Minning um Björn Jóhannsson

Þegar Björn Jóhannsson varð fréttastjóri Morgunblaðsins á sjöunda áratugnum hafði það starf verið í höndum ritstjóra blaðsins á annan áratug, eða frá því Ívar Guðmundsson lét af því starfi snemma á sjötta áratugnum og fór til Sameinuðu þjóðanna. Ívar hafði gegnt þessu starfi af þeirri snyrtimennsku sem honum var eiginleg, raunar sem fréttaritstjóri, en kom í sama stað niður því það er ekki titlatogið sem ber manninum vitni, þegar upp er staðið, heldur hvernig unnið er og sá árangur sem er ávöxtur starfsins.
Björn Jóhannsson - mynd

 
Í sextugsafmæli Björns hélt Matthías Johannessen ritstjóri honum ræðu í tilefni afmælisins.

Segja má að í raun og veru hafi ekki verið þörf á neinum fréttastjóra, þegar fréttahaukar eins og Sverrir Þórðarson skipuðu liðssveit ritstjórnar blaðsins, en hann og hans líkar höfðu gamla samfélagið í fingurgómunum, ef svo mætti segja. Þá var fjölbreytni minni en nú er og í augu skar, ef góða frétt vantaði. Fréttanefið var því ekki síður mikilvægt en nú, nema síður væri; allt lagt upp úr því að vera fyrstur með fréttina, kallað skúbb á fréttamáli. Nú heyri ég sjaldan talað um það.

Þegar Björn kom að Morgunblaðinu hafði hann starfað við Alþýðublaðið. Okkur fannst hann of góður keppinautur og buðum honum starf á Mogga.

Hann tók því.

Það var lán fyrir blaðið svo traustur sem hann var. Auk þess átti hann í ríkum mæli þá vöggugjöf sem hverjum stjórnanda er mikilvægust, góða dómgreind. Og vegna þeirra krafna sem gerðar eru til blaðs allra landsmanna var það góður og raunar mikilvægur kostur.

Svo átti hann einnig annað mikilvægt veganesti í baráttunni við hégómlegt áreiti umhverfisins, góðan húmor. Gat verið galsafenginn á góðum stundum.

Samstarfið við Björn var gott og flekklaust alla tíð. Hann var hógvær maður og kunni metnaði sínum hóf. Því fylgir gæfa og sálrænt jafnvægi.

Hann var góður blaðamaður og vissi það sjálfur. Hann var ánægður með eigið hlutskipti og aðrir nutu góðs af því. Þeir sem eru óánægðir með sjálfa sig menga umhverfið, því þeir eru einlægt óánægðir með aðra.

Björn var ekki einn þeirra, þvert á móti.

Nærvera hans var fagnaðarefni. Hann var ekki einn þeirra sjálfsvitringa sem hafa þurft að skrifa fixeraða ævisögu til að ná sér niðri á gömlu umhverfi. Hann tróð aldrei illsakir við nokkurn mann, en tátlaði hrosshárið sitt eins og feðgarnir í kroniku Mosdæla og þá með þeim hætti að til farsældar horfði.

Það er alltaf verið að tönnlast á pólitík, þegar fjölmiðlar eru nefndir. Mogginn hefur ekki farið varhluta af því. En um það var ekki spurt, þegar Björn tók að sér verkstjórn á ritstjórn blaðsins.

Hann var enginn stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins, hann var hafnarfjarðarkrati og sómdi sér vel í því hlutverki. Það kom auðvitað aldrei niður á fréttaþjónustu blaðsins. Þegar hér var komið var að því stefnt á hverju sem gekk að halda þessu tvennu aðskildu, fréttum og pólitík. Tókst að mestu og því betur sem á leið kalda stríðið.

Björn var mikill NATÓ-sinni. Hann taldi kommúnismann vondan kost. Og eftir því sem árin liðu lagði hann áherzlu á að hann væri hægri krati. Það merkti einatt að hann væri kominn hægra megin við okkur sunnudagskratana í Sjálfstæðisflokknum. Ég nefni þetta einungis til að minna á, hve allt þetta skvaldur um hægri og vinstri er í raun merkingarlaust eftir að kalda stríðinu lauk. Það vissi Björn einnig og hafði að gamanmálum, ef því var að skipta. Það vita líka allir að enginn íslenzkur kapítalisti kemst í hálfkvisti við Blair og Schröder og umhverfi þeirra, þegar markaðsbúskapur er annars vegar.

Allt þetta vissi Björn og lét sér fátt um finnast. Hélt sínu striki og sinnti verkefnum sínum með ágætum. Heill í hugsun og ævinlega hann sjálfur. Tók að lýjast síðustu árin og færði sig um set á blaðinu. Vann að ritstýringu aðsendra greina. Það er að vísu mikilvægt eins og þetta markaðstorg er orðið. Yfirfullt af blaðursömu karpi sem nauðsynlegt er að lesa ekki. En þó einhver sterkasta vísbendingin um "opnun" blaðsins! Kallað ritfrelsi.

Í stjórnmálaþrasinu er viðstöðulaust reynt að setja kampavínsmiða á ediksflöskur, það heitir kosningabarátta, og Benedikt frá Auðnum talaði um botnvörpur til að veiða í skrílhylli.

Það er heldur hráslagaleg lýsing á lýðræðinu. En mundi hún vera út í hött? Björn fylgdist undir lokin með þessu aðsenda efni ýmsu af alúð og samvizkusemi og þá ekki sízt þessum botnvörpum; að þær ógni ekki samfélagslegu þanþoli blaðsins.

Það er vandasamt og lýjandi starf.

Oft vanþakklátt.

Þegar annar kappi á ritstjórn Morgunblaðsins hætti störfum vegna aldurs, Þorbjörn Guðmundsson, lagði Björn þessi tímamót upp eins og græskulaus fyndni hans stóð til. Hann sagði að Þorbjörn væri búinn að missa alla dómgreind, hann héldi því fram í fullri alvöru að til væri annað líf eftir Moggann! Þorbjörn væri sem sagt genginn í barndóm! Blaðamennska er fjölbreytt og skemmtilegt starf, getur verið fróðlegt og menntandi, ef upplag og efni standa til þess. Kynni af stórmerku fólki eru einskonar uppbót á hversdagsleikann og ómetanlegt veganesti að auknum þroska.

Að vísu.

En af reynslu minni veit ég það er til annað líf eftir Mogga og hægt að verja því til margra hluta sem eru ekki ómerkari en margvíslegt þjark á fjölmiðli. Þar sem menn eru óvarðir fyrir dómgreindarleysi alls kyns framtóninga og kverúlanta sem halda þjóðin bíði í ofvæni eftir dagskipan þeirra.

Og þetta getur verið ágætt líf, ef því er að skipta. Það er jafnvel hægt að láta drauma sína rætast að fjölmiðlalífinu loknu.

Svo að Þorbjörn hafði þó nokkuð til síns máls! Björn Jóhannsson þurfti ekki að kynnast þessu lífi. Hann hljóp yfir það.

Og það voru snögg vistaskipti því miður, sneggri en nokkurn gat órað fyrir.

Hann hefur þá kannski einnig haft nokkuð til síns máls! Við honum blasir aftur á móti önnur ráðgáta, öllu mikilvægari; þ.e. líf eftir dauðann.

Nú veit hann meira um það en bæði við Þorbjörn og aðrir samstarfsmenn sem hafa horfið til þess lífs eftir Morgunblaðið sem Björn Jóhannsson taldi ástæðu til að hafa í flimtingum. Sálfur hljóp hann yfir bekk, ef svo mætti segja.

Og brautskráðist með láði.

 

Matthías Johannessen.