Föstudaginn 2. maí, 2003 - Minningargreinar
|
Það reynist mörgum torvelt að koma á miðjum aldri inn í fjölskyldu þar sem sterkar hefðir ríkja. Björn var hins vegar strax hluti tengdafjölskyldunnar og oftar en ekki hrókur alls fagnaðar. Hann var fljótur að tileinka sér þær venjur sem giltu á heimaslóðum Guðrúnar í Gnoðarvoginum og hélt þær óspart í heiðri. Þannig sá hann til þess að Vínardrengjakórinn hélt áfram að hljóma í árlegum laufabrauðsbakstri fjölskyldunnar þrátt fyrir að rispum á plötunni fjölgaði ótæpilega með árunum. Vissulega voru Björn og Guðrún ólík en engum duldist að milli þeirra var sterkur samhljómur, væntumþykja og virðing.
Þótt Björn hefði valið sér það lífsstarf að miðla upplýsingum um atburði og fjalla um viðhorf annarra fór því fjarri að hann sjálfur væri skoðanalaus. Þvert á móti hafði hann afdráttarlausar skoðanir á mönnum og málefnum og hafði lag á að setja þær fram svo að eftir var tekið. Hins vegar varð þess aldrei vart að Björn léti eigin viðhorf hafa áhrif á störf sín í blaðamennskunni, enda var hann fagmaður sem bar virðingu fyrir starfinu og lesendum. Þó tók hann sjálfan sig ekki of hátíðlega og kunni að gantast þegar við átti. Hann gerði aldrei lítið úr skoðunum annarra þótt hann teldi sig reyndar vita betur af og til - og oft með réttu.
Þegar vora tók eyddi Björn hverri lausri stund við garðrækt og sýndi ótrúlega natni í því sem öðru sem hann tók sér fyrir hendur. Þannig ræktaði hann upp heilu breiðurnar af blómlaukum og öðrum náttúrunnar gersemum sem hann var sérlega fús að deila með þeim sem ekki höfðu jafnmikið lag á gróðurrækt, en þó aldrei fyrr en sýnt var að ungviðið hefði náð rótfestu og góðar líkur væru á að það næði að blómgast og dafna. Írisar og fleiri jurtir úr Mávahrauninu teygja nú blöðin sín móti sólu í garðinum í Sæviðarsundi og minna okkur á kæran mág og svila sem við kveðjum með söknuði, hlýhug og virðingu.
Snæfríður og Gunnar.
Björn Jóhannsson mágur minn kom inn í fjölskylduna með svipuðum hætti og lífsstíll hans var. Hann fangaði augnablikið með stæl og var sjaldnast miklu þar við að bæta.
Í þessum anda voru fyrstu kynni okkar. Björn og Guðrún systir mín höfðu um nokkra hríð verið að draga sig saman en Björn hafði ekki verið kynntur formlega fyrir fjölskyldunni þrátt fyrir að henni væri vel kunnugt um samdráttinn. Svo var það einu sinni að ég var að skemmta mér í Naustinu og stóð fyrir neðan stigann að loftinu. Björn hafði verið við sömu iðju á loftinu með kollegum sínum úr blaðamannastétt en var á leið niður stigann. Neðarlega í stiganum verður honum fótaskortur, hann hrasar og skellur á bakið á mér. Ég leit upp, þekkti hver þar er kominn og segi að þetta sé ekki rétta aðferðin til að "hitta" menn - ef hann vilji slást eigi hann að koma framan að manni. Hann leit á tilvonandi mág sinn með glampa í augum, glotti og benti á félaga sinn og sagði "Lemdu heldur þennan - hann er framsóknarmaður".
Þegar Björn kom inn í fjölskylduna má segja að tvenns konar menningarheimar hafi mæst. Foreldrar okkar systkina höfðu alist upp sín mótunarár í dýpstu lægð heimskreppunnar þar sem auði var ákaflega misskipt og tækifæri til að brjótast úr fátækt voru sárafá og hafði það mótað lífssýn föður míns. Björn hafði á hinn bóginn brotist til mennta úr sárri fátækt á áratugnum eftir heimsstyrjöldina sem gerði Íslendinga ríka. Mótunarár hans voru þegar betri tímar voru í sjónmáli og tengdu margir breytinguna auknu lýð- og athafnafrelsi. Það fór því ekki hjá því að oft sauð á keipum þegar þeir tengdafeðgar ræddu um dægurpólitík enda Víetnamstríðið og kalda stríðið í algleymingi. Þrátt fyrir mismunandi skoðanir virtu þeir sjónarmið hvor annars en oft var stutt í hótfyndnina. Til að mynda þegar faðir minn hafði á orði að réttast væri að fá sér kafbát og skjóta það hyski sem í allsnægtum sínum réðist á vanþróaða þjóð í nafni frelsisins og væri að sprengja hana aftur á steinöld - þá pantaði Björn far með kafbátnum svo hann gæti snúið byssunum og skotið á Rússana sem heftu tjáningarfrelsið sem væri grundvöllur lýðræðisins og viðunandi lífsafkomu. Kafbátsferðin ógurlega var endurtekin eftir því sem árin liðu, víða var komið við og byssum og spjótum beint á ýmsa staði.
Þrátt fyrir sterkar skoðanir og oft á tíðum afgerandi tjáningarmáta mátti glöggt sjá að undir skelinni var feiminn drengur. Þarna fór mikill tilfinningamaður sem mátti í raun ekkert aumt sjá og ósjaldan mátti greina þunga undiröldu. Það fer ekki hjá því að þó að Björn hafi haft mikla unun af vinnunni var vinnudagurinn oft ákaflega langur og erilsamur sem hefur tekið til sín orku og hugarró. Björn fann sína leið út úr þessari spennu á fullorðinsaldri. Hann hlýddi orðum Voltaire og fór að rækta garðinn sinn í bókstaflegri merkingu þess orðs. Höfum við sjaldan séð aðra eins natni og umhyggju fyrir nýgræðingnum. Krókusar, tóbakshorn og aðrar jurtir litu dagsins ljós í Mávahrauninu. Þau döfnuðu þar vel enda var vel nostrað og hlúð að. Eins þótti okkur merkilegt að sjá til Björns á fyrstu árum hans í Krókahrauninu þegar mikil ormaplága gekk yfir. Í stað þess að úða garðinn fletti Björn upp hverju laufi í runnunum, til að ná til trjámaðkanna sem undu sig inn í laufið. - Það var kallað í kerskni milli okkar að hann væri að leita eftir pólitískum andstæðingum sem leyndust þar.
Þegar hörmungaratburðir eins og ótímabært fráfall verða fer ekki hjá því að því sé velt fyrir sér hvernig lífshlaupið hafi verið, hvort viðkomandi hafi notið lífsfyllingar og skilið við sáttur. Starfsánægja og árangur í starfi vegur næsta örugglega þungt á hamingjuvoginni. Þar var styrkur Björns mikill. Þau lóð vega þó þegar upp er staðið trúlega minna en það að hitta lífsförunaut sem maður virðir, getur deilt með sorg og gleði og haft við andlegt samneyti. Þessu fylgir að geta tekist á um menn og málefni á jafnréttisgrundvelli en þegar gengið er til náða hafi báðir aðilar sagt þá hluti sem þörf er á að segja. Það hefur verið gæfa þeirra hjóna að þróa með sér slíkt samband. Síðast en ekki síst eru það börnin sem líf foreldra snýst einatt um. Björn varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast fjögur mannvænleg börn sem hann var ákaflega hreykinn af. Þau hafa nú öll stofnað til fjölskyldna og fáum duldist ánægja hans með tengda- og barnabörnin.
Við sjáum fyrir okkur þegar þar að kemur - og ef leið okkar liggur í átt til aldingarða Edens - að þar mun standa grannur maður kvikur í hreyfingum og með húfu með brúski á kollinum. Hann er að bjástra við vínviðarrunnana og opnar upp hvert einasta lauf. Garðyrkjumaðurinn mun taka vel á móti göngumóðum gestum en vísa á veg til húsráðenda sem meta munu hvort gestkomendur fái inngöngu í hina eftirsóttu garða - jafnframt segir garðyrkjumaðurinn með glott á vör að hann komi inn síðar þar sem hann þurfi að leita að nokkrum framsóknarormum og kommalúsum sem koma þurfi til betri vegar. Hins vegar liggur kafbáturinn nú ónotaður í nausti.
Davíð og Helga.
Á fjölmennum fjölskyldusamkundum endurspeglast fjölbreytileiki lífsins og mannfólksins í kynslóðum, manngerðum, nærveru og ásýnd.
Nærvera sumra er róleg og yfirveguð á meðan aðrir, á meðvitaðan eða ómeðvitaðan hátt, soga til sín athyglina og gerast gjarnan miðpunktur hennar. Björn var í hópi hinna síðarnefndu. Ávallt vel að sér í málefnum líðandi stundar, hafði skoðanir á mönnum og málefnum og þeim skoðunum var hann óspar á að deila með okkur hinum. Á stundum hélt hann sig til hlés, mætti oft rólega til leiks, en yfirleitt var þess ekki lengi að bíða að hann tækist á flug með gneistandi frásagnargáfu og skemmtilegu skopskyni. Sagði hann þá sögur úr samtíð og fortíð, kryddaði og betrumbætti að eigin geðþótta áður en hann sendi þær með leikrænum tilburðum í loftið. Reyndar var það svo að þau Guðrún sögðu gjarnan sögurnar í sameiningu, ekki alltaf sammála um innihald né endi, málefni né staðreyndir, en ávallt tísti í þeim báðum yfir hvors annars ágæti.
Það var föst hefð hér á árum áður að rífast um stjórnmál fram eftir nóttu á fjörugum kosningavökum. Undanfarin ár ríkti sú hefð að kíkja inn í laufabrauðsgerð til þeirra hjóna á aðventunni, líkt og það var föst hefð að hlusta á áramótaávarp og skála fyrir nýju ári við Björn, við undirspil flugelda í Laugarásnum, og spjalla framundir morgun.
Trén fella lauf að hausti og það er lífsins gangur að eldri kynslóðir falli frá. Öllu sárara er að kveðja á ótímabæran hátt, að því er manni virðist, mann á besta aldri, ungan í anda og atgervi.
Við þökkum þann hlýhug og væntumþykju sem þú ávallt sýndir okkur og þær góðu og litríku minningar sem eftir sitja.
Fyrir hönd fjölskyldunnar,
Egill, Karl og Snæfríð Þorsteins.
Björn Jóhannsson var í forystusveit ritstjórnar Morgunblaðsins í hátt á fjórða áratug. Hann var einn þeirra manna, sem mótuðu þær miklu breytingar, sem orðið hafa á blaðinu á þessum tíma og átti ríkan þátt í að festa það í sessi, sem alhliða fréttablað, þar sem fréttir eru eitt og viðhorf blaðsins sjálfs til stjórnmála annað.
Hann kom úr annarri átt en flestir starfsmenn ritstjórnarinnar í byrjun sjöunda áratugarins, átti sér sterkar rætur í Alþýðuflokknum og hafði starfað um skeið á Alþýðublaðinu. Hann átti af þeim sökum þátt í að skapa aukna breidd á ritstjórninni og í viðhorfi blaðsins til umhverfis síns.
Kynni okkar Björns Jóhannssonar hófust á Morgunblaðinu um miðjan Viðreisnaráratuginn en samstarf okkar varð fyrst náið í byrjun áttunda áratugarins.
Árin 1971 til 1983 voru miklir umbrotatímar í íslenzku samfélagi. Kalda stríðið geisaði af fullri hörku. Stjórnmálaátökin voru gífurlega hörð, sérstaklega á tíma vinstri stjórnarinnar 1971-1974. Tvö þorskastríð voru háð. Seinni hluta þessa tímabils voru mikil átök í forystusveit Sjálfstæðisflokksins.
Á þessum árum sátum við Björn Jóhannsson ásamt Matthíasi Johannessen og nokkrum nánustu samstarfsmönnum okkar á nánast daglegum fundum um kvöldmatarleytið á skrifstofu Björns, sem þá hafði yfirumsjón með öllum fréttum Morgunblaðsins og réðum ráðum okkar um endanlega fréttameðferð næsta dags.
Stjórnmálafréttir Morgunblaðsins breyttust mikið á þessum árum. Þær höfðu verið mjög þröngar en opnuðust nú mjög og raunar enn meir sumarið 1978, eins og koma mundi í ljós, ef fjölmiðlafræðingar samtímans tækju þessi ár til skoðunar.
Blaðið birti mjög ítarlegar fréttir úr innstu herbúðum ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar. Björn Jóhannsson hafði á þessum árum ómetanleg og dýrmæt tengsl við hægri arm Framsóknarflokksins, sem var mjög andsnúinn þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin. Þeir aðilar töldu það henta sínum hagsmunum að eiga samstarf við Morgunblaðið á þessum árum og Björn Jóhannsson var sá milligöngumaður, sem þeir treystu.
En jafnhliða því að stunda ötula fréttaöflun í herbúðum vinstri stjórnarinnar á þessum árum átti Morgunblaðið mikil samskipti við ráðherra í þeirri ríkisstjórn fyrir opnum tjöldum og þeir voru því mikið í daglegum fréttum blaðsins. Þá heyrðum við fyrst fyrir alvöru gagnrýni, sem lítillega hafði bryddað á síðari hluta Viðreisnartímabilsins þess efnis, að almennur fréttaflutningur af málefnum þeirrar ríkisstjórnar, fréttaviðtöl við ráðherra og aðra forystumenn þáverandi stjórnarflokka og að nöfn þeirra væru nánast daglega á síðum blaðsins þýddi einhvers konar óbeinan stuðning blaðsins við ríkisstjórnina. Þetta viðhorf er auðvitað fráleitt en heyrist til þessa dags.
Þorskastríðin tvö á áttunda áratugnum kölluðu á gífurlega vinnu á ritstjórninni vikum og mánuðum saman langt fram á kvöld. Fréttastjóri blaðsins var á bezta aldri og í bezta formi og kunni sitt fag. Daglegt samstarf við Björn Jóhannsson á þessum árum er mér ógleymanlegt.
Við sendum ljósmyndara og blaðamenn í flugvélum til þess að fylgjast með átökunum á fiskimiðunum og blaðamenn okkar fóru í reglulegar ferðir til Bretlands og Brussel til þess að fylgjast með gangi mála þar. Þessum aðgerðum öllum var stjórnað í nánu samstarfi ritstjóra blaðsins og fréttastjórans dag hvern.
Síðari hluta fréttastjóratíma Björns Jóhannssonar tóku við annars konar átök, sem Morgunblaðið átti umtalsverða aðild að á þeim tíma en þar var um að ræða átökin í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Ég hygg að Geir Hallgrímsson hafi ekki átt marga heilsteyptari, einlægari og staðfastari stuðningsmenn á þeim árum en Björn Jóhannsson og hafði Sjálfstæðisflokkurinn þó ekki verið hans vettvangur eins og áður er komið fram. Hann átti hins vegar á þessum árum mikla samleið með Sjálfstæðisflokknum í utanríkismálum. Hann taldi Geir Hallgrímsson heiðarlegasta stjórnmálamann sinnar samtíðar, sem ætti af þeim sökum að eiga stuðning manna í öllum flokkum.
Þetta voru erfiðir tímar. Ritstjórar Morgunblaðsins geta ekki og hafa aldrei getað tekið geðþóttaákvarðanir á ritstjórn blaðsins. Til þess að halda trausti og trúnaði náinna samstarfsmanna og blaðamannanna almennt verða þeir að færa rök fyrir ákvörðunum sínum. Stuðningur Björns Jóhannssonar á þessum árum var ómetanlegur.
Þegar komið var fram undir lok áttunda áratugarins fór Björn Jóhannsson að færa það í tal við okkur Matthías Johannessen að tími væri kominn til breytinga á fréttastjórn blaðsins. Umsvif Morgunblaðsins höfðu aukizt mjög og hann taldi það ekki lengur eins manns verk að sinna daglegri fréttastjórn. Þá voru ráðnir þrír fréttastjórar til þess að sjá um innlendar fréttir, þeir Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson og Sigtryggur Sigtryggsson. Nokkru síðar bættist fjórði fréttastjórinn í hópinn, Ágúst Ingi Jónsson.
Björn Jóhannsson var ráðinn fulltrúi ritstjóra en hafði áfram með höndum fréttastjórn erlendra frétta, sem hann hafði frá upphafi blaðamannsferils síns sérþekkingu á. Jafnframt tók hann að sér umsjón með útgáfu sunnudagsblaðs auk annarra verkefna. Þegar leið á níunda áratuginn tók Björn Bjarnason við erlendri fréttastjórn um skeið og Björn Jóhannsson fluttist yfir á nýjan starfsvettvang. Hann varð einn af leiðarahöfundum Morgunblaðsins og sá að auki ásamt fleirum um móttöku aðsendra greina.
Þrennt einkenndi leiðaraskrif Björns Jóhannssonar. Hann var íhaldsmaður á almannafé og skrifaði í mörg ár helztu leiðara Morgunblaðsins um ríkisfjármál og skattamál. Hann var eins og jafnan áður traustur stuðningsmaður þeirrar utanríkisstefnu, sem fylgt hafði verið frá fyrstu árum lýðveldisins og skrifaði marga leiðara blaðsins um þau málefni.
Og síðast en ekki sízt hafði hann sterka og djúpa tilfinningu fyrir stöðu þeirra, sem minna mega sín í samfélagi okkar. Hann sagði fátt um sína persónulegu hagi en mér er mjög minnisstætt eitt atvik þegar honum ofbauð það sem hann taldi vera skilningslítið tal einhverra samstarfsmanna sinna um málefni atvinnulausra. Þá sagði hann okkur af sterkri tilfinningu frá upplifun sinni sem ungs drengs í Hafnarfirði, þegar faðir hans fór dag hvern niður að höfn til þess að falast eftir vinnu en kom heim án þess að þær ferðir hefðu nokkurn árangur borið.
Þessi lífsreynsla í æsku hafði djúp áhrif á lífsviðhorf hans og mótaði afstöðu hans, hvort sem var í meðferð frétta fyrr á árum eða í leiðaraskrifum síðari árin. Og kom Morgunblaðinu til góða í breiðari og dýpri meðferð viðkvæmra mála.
Eitt erfiðasta daglega verkefnið á ritstjórn Morgunblaðsins snýr að aðsendum greinum. Eftir að dagblöðum fækkaði hefur álagið á Morgunblaðið aukizt gífurlega. Síðustu árin hafði Björn Jóhannsson yfirumsjón með þeim þætti blaðsins. Hann þoldi illa hvað Morgunblaðið veitir greinahöfundum á köflum lélega þjónustu vegna langs biðtíma. Við ræddum oft hverra kosta væri völ. Ein leiðin var og er sú, að takmarka aðgang að blaðinu. Niðurstaða þeirra umræðna hefur alltaf verið sú, að blaðið hefði ákveðnar skyldur sem snúa að skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi og þess vegna væri það betri kostur af tveimur vondum að veita á köflum lélega þjónustu í stað þess að takmarka aðgang.
Ég á Birni Jóhannssyni mikið að þakka eftir áratuga samstarf. Nótt eina í janúar 1973 tók hann ritstjórn blaðsins þegjandi og hljóðalaust í sínar hendur. Það gaus í Vestmannaeyjum. Matthías og Eyjólfur Konráð voru fjarverandi og hann vissi að ungur, nýráðinn ritstjóri kunni lítið til þeirra verka. Og gaf út myndarlegt aukablað morguninn eftir.
Hann sýndi Morgunblaðinu, útgefendum þess og ritstjórum einstaka tryggð. Hann umbar ákvarðanir ritstjóra, sem gátu orkað tvímælis, af því að hann vissi að ritstjórar Morgunblaðsins, hverjir sem þeir eru, þurfa að líta til fleiri átta en við blasir.
Björn Jóhannsson var eftirminnilegur samstarfsmaður, sem mun alltaf eiga sinn sess í sögu Morgunblaðsins.
Styrmir Gunnarsson.
Einhverju sinni var sagt, er góður drengur var burt kallaður úr þessari jarðvist, að þá hefði stöðvazt hugur og hönd þeirra, sem hann þekktu. Þannig varð mér innanbrjósts, er ég frétti af sviplegu andláti starfsbróður míns og vinar, Björns Jóhannssonar, að morgni síðasta vetrardags. Hann hafði eytt páskadögunum í að snyrta garðinn sinn fyrir sumarið og var fullur vonar um að framtíðin bæri í skauti sér betri tíð með blóm í haga.
Björn Jóhannsson var drenglyndur og góður maður. Hann var sanngjarn og sannleiksást var honum í blóð borin, hann þoldi hvorki fals né hræsni, en hann gat verið dulur og hann bar aldrei tilfinningar sínar á torg. Hann var blaðamaður af lífi og sál og hafði mikið yndi af starfi sínu. Hann var hvatlegur í framgöngu og hvers manns hugljúfi og aldrei datt mér í hug að honum yrði ekki langra lífdaga auðið. Hann nefndi það stundum við mig að nú færi starfsaldur sinn að styttast, en ég eyddi því jafnan, hann átti jú tvö ár í starfslok og á honum var engan bilbug að finna. Hann gekk jafnan vasklega fram og Morgunblaðið var honum allt og velgengni þess.
Björn Jóhannsson var mikill pabbi. Honum hafði orðið fjögurra barna auðið og velgengni þeirra var honum mikils virði. Þeirra harmur hlýtur að vera mikill, svo og eftirlifandi eiginkonu hans, Guðrúnar Egilson, rithöfundar og verslunarskólakennara. Velgengni hennar var honum einnig mjög hjartfólgin og hann gladdist mikið yfir frábærum viðtökum, er bók Guðrúnar hlaut á síðastliðnu hausti, en hún reit ævisögu íslenzkrar sönglistakonu í Vínarborg.
Aðstandendum Björns færum við hjónin hugheilar samúðarkveðjur. Við viljum senda Guðrúnu Egilson, Jóhanni Áka, Kristrúnu Helgu, Snædísi Huld og Þorsteini Brynjari samúðarkveðjur við sviplegt fráfall Björns. Minningin um góðan dreng lifir.
Bryndís og Magnús Finnsson.
Björn Jóhannsson var einn af lærifeðrum mínum í blaðamennsku. Síðan er langt um liðið. Ég man hvað hann gat verið leiftrandi skemmtilegur, þótt hann væri á stundum hvass og ákveðinn. Best man ég þó hversu gott var að leita til hans, hvort sem um var að ræða álitamál vegna vinnunnar eða af persónulegum ástæðum. Takk, gamli vinur. Kæra Guðrún, innilegar samúðarkveðjur.
Óli Tynes.
Nokkur þakkarorð til Bjössa Jó. Þakkir fyrir samstarfið á Alþýðublaðinu, í Blaðamannafélaginu og fyrir gleðistundir á ferðalögum. Þakkir fyrir félagsskap og skemmtilegar samræður við kaffidrykkju á Mokka og í Bankastræti 11 og í kvöldmatnum í Alþýðuhúskjallaranum. Þar áttum við í hörðum deilum við sossana af Þjóðviljanum um vestræna samvinnu og uppáhaldsmaturinn var saltfiskur með hamsafloti og rúgbrauði. Maggi Bjarnfreðs og Jökull Jakobsson bættu þar litum við lífið og viti í pólitíska umræðu.
Ritstjórn Alþýðublaðsins var nokkrar þröngar, reykfylltar kompur þar sem fréttir og baráttumál jafnaðarstefnunnar voru hömruð á gamlar Ericur. Gísli Ástþórs kenndi okkur nútímablaðamennsku, Sigvaldi Hjálmarsson og Helgi Sæm gerðu athugasemdir við stílbrögðin og Hannes á horninu brýndi fyrir okkur að lesa Íslendingasögurnar. Þetta voru gróflega skemmtilegir tímar. Þarna bundust margir vináttuböndum, sem áttu eftir að endast.
Björn Jóhannsson var traustur og elskulegur félagi, prúður en staðfastur í skoðunum og skjótur að greina kjarnann frá hisminu. Hann var blaðamaður af guðs náð og erfitt að sjá hann í öðru hlutverki. Þótt ár liðu á milli funda breyttist ekkert. Alltaf sami Bjössi Jó. En nú er hann ekki lengur, sem heilsaði: Sæll gamli! Margir munu sakna hans og þakka verðmæta samfylgd. Það geri ég og segi: Vertu sæll gamli félagi og góðar stundir í þeim heimi, sem okkur er hulinn.
Árni Gunnarsson.
Björn Jóhannsson vildi að hlutirnir gerðust hratt.
En stundum ber þá of brátt að.
Í einu vetfangi hrifsar almættið frá manni vin, samherja og læriföður.
Eftir sitjum við agndofa, lömuð og reynum að koma okkur aftur að verki án þess að hafa hugann við það. Fáir menn hafa mótað mig meira en Björn Jóhannsson. Hann og Matthías. Ég var nánast táningur þegar tilviljun fleytti mér á fjörur Morgunblaðsins. Ég minnist þess að þegar ég byrjaði var Björn í fríi en það var talað um hann af ákveðinni lotningu. Eykon vildi láta eitthvert mál bíða þar til Björn kæmi þar sem hann þekkti það manna best. Gott ef þetta hefur ekki snúist um sjávarútveg en Björn var sérfræðingur blaðsins á því sviði á þeim tíma.
Svo kom Björn - og mér þótti hann fremur kuldalegur gagnvart nýliðanum. En það breyttist skjótt við nánari kynni. Undir pínulítið stífu yfirboðinu bjó einhver skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst fyrr og síðar, frábær sögumaður og húmoristi með ótvíræða leikhæfileika, en líka alvörumaður með djúpt mannlegt innsæi þegar á þurfti að halda.
Björn hafði á sér kratastimpil. Hann kom frá Alþýðublaðinu með mildri brotlendingu hjá Mynd, síðdegisblaðinu sem átti að verða Bild Íslands. Á Alþýðublaðinu hafði hann tekið þátt í að fletta ofan af olíuhneykslinu mikla á Vellinum sem var auðvitað Framsóknarskandall og sennilega ekki verið honum vont veganesti inn á Morgunblaðið, eins og pólitíkin var í þá daga.
Kannski varð það kratisminn sem gerði okkur að fóstbræðrum. Hann vegna bakgrunns síns í Alþýðuflokknum og ég vegna stjórnmálaskoðana föður míns. Einhvern veginn vorum við jafnan spyrtir saman þegar Gamli-Mogginn vildi baða sig í sólskini frjálslyndis og víðsýni um mannval á ritstjórninni, og þegar allt kom til alls var þetta bara svolítið skemmtilegt hlutskipti. Og því síður guldum við þess innan dyra - þótt stundum væri þar rifist hressilega um pólitík.
Í þessu ljósi hefur það þó mátt sæta tíðindum þegar Björn Jóhannsson var gerður að fréttastjóra. Ég minnist þess ekki að ráðningin hafi valdið neinum deilum innan ritstjórnarinnar. Björn var óumdeildur fréttahaukur og fagmaður meðal samstarfsmanna, og það vissu allir hvaða mann hann hafði að geyma.
Fréttastjórinn Björn Jóhannsson er síðan goðsögn þeirra sem hans nutu. Stjórnunarstíll hans var ekki að vera alvaldur og óskeikull heldur að gefa "strákunum" sínum, lærisveinum, hæfilega lausan tauminn, láta þá byggja upp og rækta eigin "kontakta" og skila inn fréttunum sem hann svo mat og staðsetti. Ennþá lifa á ritstjórninni kveðjuorð hans þegar hann yfirgaf vaktina undir kvöldmatarleytið: "Ég verð heima ef eitthvað kemur uppá!"
Krafa hans um sjálfstæði og frumkvæði er sennilega einhver besti skóli sem ungur blaðamaður getur gengið í gegnum. Og þótt talað sé um "strákana" hans lýsir það ekki neinni kvenfyrirlitingu af hans hálfu, heldur var umhverfið einfaldlega þannig í þá daga með fáeinum undantekningum. Á fáum hafði Björn til dæmis meiri mætur en þeim mikla nestor kvenblaðamanna, Elínu Pálmadóttur, og ég veit að það dálæti var gagnkvæmt.
Morgunblaðið á þessum fyrstu árum ungs blaðamanns var mikill skóli, hreinasta akademía ef út í það er farið. Á löngum og ströngum ritstjórnarfundum Matthíasar fékkstu stóru myndina, allt í senn heimsöguna, heimspekina, heimsmenninguna, þjóðararfinn og stóru gildin, samhengið mikla, meðan Björn innrætti okkur smáatriðin í fagmennskunni - að gæta jafnræðis milli allra sjónarmiða, að láta ekki persónulegar skoðanir eða fordóma lita fréttaskrifin - að gæta hlutlægni en ekki hlutdrægni í fréttaskrifum. Vera gagnrýninn á allt. En hann var maður hinna hörðu frétta. Frétt er frétt - og ekkert kjaftæði! Fjölmiðlafræðilegar greiningar voru "húmbúkk" - blaðamennska snýst fyrst og síðast um að vera með "fréttanef" eða ekki. Svo einfalt var það.
Það er dýrmætt eftir á að hafa átt þess kost að eiga með Birni dýrlega kvöldstund fyrir aðeins fáeinum vikum ásamt hörðum kjarna "strákanna" hans, lærisveinunum, bæði burtflognum og eftirlegukindum. Nostalgían sveif yfir vötnum og það voru sagðar sögur, endalausar sögur. Miðpunktur bæði sagna og samkvæmis var gamli fréttastjórinn okkar, heiðursgesturinn.
Þarna naut hann sín. Gamansemin í algleymingi, ýkjusögur á sögur ofan, leikrænir tilburðir sem tæpast sjást lengur á sviði því það kallast ofleikur, hlýja og viðkvæmni. Gamli, góði Björn.
Þess vegna er líka svo sárt að hann skuli vera hrifinn frá okkur með svo skyndilegum hætti.
Við Kristín sendum Guðrúnu og börnunum innilegar samúðarkveðjur.
Björn Vignir Sigurpálsson.
Ekki mun í bráð fenna yfir þau spor sem Björn Jóhannsson skilur eftir og gefur nú samferðafólki í minningu sína. Við vorum grannar um árabil og ég gaf svo sem ekki mikið fyrir seinsprottinn jurtagróður, sem hann hlúði að af natni og vissi að árangur var í engu samræmi við stílbrögð hans á vinnustað. Svo fluttu þau Guðrún um set og ég sá hann sjaldnar en þar óx honum ásmegin í nýjum garði, þeim sem hann hverfur nú frá fullmótuðum í verðandi vordags skrúða. Vináttu hans og velvild átti fjölskylda mín alla tíð. Glettin háttvísi er einstaka góðu fólki gefin. Þeirrar gerðar var Björn Jóhannsson.
Kári Valvesson.
Þegar ég hóf störf á Morgunblaðinu árið 1974 komst ég í kynni við fagfólk, sem gert hafði Morgunblaðið að stórveldi á íslenzkan mælikvarða. Fólk með mikla reynslu og þekkingu í fjölmiðlun. Fólk, sem bjó að víðfeðmri þekkingu, bæði á íslenzkum og erlendum veruleika. Þetta fólk var öxullinn, sem velgengni blaðsins snérist um.
Björn Jóhannsson var þá í framvarðarsveit blaðsins. Hafði lengi verið. Var og allar götur þar til kall hans kom. Reynsla hans, þekking og hæfni, sem allt var óumdeilt, gerðu hann að þungavigtarmanni á sínum vinnustað. Hann var frábær blaðamaður, árvakur og glöggur. Hann var að auki góður drengur, í þeirra orða beztu merkingu, hjálpsamur og skemmtilegur. Hvers manns hugljúfi. Það vóru forréttindi að mega telja hann til vina sinna.
Það er stundum sagt að í milljörðum mannkyns finnist engir tveir einstaklingar, sem séu sammála um eitt og allt. Það var þó sjaldan sem skoðanir okkar, Björns og mínar, gengu sitt til hvorrar áttar. Við áttum skoðanalega samleið um flest er laut að stjórnmálum, heima og erlendis. Fyrir kom að mér fannst það eins og að horfa í skoðanaspegil að hlusta á Björn ræða málin. Þessi skoðanasamleið knýtti okkur vináttuböndum.
Í annríki, spennu og streitu starfsins sló hann oft á létta strengi. Með bros í augum skaut hann kímnigerðri stríðnisör að vinnufélögum. Allt var það þó í góðu gert, enda hugurinn hlýr sem að baki bjó. Flestir áttu og hauk í horni, þar sem hann var, ef á þá var hallað.
Áratuga streitustarf, sem fól í sér önn og ábyrgð, var farið að lýja kappann. Hann talaði á stundum, seinni árin, og með nokkurri tilhlökkun fannst mér, um árin eftir Mogga, þegar hægt yrði að strjúka um frjálst höfuð, sinna betur persónulegum áhugamálum og horfa í ró og spekt á fegurð lífs og tilveru. Þau ár fær hann ekki hérna megin "landamæranna". Á hinn bóginn er það ekki stílbrot í lífsmunstri hans að kveðja í annríki starfsins.
Björn Jóhannsson var maður hinna gömlu gilda drengskapar, háttvísi, heiðarleika, hjálpsemi, orðheldni og vinnusemi. Hann stóð trúan vörð um borgaralegt lýðræði, frjálsræði í atvinnu- og efnahagslífi, vestræn þegnréttindi og kristin viðhorf og siðfræði. Það er mikil eftirsjá að slíkum manni. Morgunblaðið er fátækara að honum gengnum. Vinir hans ekki síður. Mestur er þó missir eiginkonu og barna. Við Gerða kveðjum Björn Jóhannsson með virðingu, þökk og bæn um fararheill. Eiginkonu og öðrum aðstandendum sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Stefán Friðbjarnarson.
"Viltu ekki líta á þetta og prófa að skrifa úr þessu frétt?" sagði Björn hvetjandi við nýráðinn grænjaxl á erlendri fréttadeild Morgunblaðsins haustið 1983 og rétti fram nokkur fréttaskeyti um hryðjuverk á Írlandi. Mér leist illa á og eftir að hafa setið yfir skeytunum dágóða stund fór ég til fréttastjórans og sagðist ekki hæf til verksins. Björn tók því furðu vel og fór að ræða daginn og veginn. Mér þótti undarlegt að í stað þess að ærast yfir því að sitja uppi með ónothæfan starfsmann gæfi hann sér góðan tíma til uppbyggilegra og heimspekilegra samræðna. Þetta hlaut að vera merkur maður. Daginn eftir fór ég á innlenda fréttadeild, en við Björn áttum sem betur fer eftir að vinna saman síðar og ávallt sýndi hann mér mikið traust.
Með Birni er genginn einstakur maður og mikill öðlingur. Sem yfirmaður var hann sanngjarn og hann bar hag blaðamanna sinna fyrir brjósti. Sem samstarfsmaður var hann skemmtilegur og viðræðugóður. Samstarf okkar var alla tíð gott og ánægjulegt, ekki síst í tengslum við blaðauka Morgunblaðsins um gróður og garða, enda var Björn bæði fróður og áhugasamur um efnið. Síðast þegar ég hitti Björn var það einmitt í Blómavali, skömmu fyrir páska. Þar var hann stálsleginn og farinn að huga að vorverkum í garðinum.
Það er alltaf jafn óvænt að sannreyna hversu þunnur þráðurinn er milli lífs og dauða. Fæstum okkar auðnast nokkurn tímann að búa okkur undir missi ástvinar, ættingja, vinar eða samstarfsmanns. Ég kenni sárt í brjósti um fjölskyldu Björns og sendi henni einlægar samúðarkveðjur.
Brynja Tomer.
Mig langar til að kveðja góðan vin og vinnufélaga til margra ára, Björn Jóhannsson. Í mínum huga verður hann ávallt eitt af stórmennunum sem ég kynntist þegar ég, ungur piltur í sumarvinnu, hóf störf á Morgunblaðinu. Á ritstjórnarfundum sat ég úti í horni og hlustaði á þá sem stjórnuðu blaðinu og skipulögðu vinnudaginn. Það var einhver besti skóli sem hægt var að hugsa sér. Þar fékkst yfirsýn yfir allt mögulegt sem sneri að daglegu lífi fólks og þekking á ótrúlegustu sviðum mannlífsins.
Björn var fréttastjóri á þessum árum og góður félagi sem hvatti mann áfram af festu og ákveðni. Gera allt eins vel og hægt var og helst betur - eins og Óli K. Magnússon. Ég fór hægt af stað, kunni lítið, en lærði hægt og rólega.
Mig langar að nefna eitt atvik. Björn sendi mig að mynda björgun á strönduðum báti sem átti að draga á flot. Ég var spenntur að fara og reyndi að leyna því, sem tókst að sjálfsögðu ekki. Þegar ég þaut úr húsi kallaði hann á eftir mér og sagði mér að koma. Hann horfði hvasst á mig og sagði: "Þú - farðu varlega!" Ég jánkaði því, en á þeim tíma var það "að fara varlega" ekki til í huga mínum. Það eitt komst að að bregðast ekki því trausti sem Björn sýndi mér, né heldur lesendum blaðsins sem Björn bar ávallt fyrir brjósti.
Björgunin á fiskibátnum mistókst því veður versnaði skyndilega. Myndirnar sem ég tók sýndu atburðinn og sorg mannanna sem misstu bátinn sinn. Sem betur fer varð enginn mannskaði. Björn tók nærri sér að sjá hvernig fór, eins og flestir fréttamenn hefðu gert. En svona er fréttamennskan; skráning á Íslandssögunni í máli og myndum. Daginn eftir sló Björn á öxlina á mér og sagði: "Þú stóðst þig vel, svona áttu að vinna í framtíðinni." Eftir það varð ekki aftur snúið.
Björn var ótrúlegur maður sem gat svipt burt þungum þönkum á svipstundu og kallað fram bros. Ég gat alltaf leitað ráða hjá Birni, sama hvað bar við. Það er ekki langt síðan ég spurði Björn hvernig stæði á því að í jafnlitlu samfélagi og á Íslandi skuli jafnmargir og raun ber vitni vinna við það eitt að hafa afskipti af fólki sem vill bara lifa í sátt við Guð og menn með fjölskyldu sinni. Mér var mikið niðri fyrir. Björn sló á öxlina á mér, líkt og þegar ég var að byrja á Morgunblaðinu, og sagði: "Raxi minn, lífið á að vera skemmtilegt og það á enginn að fá að eyðileggja það fyrir okkur. Maður verður að hafa þroska til að leiða svoleiðis fólk hjá sér." Það var eins og nótt hefði breyst í dag og enn gekk ég glaður frá Birni. Árans, ég sem ætlaði að vera í vondu skapi þann daginn!
Björn var einn af stólpunum í Morgunblaðsfjölskyldunni sem ég ólst upp með. Fjölskyldu sem staðið hefur saman í gegnum súrt og sætt og manni getur ekki annað en þótt vænt um.
Ég kveð nú kæran vin og vil þakka fyrir allt sem hann gerði fyrir mig. Björns verður sárt saknað en minningin um hann muna lifa í huga okkar um ókomna tíð. Að leiðarlokum færi ég fjölskyldu Björns mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið Guð að geyma kæran vin.
Ragnar Axelsson.
Björn Jóhannsson var blaðamaður. Fljóthuga, kvikur, smart, fagmaður fram í fingurgóma, sígarettan á sínum stað lengst af. "Cigarette me!" segir stjörnufréttamaðurinn við ritstjórann í frægri senu kvikmyndarinnar Front Page þar sem hann hamrar inn forsíðufrétt á síðustu stundu. Þannig ímyndar maður sér að Björn hafi verið á stórveldistímum Alþýðublaðsins og þegar hann stýrði merkri tilraun til þess að brjótast undan oki flokksblaðanna með útgáfu blaðsins Myndar. Og nú hefur Björn skilað inn sinni síðustu frétt, "deadline".
Ég var orðinn vel málkunnugur Birni þegar ég átti því láni að fagna að kynnast honum náið í störfum fyrir Norðurlandaráð. Sem aðalritstjóri Nordisk kontakts á árunum 1985-1990 átti ég gott og farsælt samstarf við Íslandsritstjóra blaðsins. Þá hafði Björn gert norrænum þingmönnum og áhugafólki um samstarf norrænna þjóðþinga grein fyrir störfum Alþingis og þróun stjórnmála á Íslandi um áratugaskeið. Hann miðlaði óspart af reynslu sinni og þekkingu og varði mig af miklum drengskap gegn pólitískri tortryggni.
Í alþjóðlegu samstarfi skipta opinn hugur, fagmennska og áreiðanleiki miklu og alla þessa eiginleika hafði Björn til að bera; nýjar hugmyndir kveiktu neista, afstaða hans til blaðamennsku stóðst allan alþjóðlegan samanburð og aldrei brást að efnisskilin væru á réttum tíma. Áratuga störf hans að þessu verkefni, meðfram önnum sem fréttastjóri á Morgunblaðinu, urðu aldrei að flokkspólitísku bitbeini á Íslandi, og er það til marks um heiðarleika Björns og vandvirkni.
Anker Jörgensen, fyrrum forsætisráðherra Dana, sagði eitt sinn við okkur Björn að þegar hann væri búinn að fletta Nordisk Kontakt rifi hann út danska yfirlitið úr blaðinu og styngi því niður í skúffu við sæti sitt í þingsalnum. "Þannig get ég alltaf gengið að því vísu hvað ég hef verið að gera hérna í þinginu," sagði Anker. Blaðið var í raun frekar málgagn þjóðþinganna en Norðurlandaráðs og þar gafst bæði yfirlit yfir störf þeirra og gott tækifæri til þess að bera saman áherslur og viðfangsefni. Internetið með heimasíðum þinganna hefur að vissu marki tekið við hlutverki þess.
Norrænir starfsfélagar okkar kunnu vel að meta Björn Jóhannsson. Sameiginleg ferðalög annað hvert ár vítt og breitt um Evrópu lögðu grunn að náinni vináttu og skilningi. Eftir daga Nordisk kontakts vann hann með norrænu starfsbræðrunum að greinum í Nordisk tidskrift og blöð norrænu félaganna. Hann hafði einnig einstakt lag á því að bregða birtu á hversdaginn. Með engum manni hef ég hlegið jafn innilega og oft í síma og Birni Jóhannssyni. Í hvert skipti sem hringt var í hann á Morgunblaðið, þar sem hann átti drýgsta hlutann af sinni starfsævi, urðu hressilegt viðmót hans, glaðværð og skemmtileg sjónarhorn á tilveruna til þess að maður kvaddi hann glaður í bragði. Í íslensku skammdegi eru slíkir menn ómetanlegir.
Guð blessi minningu Björns Jóhannssonar.
Einar Karl Haraldsson.
Enn eru mér í fersku minni fyrstu kynni okkar Björns Jóhannssonar.
Það var í byrjun júní 1972 og ég var að hefja störf sem sumarmaður á Mogganum. Mér var vísað inn til fréttastjórans sem var önnum kafinn við að undirbúa ritstjórnarfund dagsins. Björn sat og punktaði hjá sér minnisatriði um innlendar og erlendar fréttir á gulan renning, svokallað fyrirsagnablað, en hafði lítinn tíma til samræðna. Svo leit hann upp og dreif mig með sér á fundinn. Fundir ritstjóra Mbl. með blaðamönnum á þessum tíma voru reyndar nýliðum í blaðamennsku mikil opinberun og á við besta háskólanám í þjóðfélagslegum málefnum. Oft var langt liðið á vinnudaginn þegar blaðamenn komust til að sinna þeim verkefnum sem þeim hafði verið úthlutað af ritstjórum og fréttastjóra þann daginn.
Kynni okkar Björns Jóh. og samstarf var með miklum ágætum allt þar til yfir lauk. Björn reyndist mér traust haldreipi þau ár sem ég var viðloðandi ritstjórn Morgunblaðsins og afar góður yfirmaður, í senn hvetjandi og kröfuharður. Hann lagði áherslu á vandvirkni og nákvæmni við vinnslu frétta og kenndi mönnum að vinna hratt undir álagi og tímapressu.
Það var gaman að fylgjast með honum sjálfum pikka hratt á gömlu brúnu ritvélina sem prýddi skrifborð hans á þessum tíma. Hann var fundvís á broslegar hliðar mála og einatt með gamanyrði á vör þótt hann tæki starf sitt og ábyrgðina sem því fylgdi mjög alvarlega.
Með árunum urðum við góðir vinir og eftir að ég hóf afskipti af stjórnmálum hvatti hann mig til dáða en sagði mér jafnframt harkalega til syndanna ef svo bar undir. Björn var um árabil ritstjóri hins íslenska hluta tímaritsins Nordisk Kontakt sem gefið var út af Norðurlandaráði til margra ára. Áttum við einnig gott samstarf og ánægjulegar samverustundir í tengslum við þau verkefni meðan ég gegndi trúnaðarstörfum á þeim vettvangi.
Með þessum orðum vil ég þakka Birni Jóhannssyni fyrir lærdómsríka samfylgd. Ég leit á hann sem vin minn og velgjörðarmann og mun ávallt minnast hans með þakklæti og hlýju. Ég votta Guðrúnu, ekkju hans, og fjölskyldu allri innilega samúð okkar Ingu Jónu.
Geir H. Haarde.
Á lífsleiðinni komast fæstir hjá því að rekast á þau sannindi, að örveikur þráður skilur milli lífs og dauða, einnig ástar og haturs. En það mun innbyggt í manninum að fyrnist fyrir þessar staðreyndir og er líkast til eitt af lögmálum framþróunarinnar og allífsins. Það sem er í dag er farið á morgun.
Þó er alltaf eitthvað í framrásinni sem minnir sérhvern á forgengileika lífsins, um leið skynjar viðkomandi nálægð og kraftbirting verundarinnar, að hann hafi komandi daga í fangið. Við hrökkvum þó alltaf við í hvert skipti sem eitthvað óvænt og afdrifaríkt á sér stað, einkum ef það á við einhvern nærri okkur, lifandi í gær, fortíð í dag.
Þannig var það með Björn Jóhannsson, sem mér vitandi kenndi sér ekki meins, alltaf jafn upptendraður dags daglega er fundum okkar bar saman einhvers staðar í húsi Morgunblaðsins, en einn morguninn allur. Gömul saga en þó alltaf ný.
Björn var einn þeirra sem ég hafði samskipti við varðandi rýni- og greinaskrif mín, hafði valist til þess að taka á móti slíku efni tímabundið fyrir margt löngu, er ýmsar breytingar áttu sér stað sem reyndust er tímar liðu kímið að menningardeild blaðsins, þótt enn væri nokkuð í land að hún tæki á sig form. Áður hafði ég skilað skrifum mínum til almenns fulltrúa ritstjóra og þegar mikið lá á til þeirra sjálfra, sem voru allt í öllu á þessum árum, stóðu jafnvel niðri í prentsal og röðuðu efni í blað morgundagsins. Við Björn urðum fljótlega góðkunningjar enda áttum við sameiginlegt áhugamál sem var ris norrænnar samvinnu, hann um árabil ritstjóri Nordisk Kontakt og fékk mig til að skrifa í ritið. Aðrir tóku við af honum varðandi móttöku rýnisskrifa og menningardeildin tók smám saman að fá á sig form, en mér er þetta tímaskeið sérstaklega minnisstætt. Seinna átti ég stundum erindi á skrifstofu hans varðandi ýmis mál og greiddi hann alltaf jafn alúðlega úr þeim, tókum þá iðulega tal saman og léttar sögur fóru á milli sem báðir höfðu mikið gaman af. Björn sagði vel frá og lifði sig allur inn í atburðarásina, augnsvipurinn pírinn og glettinn og hláturinn innilegur. Sagði annars ekki Sören Kierkegaard að húmorinn væri mikilvægasti eiginleiki mannsins, og skyldi það ekki mikið rétt?
Björn fór einhvern tíma til Taívans, og sagði mér af fornminja- og þjóðháttasafninu mikla þar. Mál var að Chiang Kai-shek hafði á flóttanum undan Mao Zeodong sópað til sín öllum lausum menningarverðmætum og flutt til Taívan. Hann vissi að annars væri hætta á að allt glataðist og varð hér sannspár, lítum bara til menningarbyltingarinnar. Sagði safnið stórkostlegt og hvatti mig endurtekið til að reyna að komast þangað og skrifa um, var farinn að lauma Taipei Review í pósthólf mitt á blaðinu, sem er mikið menningarrit. Aldrei kom tækifæri til að kynnast Birni utan blaðsins, en einhvern veginn var hann þannig af guði gerður að maður hefði gjarna viljað hafa hann að ferðafélaga út í heim, sjálfur heimsmaður að skaphöfn.
Hér skyldi aðeins sögð örsaga af vænum kynnum er skilja mig ríkari eftir.
Bragi Ásgeirsson.
Betri samstarfsmann en Björn er vart hægt að hugsa sér, svo glöggur, nákvæmur, og fljótur til verka sem hann var.
Það var árið 1998, sem ég fór fram á það við hann að skrifa árlegt yfirlit um stjórnmála- og efnahagslíf á Íslandi í norrænt tímarit, Nordisk Tidsskrift, sem ég sit í ritstjórn fyrir. Hann tók verkið að sér og sinnti því með miklum sóma til dauðadags. Grein hans um árið 2002 bíður nú birtingar, tilbúin af hans hálfu vel fyrir lok skilafrestsins. Þannig sinnti hann af alúð því sem hann tók að sér.
Auk ábyrgðarstarfa á Morgunblaðinu og ýmissa félags- og trúnaðarstarfa átti Björn langan og farsælan feril á norrænum vettvangi og eignaðist þar fjölda góðra vina. Hann var íslenskur ritstjóri tímaritsins Nordisk Kontakt um árabil þar til útgáfu þess lauk árið 1966. Björn, sem skildi manna best þörf þess að kynna og auka skilning erlendis á íslenskum málefnum, var alla tíð ósáttur við að tímaritið skyldi lagt niður og lá ekki á þeirri skoðun, enda hreinskilinn og hreinskiptinn.
Björn stuðlaði með skrifum sínum um íslensk málefni á norrænum vettvangi að aukinni þekkingu og skilningi annars staðar á Norðurlöndum á Íslandi, íslensku þjóðfélagi og stjórnmálum. Fyrir það og fyrir einstaklega góð samskipti vil ég á skilnaðarstundu þakka. Ritstjórn Nordisk Tidskrift og samstarfsmenn sakna góðs liðsmanns. Við Haraldur sendum Guðrúnu, börnum hans og öðrum ástvinum einlægar samúðarkveðjur.
Snjólaug Ólafsdóttir.
Glaðlyndi og leikgleði var aðalsmerki hans og leyndi sér aldrei í fasi. Eins öruggt og sólin reis á hverjum morgni kom hann eins og stormsveipur til verkefna hvers dags. Í tuttugu ár vann ég með Birni Jóhannssyni á Morgunblaðinu og ég sá hann aldrei ganga rólega. Hann var einfaldlega ekki smíðaður til þess. Það var gott að eiga hann að, það var gott að búa við vináttu hans.
Björn var eitt af höfuðankerum ritstjórnarinnar, frábær blaðamaður, fréttastjóri og stjórnandi. Hann var mjög kappsfullur og metnaðargjarn fyrir hönd Morgunblaðsins og lesenda þess og léttleiki hans smitaði alla sem komu við sögu. Hann kunni svo vel að fá menn til að vinna með sér og lykillinn var sá að hann treysti sínum mönnum. Það var svo oft sem maður sá að þetta traust skilaði frábærum árangri og allt varð léttara í annars mjög flóknu og vandasömu starfi blaðamanns sem skilar efni til að segja frá fyrst og fremst en ekki selja á kostnað staðreynda sem eru minna forvitnilegar.
Björn var prakkari af Guðs náð og góður sögumaður, enda miðlaði hann óspart skemmtisögum til gesta og gangandi, en þó fyrst og fremst til vinnufélaganna. Brosið hans og augnsvipurinn þegar svo bar til lýstu engu öðru en blússandi vellíðan.
Stundum gat Björn orðið all óðamála í hita leiksins, en það vandi okkur blaðamennina einfaldlega á að hlusta hraðar en ella. "Við verðum að ná þessu," sagði Björn oft þegar hann hafði ákveðinn augastað á frétt sem ýmislegt var óljóst um, en Björn gat verið yndislega ýtinn og einhvernveginn fékk hann mann til þess að hugsa sem svo að þótt allar leiðir virtust lokaðar, þá væri alltaf ein leið eftir, það þyrfti bara að finna hana. Þetta bregst aldrei ef hugarfarið er rétt.
Það voru mikil hlunnindi að vinna með Birni Jóhannssyni. Þau sjónarmið sem maður lærði af Birni eru eins konar líftrygging og þá líftryggingu þarf aldrei að endurnýja svo lengi sem lifir. Því þau byggjast á rótum vinarþels og trausts milli manna. Sá andi Morgunblaðsmanna er öflugur.
Megi góður Guð styrkja eftirlifandi og varðveita þá, minningin um Björn Jóhannsson er gott og dýrmætt fararnesti í lífsins leik. Á hinn bóginn er víst að það er skemmtilegra hinumegin núna, það fylgir glaðlyndi og leikgleði
Árni Johnsen.
Líklega hef ég kynnst Birni Jóhannssyni best þegar hann m.a. hafði þann starfa á Morgunblaðinu að taka á móti umsögnum um bækur og annast samskipti við gagnrýnendur, útgefendur, höfunda og fleiri. Þá kom oft í hans hlut að skipta verkum milli gagnrýnenda. Það er ekki þrautalaust. En Björn vann þetta verk vel og skipulega í krafti reynslu sinnar af ritstjórn og fréttastjórastarfi.
Hratt og ákveðið þurfti að vinna. Umsögn var þó sjaldan unnt að skrifa jafnhratt og frétt en umsögn er líka frétt. Stundum voru umsagnir undirritaðs svo margar að við lá að þær sköguðu hátt upp í fjölda daga í árinu. Það var þegar við bættust umsagnir um leiksýningar og menningarrýni.
Þetta hefur breyst núna þegar gagnrýnin er í margra höndum.
Ýmsan vanda sem kom upp leysti Björn svo að flestir gátu verið sáttir.
Björn var áhugasamur um norræna samvinnu og það áttum við m.a. sameiginlegt. Ég minnist þess að ég skrifaði mörg yfirlit um liðin bókaár í Nordisk Kontakt, en þá var Björn íslenskur ritstjóri. Nú seinast vann hann fyrir blað norrænu félaganna í Finnlandi.
Þá þurfti mikið að lesa og starf gagnrýnandans kom að góðu gagni.
Björn átti auðvelt með að vinna með öðrum. Meðan hann starfaði fyrir Nordisk Kontakt var Einar Karl Haraldsson aðalritstjóri á tímabili og þótt þeir væru kannski ekki sammála um allt og ekki flokksbræður varð að ég held enginn ágreiningur.
Skoðanir Björns voru í borgaralegum anda. Hann var áður blaðamaður Alþýðublaðsins og "kannski krati í hjarta sínu" eins og hann sagði eitt sinn í gamni. Það var því ekki alltaf sem skoðanir hans voru nákvæmlega þær sömu og þeirra sem stóðu honum næst á Morgunblaðinu. Hann þurfti að greiða fyrir og taka á móti greinum sem andstæðingar hans skrifuðu og fer þeim heldur fjölgandi og fá æ meira vægi í blaðinu í þeirri trú að það sé skrifað af allri þjóðinni og fyrir hana eins og hún leggur sig.
Margt af því sem Björn skrifaði var ekki merkt honum sérstaklega, en benda má á eina undantekningu, íslenska kaflann í Árbók Bókaútgáfunnar Þjóðsögu sem hann samdi og lét sér einkar annt um. Kaflinn er dæmi um farsæl ritstörf Björns enda voru þeir miklir mátar, hann og Hafsteinn Guðmundsson, forstjóri Þjóðsögu.
Ég var svo heppinn að hitta vin minn, Björn, nokkrum dögum fyrir andlát hans og spjalla við hann í ró og næði. Það kom mér ekki á óvart að kallið kom í garðinum heima hjá honum því að hann var sannkallaður garðyrkjumaður og hugði að því samkvæmt Voltaire að hverjum ber að rækta sinn reit. Fjölskylda Björns naut þeirra viðhorfa.
Á fréttastjóratímum hans minnist ég máltíðar með sænska rithöfundinum Per Olof Sundman sem sat hinn kátasti í hópi Morgunblaðsmanna. Sérstaklega vel fór á með þeim Birni. Þeir höfðu oft hist þegar þeir unnu báðir að norrænum efnum.
Björn var dæmigerður blaðamaður af rótgrónum skóla, vann eins og berserkur en gætti þess að vanda sig. Honum mátti treysta og er það góður eiginleiki blaðamanns.
Með láti hans verður daufara yfir íslenskum blaðaheimi sem er að þróast í þá átt að glata sérkennum sínum og gera alla eins.
Jóhann Hjálmarsson.
Leiðir okkar lágu saman á Alþýðublaðinu. Við hófum báðir störf þar kornungir menn, rúmlega tvítugir að aldri.Við unnum saman sem blaðamenn á fréttadeild blaðsins í nokkur ár og það tókst strax með okkur einlæg vinátta, sem hélst alla tíð. Björn var eldhugi bæði við störf og á sviði áhugamála. Hann var mikill jafnaðarmaður, Hafnarfjarðarkrati, og við náðum vel saman í starfi og á sviði stjórnmálanna. Björn var mjög góður blaðamaður, vandvirkur og duglegur. Það var sama hvaða verk honum var falið. Hann vann það vel. Hann hafði mikinn áhuga á alþjóðamálum og hafði gaman af að ræða um þau mál ekki síður en innlend stjórnmál. Við ræddum mikið saman um innlend og erlend stjórnmál en auk þess áttum við einstaklega gott með að vinna saman við fréttaöflun og blaðamennsku almennt. Björn lét af störfum á Alþýðublaðinu 1962, er hann var ráðinn ritstjóri við nýtt dagblað í Reykjavík, Mynd. Er hann hætti störfum þar hóf hann störf á Morgunblaðinu og vann þar sem blaðamaður, fréttastjóri og fulltrúi ritstjóra til dauðadags.
Við Björn höfðum gott samband okkar í milli í mörg ár eftir að hann hætti störfum á Alþýðublaðinu. Hann starfaði um árabil með okkur Tómasi heitnum Karlssyni við umsjón á útvarpsþættinum "Efst á baugi", sem við önnuðumst í 10 ár. Höfðum við þá reglulegt samband. En fundum okkar fækkaði eftir að þátturinn "Efst á baugi" var lagður niður og ég hætti blaðamennsku. Þó hittumst við reglulega um skeið, fengum okkur kaffi saman, ræddum pólitíkina og önnur áhugamál. Við náðum ávallt vel saman og samfundir okkar voru skemmtilegir. En þetta samband okkar slitnaði síðan alveg í mörg ár. Skömmu fyrir fráfall Björns hittumst við og ræddum einmitt um það að endurvekja fundi okkar. En það var ekki komið í framkvæmd, er Björn andaðist.
Það er mikil eftirsjá að Birni Jóhannssyni. Hann var frábær blaðamaður og ég sakna vinar í stað.
Ég votta eftirlifandi eiginkonu, börnum og öðrum aðstandendum innilega samúð mína vegna fráfalls Björns Jóhannssonar. Drottinn blessi minningu hans.
Björgvin Guðmundsson.
Það hefur fleirum en mér brugðið við fréttina um lát vinar míns Björns Jóhannssonar ritstjórnarfulltrúa á Morgunblaðinu. Það hefur mörgum vinum Björns brugðið í brún og þeirsakna nú vinar í stað.
Ég kynntist Birni allnáið er við héldum upp á 10 ára afmæli Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, með alls kyns sýningum og blaðaskrifum í vikutíma. Þá nutum við aðstoðar ritstjórnar Morgunblaðsins og var Björn þá fremstur í flokki.
Síðan hefur Björn verið leiðandi maður í fyrirgreiðslu á birtingu greina um málefni aldraðra. Hann fylgdist af lífi og sál með starfi okkar og vildi fá að vita nánar um það og var sífellt hvetjandi í að efla starfsemina. Það var þá alltaf gott að hitta Björn og reyndar aðra á ritstjórn blaðsins.
Mér fannst Björn vera einn af mínum persónulega vinum og því gott að vitja hans. Hann vildi helst tala um málefni daglegs lífs og ég fann hve hann bar hagsmuni eldri borgara fyrir brjósti.
Þetta ber mér að þakka og þann hug og dug sem hann sýndi málstað okkar.
Aðstandendum færum við innilegar samúðarkveðjur.
Páll Gíslason, fyrrv.
formaður FEB í Reykjavík.
Rúm hálf öld er nú liðin síðan fyrst mættist í hauststillunni fyrir norðan hópurinn, sem vorið 1956 útskrifaðist sem stúdentar frá MA.
Auk okkar sem áttum heima á Akureyri og höfðum fylgst að upp eftir skólakerfinu frá barnæsku og tekið síðan landspróf eins og byrjaði voru komnir til liðs við okkur hópar frá fjörrum landshlutum úr skólum, sem við, heimalningarnir, kunnum varla að nefna.
Frá Núpi í Dýrafirði kom t.d. vaskt lið og ekki allt af Vestfjörðum. Í því liði var Hafnfirðingurinn Björn Jóhannsson.
Kvikur og upplitsdjarfur, glaðvær og skemmtinn átti hann eftir að verða í innsta hring árin okkar fjögur í MA og dró hvergi af sér.
Hann var inspektor okkar máladeildarfólks og hafði til þess allt sem þurfti, tók embættið eins hátíðlega og honum þótti sæma og ríkti við almennt traust.
Menntaskólaárin hafa í fjarlægðinni á sér blæ glaðværðar og ævintýra, sem við minnumst mörg með dálítið upphöfnum söknuði þegar best lætur. Þetta voru dagar ilms og lita og lífs og leiks og söngs og gleði og ástir og sorgir inn á milli eins og þurfti svo nú allt væri eins og hæfir ungum mönnum og konum sem eru að æfa sig að lifa.
Svo þurfti líka að lesa ögn, sitja á Gildaskála KEA, laumast í forboðnar veigar og svo voru reykt einhver ósköp af misgóðu tóbaki, sungið í kór og sett upp leikrit.
Og þegar ég reyni að lífga þessi ár með mér í huganum er Björn alls staðar þar sem bjartast er yfir og glaðast og lætur til sín taka. Þegar hann svo á lokaári okkar tók að sér aðalhlutverkið í Æðikollinum eftir Holberg þótti okkur hinum ekki hægt miklu þar við að bæta í túlkuninni og leikgleðinni eða innlifuninni. Björn fór á kostum.
Hann var snarpur námsmaður og lagði sérstaka rækt við og náði góðum árangri í íslensku, ensku og sögu og nýttist vel í þeim störfum sem biðu hans.
Það varð svoleiðis einhvern veginn að með okkur tókst fljótt kunningsskapur og síðar vinátta sem stóð alla daga síðan.
Haustið 1957 héldum við saman til Edinborgar og vorum þar í herbergi vestur í Learmont Gardens, sólarhringarnir þar misjafnir í laginu og mig dreymir til þess að ilmur af olíulitum og terpentínu væri ekki besta angan sem Björn andaði að sér en við sluppum frá því sem öðru sem á gekk.
Hann að lesa, ég að mála og við báðir eins og nýsloppnir út í heiminn og ekki allt samkvæmt námsskrá sem við tókum okkur fyrir hendur. International House við Princes Street tók við af Gildaskála KEA og hafði hvor tveggja veitingaskálinn til síns ágætis nokkuð þótt með ólíkum hætti væri. Vináttan styrktist.
Björn fór á undan heim að vinna á Alþýðublaðinu og þar hófst blaðamennskuferill hans sem síðan varð óslitinn og á sér ekki margar hliðstæður.
Það átti fyrir okkur að liggja að vera hvor í sínum landsfjórðungi þegar við hófum baráttuna fyrir lífinu.
Ég norður í landi, hann fyrir sunnan en vorum fljótir að ná upp viðeigandi vængjaslætti þegar við hittumst, sem þó var sjaldnar en gott var.
Bjartur sumarmorgunn skömmu eftir að við Guðbjörg erum sest í Ólafsfjörð og hann kemur við í sumarleyfi einu sinni sem oftar og við fórum í Fjarðarána að kankast á við bleikju og líka þar í veiðiskapnum bar hann sig til með snaggaralegri hætti en algengast er. Hylurinn hreint ekki spegilsléttur eftir að Björn var kominn með stöngina út í hann miðjan með talsvert íburðarmeiri sveiflum og hljómstríðari áslætti á vatnsskorpuna en tíðkast hjá öðrum iðkendum íþróttarinnar en veiddi samt.
Hann lagði þó ekki fyrir sig stangveiði í frístundum síðan.
Hins vegar reyndist hann áhugasamur ræktunarmaður í garðinum heima og kom okkur á óvart, vinum sínum, undi þar vel og var býsna stoltur að sýna garðinn sinn vel gróinn og blómlegan.
Mislangt var síðar milli heimsókna en ekki kaupstaðarferð sem stæði undir nafni hjá okkur hjónum utan komið væri til Guðrúnar og Björns í Hafnarfjörð.
Og svoleiðis var sl. haust að ég þurfti að koma afurðum í Hús málaranna á sýningu að enn efndu þau til veislu. Tóku á móti okkur með rausn og hlýju, glaðværð og glæsileik eins og svo oft áður. Það geislaði af þeim. Enn eitt ógleymanlegt kvöld í sjóðinn. Nýjasta bókin hennar Guðrúnar, Saga Svanhvítar Egilsdóttur, nýkomin úr prentsmiðju, Björn stoltur af því tilefni líka, glaður og reifur og nú í fyrsta sinn orðaði hann við okkur hugmyndir um hvernig hann dreymdi um að verja eftirlaunaárunum þegar þar að kæmi og kemur ekki við þessa sögu.
Við drukkum hestaskál og kvöddumst á stéttinni að Mávahrauni 3.
Bjartir júnídagar. Stúdentahópurinn frá MA 1956 hefur hist eins og hefð er til. Björn Jóhannsson var traustur þegn Menntaskólans á Akureyri, bar hlýjan hug til skólans og minntist áranna þar með gleði, brá sér í líki kennara og skólasystkina með eftirhermum á glaðværum stundum og naut endurfundanna af slíkum ákafa að stundum mátti maður hafa sig allan við að fylgja honum eftir enda hafði hann stundum orð á því að hann tímdi ekki að sofa bjartar afmælisnæturnar fyrir norðan.
Við sitjum nú eftir dálítið skrýtin til augnanna og vitum að öðruvísi verður næst þegar við hittumst og fögnum tímamótum.
Mörgum finnst helst til langt á milli funda. Þeir höfðu því um það forystu í byrjun þessa árs Björn, Friðjón Guðröðarson og Knútur Bruun að bæta úr því og kalla skólasystkin til kaffidrykkju einu sinni í mánuði til að endurnýja vináttu og kunningsskap, rifja upp og hlýja sér við gamlar minningar. Það var vel til fundið hjá þeim og mjög var það í anda Björns að vilja halda saman hópnum og til skila því sem tengt hefur hann saman árin öll síðan lífið var eftirvænting.
Orða er vant þegar kemur að þætti Guðrúnar hans Björns í lífi hans og hamingju. Fjörmiklar gáfur hennar og kankvíst viðhorf til lífsins var honum mikilsverðara en ég hefi hæfileika til að orða. Aðdáun okkar á hún, þakklæti og vináttu. Henni sendum við einlægar samúðarkveðjur, börnunum og fjölskyldunni allri.
Skólasystkinin frá MA, stúdentar 1956, kveðja Björn Jóhannsson með þökk og söknuði. Blessuð sé minning hans.
Kristinn G. Jóhannsson.
Þegar ég hitti Björn Jóhannsson í fyrsta skipti þótti mér hann ekki árennilegur maður. Ég stóð skjálfandi fyrir framan hann í Morgunblaðshúsinu og reyndi að telja hann á að birta í blaðinu grein sem ég hafði skrifað. Honum þótti allt að greininni. Hann sagði mér að breyta greininni svona og svona og ef ég gerði það skyldi hann birta hana. Hann stóð við orð sín.
Ferðir mínar til Björns urðu margar og mörg urðu símtölin. Smám saman kynntist ég manninum á bak við andlitið sem mér hafði þótt bera svo strangan svip. Hann reyndist bæði hjartahlýr og leiftrandi gáfaður.
Ég mun aldrei gleyma þessum mæta manni sem ég hef síðari ár talið til minna betri vina. Hann kenndi mér svo margt hann Björn. Hann kenndi mér að tjá mig í rituðu máli og hann sagði mér að ef ég vildi vera marktæk ætti ég ekki að skrifa nema tvær greinar á ári í blaðið og þá aðeins um baráttumál mín.
Þau voru svo mörg og svo góð heilræðin hans.
Ég votta Guðrúnu Egilson, konu Björns, og börnunum fjórum innilega samúð.
Hvíl þú í faðmi Guðs, góði vinur minn.
Auður Guðjónsdóttir.