Ásdís María Mogensen

Mánudaginn 13. október, 2003 - Minningargreinar

 

Ásdís María Mogensen fæddist á Akureyri 9. mars 1918. Hún lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 6. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Pétur Hafsteinn Ásgrímsson, f. 27.6. 1890, d. 19.12. 1950 og Margrét Ólöf Guðlaugsdóttir, f. 21.4.

 

ÁSDÍS MARÍA MOGENSEN - mynd

 
 
Ásdís María Mogensen fæddist á Akureyri 9. mars 1918. Hún lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 6. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Pétur Hafsteinn Ásgrímsson, f. 27.6. 1890, d. 19.12. 1950 og Margrét Ólöf Guðlaugsdóttir, f. 21.4. 1893, d. 21.5. 1927. Systkini Ásdísar eru: 1) Guðlaugur Pétursson, f. 15.12. 1913, d. 11.5. 1987, 2) Hanna Margrét Pétursdóttir Rafnar, f. 20.12. 1914, d. 2. 9. 1988, og 3) Karólína Pétursdóttir, f. 17.11. 1919.

Ásdís giftist 17.12. 1940 Axel Henning Mogensen, f. á Seyðisfirði 27.2. 1913, d. 13.6. 1968. Dætur Ásdísar og Axels eru Guðrún Ingeborg Mogensen og Karen Margrét Mogensen. Barnabörnin eru þrettán.

Útför Ásdísar fór fram í kyrrþey 11. september.

 

 

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

 

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Þegar komið er að kveðjustund vil ég með nokkrum orðum minnast hennar ömmu minnar.

Þegar ég sat hjá ömmu á spítalanum síðustu dagana sem hún lifði, þá byrjaði ég að sakna hennar. Þessi söknuður hefur aukist, en þó gleðst ég yfir því að hún hefur fengið líkn og ég veit að það hefur verið tekið vel á móti henni. Ég minnist liðinna stunda, allt frá því að ég var lítil stelpa og fram á þennan dag. Amma hefur skipað stóran sess í tilveru minni alla tíð. Móðurfjölskylda mín er ekki stór og hittumst við löngum hjá ömmu. Þegar ég varð eldri breyttist samband okkar ömmu, við urðum vinkonur. Ömmur eru hafsjór af minningum og þeim deildi amma með mér. Sögum frá því hún var ung, frá uppvexti sínum og systkina sinna, frá afa sem dó árið 1968 og ég man svo lítið eftir, frá mömmu og Kæju frænku þegar þær voru litlar og frá bernskuárum mínum. Þessar minningar eru mér dýrmætar. Ég sat hjá ömmu löngum stundum, drakk allt of mikið kaffi og við spjölluðum um daginn og veginn. Oftast nær vorum við sammála, en þó ekki þegar kom að stjórnmálum og gátum við þá þráttað, báðar vissar í okkar sök. Amma fylgdist vel með fréttum og öllum íþróttaviðburðum allt fram á síðasta dag. Það átti ekki við hana að eldast og var hún ung í anda. Var hún ágætlega hraust allt fram á síðasta ár sem var henni erfitt, reyndust þá dæturnar Guðrún og Karen henni vel.

Amma bjó í Lönguhlíð síðustu tvö árin sem hún lifði, þar leið henni vel og á starfsfólk þar, svo og starfsfólk Heimahlynningar Krabbameinsfélagsins og Líknardeildarinnar á Landakoti, miklar þakkir skildar fyrir þá umönnun sem henni var veitt. Það gleður hjarta mitt að amma þjáist ekki lengur, hún dó á friðsælan hátt umkringd fjölskyldu sinni.

Blessuð sé minning hennar.

 

Guðrún Jónsdóttir.

Á tíma eins og þessum koma minningarnar streymandi upp í hugann. Ég minnist helst þess tíma þegar við bjuggum í sama húsi í Bogahlíðinni, ég nýlega orðin ófrísk að frumburðinum og valdi það að leigja íbúð í sama stigagangi og þú. Eftir að Karen Margrét fæddist eyddum við miklum tíma hjá þér og ég og þú urðum miklar vinkonur og töluðum um hluti sem ég veit að þú talaðir ekki um við neinn annan. Á milli okkar ríkti mikill trúnaður sem skiptir mig svo miklu máli í dag. Ekki leiddist okkur heldur að slúðra saman. Það sem við gátum hneykslast á hinum og þessum og fengið þvílík hlátursköst yfir einhverju öðru. Fyrir utan félagsskap okkar af hvor annarri eru viss atriði sem voru ómissandi hluti af heimsóknunum, t.d. ískalt kók, ísblóm, mackintosh molar og síðast en ekki síst Séð og heyrt blöð.

Mér finnst enn svo óraunverulegt að þú skulir vera búin að kveðja þennan heim, ég sakna þín svo mikið. En þessi ömurlegu veikindi báru þig endanlega ofurliði og þú fékkst hvíldina sem ég veit að þú vildir þessa síðustu dagana. Ég veit að foreldrar þínir og Axel maðurinn þinn (afi) hafa tekið á móti þér opnum örmum. Ég veit líka að þú munt vaka yfir okkur öllum og fylgjast með okkur. Guð geymi þig, elsku amma mín, minningarnar um vinskap okkar munu lifa með mér alltaf. Sjáumst síðar.

Þín,

Friðrika.