hann skrifari og framsögumaður nefndarinnar.

            Stjórnarskrá og var hann skrifari og framsögumaður nefndarinnar.

            Stjórnarskrármál.

            Prestakallaskipan og var hann framsögumaður nefndarinnar.

            Þurfamenn og var hann framsögumaður nefndarinnar.

Fjáraukalög 1894 og 1895.

Fjárlög 1896 og 1897.

Hólmaprestakall.

Þjóðjarðasala.

 

Samkvæmt reikningsyfirliti í Þingtíðindum þetta ár, fékk Guðlaugur greiddar 372,- kr. í ferðakostnað og 438,- kr. í fæðispeninga.

 

Tillaga til þingsályktunar um stjórnarskrármálið.

Flutningsmenn: Guðl. Guðmundsson, Björn Sigfússon, Jón Jónsson, Ólafur Briem, Valtýr Guðmundsson.

Um leið og neðri deild alþingis lýsir því yfir, að hún heldur fast við sjálfstjórnarkröfur Íslands, eins og þær hafa komið fram á undanförnum þingum, ályktar hún að skora á stjórnina, að taka þær til greina og sjerstaklega hlutst til um:

1.      að löggjafar- og landsstjórnarmálefni, er heyra undir hin sjerstöku mál Íslands, verði eptirleiðis eigi lögð undir atkvæði hins danska ríkisráðs eða borin upp í því;

2.      að gjörð verði með nýjum stjórnskipunarlögum breyting á ábyrgð hinnar æðstu stjórnar Íslands sjerstöku mála, þannig, að neðri deild alþingis geti ávalt, er ástæða þykir til og fyrir sjerhverja stjórnarathöfn, er til þess gefur tilefni, komi fram ábyrgð beinleiðis á hendur hjer búsettum, innlendum manni, er mæti á alþingi;

3.      að stofnaður verði sjerstakur dómstóll hjer á landi, skipaður innlendum mönnum (landsdómur), er dæmi í málum þeim, er neðrideild alþingis eða konungur lætur höfða gegn hinum æðsta stjórnanda hjer á landi.

 

Úr Alþingistíðindum frá árinu 1905

Hraðskeyta og ritsímamálin.

Guðlaugur sýslumaður var formaður í nefnd um Hraðskeytamálið í Neðri-deild. Nefndarálit meirihluta nefndarinnar, um frumvarp til laga um ritsíma og talsíma var eftirfarandi:

      Meiri hluti hraðskeytanefndarinnar, felst á ástæður stjórnarinnar fyrir frumvarpi þessu, álítur nauðsynlegt að landsstjórnin hafi yfirráð yfir öllum hraðskeytasamböndum innanlands, að trygging sé fyrir sem mestu samræmi í starfrækslu þeirra og skeytagjöldum.

      Vér leggjum því til að frumvarpið verði samþykkt, en leyfum oss að gera nokkrar breytingartillögur, og munum vér færa ástæður fyrir þeim, þá er málið kemur til umræðu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

BREYTINGARTILLÖGUR:

1.      við 2. gr.   Í stað “fyrir 5 ár í bili að minnsta kosti” komi: fyrir alt að        því  5 ár í bili.

2.      við 11. gr. Í stað “leggja leiðsluþræði” komi: leggja talsíma, ritsíma eða leiðsluþræði.

3.      við 14. gr. Í stað “9., 10., 12., 13., gr. komi: 9., 10., 11. gr. 1. stafl. og 12. gr.

 

Neðri deild Alþingis12. ágúst 1905.

 

Guðl. Guðmundsson                      G. Björnsson                        Árni Jónsson

       formaður                         skrifari og framsögumaður

                 

                  Björn Bjarnason                                         Jón Jónsson

_______________________________________

 

Símamálið                  

Þá var hann einnig formaður og framsögumaður í nefnd í Neðri -deild um ritsíma og talsímamálið.

Voru miklar deilur á Íslandi á árunum 1905 –1906 um hvernig staðið skyldi að fjarskiptum Íslendinga við umheiminn og lagningu síma innanlands.Hannes Hafstein hafði gert samning við Mikla norræna ritsímafélagið 1904 um lagningu ritsíma til Íslands. Skyldi lagður sæsími til Seyðisfjarðar en landlína um Akureyri til Reykjavíkur. Á Alþingi 1905 var deilt á samninginn vegna kostnaðar og töldu stjórnarandstæðingar hina nýju loftskeytatækni, Marconiskeyti, ódýrari og æskilegri kost. Fundir voru haldnir víða um land til að mótmæla samningnum, t.d. bændafundurinn. Lyktir urðu að samningurinn var samþykktur á Alþingi 1905, verkið unnið og deilurnar hjöðnuðu.

 

                  Í  9. gr. laganna segir:

Hver landeigandi er skyldur til að leyfa, að ritsímar og talsímar landssjóðs séu lagðir um land hans, yfir það eða í jörðu, og að efni það, er þarf til lagningar þeirra og viðhalds, svo sem grjót, möl o.s.frv., sé tekið þar sem næst er; svo er og hver eigandi húss eða annars mannvirkis skyldur að leyfa, að símar þessir séu lagðir yfir þau, á eða undir þeim...............

 

Þingmálafundir um allt land gerðu í júní og júlí, samþykktir um málið.

Á þingskjali 340 árið 1905 segir m.a.:

Þingmálafundur í Vík í Vestur-Skaptafellssýslu 17. júní.

Ritsímamálið: Fundinum þótti íhugaverður samningurinn við hið”Stóra norræna”, og þó hvað helst landsímalagningin og viðhald landsímans í framtíðinni, og tillaga var samþykt á þessa leið:

“Fundinum þótti ritsímasamningurinn, er gerður var í haust, hættulegur fyrir fjárforræði landsins og sjálfstæði, og skorar því á þingm. sýslunnar [Guðlaug Guðmundsson - innskot GHj] og  Alþingi í heild sinni, að fá þeim samningi hrundið.

Jafnframt vill fundurinn að þingið rannsaki ýtarlega, hvort gildandi fjárlög hafa gefið ráðherranum heimild til slíks samnings við ritsímafélagið St. norræna.

Ennfremur telur fundurinn hraðskeytasamband við önnur lönd og innanlands nauðsynlegt, og skorar á þingið að neyta allrar orku til að komast að hagkvæmum samningum í því efni”.

____________  

 

Þingmálafundur á Akureyri 18. júní.

Ritsímamálið. Eptir nokkrar umræður var svo hljóðandi tillaga samþykkt með 53 atkvæðum gegn 18.

“Út af aðgerðum stjórnarinnar í ritsímamálinu lýsir fundurinn yfir því, að hann telur ekki feingna vissu fyrir tryggilegu sanbandi við umheiminn öðruvísi en með ritsíma, en telur slíkt samband svo þýðingarmikið fyrir landið, að hann skorar á þingið, að gera fullnægjandi ráðstafanir til þess, að það fáist á næsta ári, svo og að talsímastöð verði sett á Akureyri, og svo víða á landinu, sem þingið álítur sér fært, einkum á Ísafirði”

 

Það getur ekki hafa verið auðvelt fyrir Guðlaug að vera formaður og framsögumaður í nefnd um ritsíma- og talsímamálið þegar fyrrverandi og þáverandi sveitungar hans stóðu að samþykktum sem voru ekki á þeirri línu sem ráðamenn þjóðarinnar vildu.

 

________________  

 

Bændafundurinn

Í Fjallkonunni þann 4. ágúst 1905 segir meðal annars svo frá fundi sem haldinn var þann 1. ágúst:

                  Bændur koma.

Fyrsti dagur ágústmámaðar 1905 mun ávalt verða talinn einn af mestu merkisdögum í sögu þjóðar vorrar.

Áhugamiklir kjósendur úr öllum kjördæmum sunnanlands, austan frá Jökulsá á Sólheimasandi og vestur að Hítará, komu þá saman hér í Reykjavík, svo hundruðum skifti, til þess að mótmæla stefnu stjórnarinnar í stórmálum landsins, og skora á þingið að hlíta vilja þjóðarinna.

                  ..........

                  Tillöga dagskrárnefndarinnar í ritsímamálinu var eftirfarandi:

Bændafundur í Reykjavík skorar á alþingi mjög alvarlega að hafna algerlega ritsímasamningi þeim, er ráðherra Íslandsgjörði síðastl. haust við stóra norræna ritsímafélagið. Jafnframt skorar fundurinn á þing og stjórn, að sinna tilboðum loftskeytafélaga um loftskeytasamband milli Íslands og útlanda og innanlands, eða fresta málonu að öðrum kosti að skaðlausu, og láta rjúfa þing og efna til nýrra kosninga.

                  .................

Tillögurnar (Ritsímamálið og undirskriftamálið) voru samþykktar með öllum atkvæðum.

.......................

 Fundurinn sem hér er talað um var haldinn í “Báruhúsinu”. Trúlega hafa verið um 300 – 400 manns á þeim fundi.

Ráðherra hafði samþykkt að taka á móti fulltrúum mótmælenda og var safnast saman við Báruna og gengið að Lækjartorgi. Ráðherra vildi hvorugri áskoruninni sinna. Þegar fundarmenn heyrðu viðbrögð ráðherra tók Þorsteinn Thorarensen bóndi á Móeiðarhvoli til máls og hrópaði:”Niður með þá stjórn, sem ekki vill hlýða þjóðarviljanum. Niður með ráðherrann!” Mannfjöldinn tók undir þetta með ferföldum húrrahrópum.

Blaðið Fjallkonan segir um mótmælin að “Jafnmörg þúsund manna hafa víst sjaldan safnast saman hér á landi. Manngrúinn þjappaði sér saman á torginu og upp eftir Bankastræti og söng ættjarðarsöngva hvern á fætur öðrum. (Rétt er að hafa í huga að blaðið hélt fram málstað andmælenda í umfjöllun sinn á þessum tíma svo rétt er að taka fjölda mótmælenda með fyrirvara –GHj)

Eftir fundinn á Lækjartorgi fóru mótmælendur inn á Austurvöll.

__________________________

 

Ritsímamálið kom fyrst til verulegrar umræðu í neðri deild við 2. umræðu fjárlaga þar. Í Fjallkonunni frá þessum tíma segir:

“Guðl. Guðmundsson hóf þær umræður sem framsögumaður meirihluta ritsímanefndarinnar með ræðu sem stóð í 21/2 klukkustund. Merkilegt var það, að í ræðukaflanum um kostnaðinn vék hann ekki að því, að eftir tilboðunum frá loftskeyta-félögunum eigum vér að fá allar tekjur af loftskeytasambandinu og eignast öll verkfærin eftir 20 ár. Mesta áherslu lagði hann á talsímasambandið í sveitum, sem fengist með ritsímasamningnum. 18 stöðvar ættu að vera í frjósömustu héruðum landsins. Ekki gat hann samt um, hvar slíkar stöðvar ættu að vera í Árness og Rangárvallasýslu. Viðvíkjandi öryggi bar hann aðallega fyrir sig ummæli Krarups, verkfræðingsins danska, sem er í stjórnarinnar þjónustu og sagt hefir um loftskeytin allar þær vitleysur, sem prentaðar eru eftir honum í Þjóðófi og einu af fylgiskjölum hraðskeytamálsnefndarinnar.

Um heimild ráðherrans til að semja komst hann að þeirri aðalniðurstöðu, að ráðh. Hefði verið skyldur til að semja, en þingið hefði fullt vald til þess að rifta þeim gjörðum. Fjárveitingarvald þingsins gæti hann ekki bundið. Eftir því á aðalatriði þeirrar varnar, sm stjórnin lét J.Ó. færa fyrir sig í Andvara að hafa verið ein vitleysa.

Það höfuðatriði, hvernig samningur ráðherrans takmarkar gersamlega að óþörfu frelsi og sjálfstæði Íslendinga, mintist þessi ræðumaður alls ekki á, eins og að það væri svo lítilsvert, að um það þyrfti ekki orðum að eyða.

_________________________________________

 

Ekki voru flokksfélagar Guðlaugs í Framsóknarflokknum heldur sérlega ánægðir með sýslumanninn. Í Fjallkonunni þann 10. ágúst 1905 byrtist eftirfarandi frétt:

                 

                  Úr Framsóknarflokknum

hefir þingmanni Vestur – Skaftfellinga, hr. Guðl. Guðmundssyni verið vikið. Flokkurinn hefir sent honum eftirfarandi bréf.

 

Þar sem þér, hr. Alþingismaður, hafið á þeim fáu flokksfundum Framsóknarflokksins, er þér sóttuð í byrjun þessa þings, lýst yður andstæðan skoðun og stefnu flokksins í helztu áhugamálum hans á þessu þingi, þeim er mestu varða sjálfstæði og fjárhag þjóðarinnar, og þar sem þér hafið nú síðast eigi að eins fallist á tillögur stjórnarflokksins í hraðskeytamálinu, heldur meira að segja gjörst framsögumaður hans í því máli, þá tilkynnist yður hér með, að Framsóknarflokkurinn á alþingi1905 hefir á fundi í dag ályktað að telja yður eigi lengur flokksmann sinn, og er yður þar með vikið úr flokknum.

 

Í umboði Framsóknarflokksins á alþingi 1905

                  Alþingi 8. ág. 1905

                              Skúli Thoroddsen

 

Til

      hr. alþm. Guðlaugs Guðmundssonar

                  p.t. Reykjavík

 

 

___________________________________________

 

 

 

IV Slökkvilið á Akureyri

Á 13. fundi Nd., mánudag 17. júlí [1905], kom frumv. til laga um að stofna slökkvilið á Akureyri til 1. umr. (A73).

Flutningsmaður Guðlaugur Guðmundsson (þm. V.-Sk.): Jeg skal að eins taka fram, að frumv. þetta er öldungis samhljóða lögum þeim, sem gilda fyrir Seyðisfjarðarkaupstað. Bæjarstjórn Akureyrar hefur útvegað sjer slökkvitól og töluverður áhugi er vaknaður hjá bæjarbúum, að koma slökkvifærum sínum í gott horf. Jeg vona, að málið fái að ganga sinn rólega gáng í gegn um þingdeildina.

ATKVGR.: Málinu vísað til 2. umr. í e. hljóði.

 

Á 15. fundi Nd., miðvikudag 19. júlí, kom frumv. til 2. umr.

Enginn tók til máls.

ATKVGR.: 1. gr. frumv. samþ. í e. hlj.

                    2. gr. frumv. samþ. í e. hlj.

  3  gr. frumv. samþ. í e. hlj.

                    Fyrirsögn samþ. á atkvgr.

                    Frumv. vísað til 3. umr. í e. hlj.

 

Á 17.fundi Nd., föstudag 21. júlí, kom frumv. til 3. umr.

Flutningsmaður Guðlaugur Guðmundsson (þm. V.-Sk): Það hafa engar umræður orðið um þetta mál og engar breytingartill. verið gjörðar við frumv. Frumv. þetta er í fullu samræmi við lög þau, sem samþ. hafa verið um slökkvilið á Seyðisfirði, og jeg vona, að frumv. verði samþykkt óbreytt og umræðulaust og afgreitt frá hinni háttv. deild.

ATKVGR.: Frumv. samþ. í e. hlj. og afgreitt til Ed.

 

Á 19. fundi Ed. Þriðjudaginn 25. júlí, kom frumv. til 1. umr. (A. 147).

Enginn tók til máls.

ATKVGR.: Frumv. vísað til 2. umr. með 11 samhlj. atkv.

 

Á 21. fundi Ed. fimmtudaginn 27. júlí, kom frumv. til 2. umr.

Enginn tók til máls.

ATKVGR.: 1. gr. frumv. samþ. í e. hlj.

                    2. gr. frumv. samþ. í e. hlj.

  3. gr. frumv. samþ. í e. hlj.

  Fyrirsögn frumv. samþ. án atkvgr.

  Frumv. vísað til 3. umr. í e. hlj.

 

Á 23. fundi Ed. , laugardaginn 29. júlí kom frumv. til 3. umr.

Enginn tók til máls.

Frumv. í heild sinni samþ. í e. hlj. og afgreitt til stjórnarinnar sem lög frá alþingi