Hrakningar þýskra strandmanna á Svínafellsfjöru.
Þorgrímur Þórðarson, læknir í Borgum var fenginn suður á Síðu árið 1903 og vann þar mikið afrek ásamt héraðslækninum þar, Bjarna Jenssyni,
við lækningu þýskra strandmanna.
Í einkabréfi til Þorleifs Jónssonar frá Guðlaugi sýslumanni í mars 1903 getur sýslumaður lítið eitt læknisafreka Þorgríms á strandmönnunum, er strönduðu þar á söndunum og lágu úti í hörkufrostum og kól.
Guðlaugur segir: "Þorgrímur er kominn langt með að aflima strandmennina, og það hefur allt heppnast prýðilsvel að þessu, og verður svo vonandi fram úr, en ekki var það árennilegt í fyrstu. Hann hefur tjóðrað mig á þeim blóðvelli alla daga og látið mig hafa þá virðulegu(!) atvinnu að halda fótunum, og
kann ég honum enga þökk fyrir."
Fyrir þessa miklu læknishjálp á þýskum strandmönnum voru þeir læknarnir, Þorgrímur og Bjarni Jensson, heiðraðir með prússnesku rauðu arnarorðunni.
Björn Þorgrímssson hefur sagt mér, að faðir sinn hafi fengið bréf frá vélameistaranum og fleirum þeim, er teknir voru fætur af, og væru þeir mjög þakklátir læknunum fyrir þeirra miklu hjálp. Sagt var líka, að þýskir læknar hefðu látið ánægju sína í ljós yfir ágætum frágangi og umbúnaði íslensku læknanna. Nákæmar er sagt frá þessum þýsku strandmönnum í fréttagrein í Fjallkonunni 12. apríl 1903. Þar segir svo:
"Þorgrímur læknir er fyrir skömmu kominn heim til sín vestan af Síðu. Hann hefur verið þar yfir þýskum mönnum af "Friedrich Albert" frá Gestsemünde, sem strandaði á Svínafellsfjöru 19. jan. s.l., og er búinn að taka af þeim fimm mönnum, sem kólu, átta fætur og allar af tveim fótum, þeir eru nú að mestu grónir og líður vel, eru allfrískir og kátir."
Annars er öll þessi hrakningssaga þýsku strandmannanna mjög átakanleg og sýnir best þær hörmungar, er strandmenn gátu lent í á þeim tímum á hinum hættulegu eyðisöndum í Skaftafellssýslu. Og með því að ég býst við, að lesendum þessarar bókar, (Þorleifur í hólum ævisaga), leiki forvitni á að heyra hana, set ég hana hér, eins og hún birtist í blöðum þeirra tíma.
Í Fjallkonunni 17. febrúar1903 segir svo:
" 19. janúar strandaði þýskt botnvörpuskip austan til á miðjum Skeiðarársandi.
Þar eystra eru margar landtökur ekki góðar, en þessi staður er þó langvoðalegastur þeirra allra. Þaðan eru nálega 5 mílur upp að jöklinum, þar sem sumarvegurinn liggur, en þó enn lengra til mannabyggða, hvort sem farið er austur eða vestur og ófær vötn báðum megin. Skeiðarárósarnir að austan en Hvalsíki að vestan, og þarna eru engar manna leiðir, nema þá sjaldan menn fara þangað á fjörur, og má nærri geta, hvað oft það er farið um háveturinn, þegar öll vötn eru auð, eins og nú var, því þangað er sögð 4-5 stunda reið frá næstu bæjum, þó allan vatnaflákann megi skeiðríða á ísum.
Það var klukkan 10 um kvöld, að skipið kenndi grunns. Á skipinu voru allir í svefni, nema varðmaðurinn einn og skipið fyllti þegar í briminu. Þó komust allir skipverjar, 12, saman lifandi á land nálega kl. 2 um nóttina, þegar fjaraði, því þá hafði rekið upp á flæði, en úr skipinu náðu þeir nær engu, nema einhverjum mat og fötum, og þó litlu. Sem von var, varð vesalings mönnunum fyrst fyrir að fara að leita mannabyggða. Þeir fóru víðs vegar um sandinn og gerðu ýmsar atrennur til að vaða vötnin, bæði upp undir jökul og niður við sjó, en alls staðar óvætt.
Á þessum ferðum þraut þá oft dag og urðu þá að liggja úti á bersvæði og stundum á ísum. En skýli höfðu þeir smám saman gert sér út tunnum og rusli, sem úr skipinu rak, breitt yfir segl og mokað að sandi. En einar þrjár nætur voru þeir í skýlinu, því óttinn við að verða að deyja þar úr hungri rak þá sífellt af stað. Á þessu vonleysiseigri voru þeir í átta sólarhringa, og 28. jan. lagði stýrimaður á stað og ætlaði að reyna að komast vetur yfir vötnin einn sins liðs, en til hans hefur ekki spurst síðan, hefur annað hvort drukknað eða helfrosið.
Þann 29. leggja þeir enn af stað og höfðu þá rekið saman eitthvert flekaskrifli, sem þeir ætluðu að reyna að fljóta á yfir dýpstu álana og drógu það með sér vestur að síki. Þeir sjá þá menn í fjörunum fyrir vestan, en með engu móti gátu þeir vakið athygli þeirra. Vegurinn á milli þeirra var miklu lengri en svo. En svo leggja þeir þó á fremsta hlunn og komast þá loks yfir vatnsflæmið, en tvo félaga sína urðu þeir að skilja eftir helfrosna. Þeir fylgdu svo braut fjörumanna og komust loks að Orustustöðum á Brunasandi næsta morgun, en lúrði undir skipsflaki á fjörunni um nóttina. Þeir höfðu þá verið að hrökklast um sandinn nær fjóra sólarhringa. Þeir voru þá eftir níu og þrír lítið kalnir, en sex mikið og þrír þeirra mjög skemmdir, mest á höndum og fótum.
Einyrki fótalaus, sem á Orustustðum býr, hafði unnið þeim allan greiða, sem hann mátti, en sýslumaður sá þeim síðan fyrir læknishjálp og öðrum nauðsynjum, og eftir skýrslu hans er þetta tekið."
Heimild: Þorleifur á Hólum ævisaga. Skaftfellinga rit, Skaftfellingafélagið gaf út í Reykjvík 1954