Gullúrið

Þess er áður getið, að Guðlaugur Guðmundsson sýslumaður fékk veitingu fyrir Eyjafjarðasýslu og fluttist til Akureyrar í ágústmánuði 1904. Hann varð jafnframt bæjarfógeti á Akureyri.

Menn ráðgerðu að bjóða honum og fjölskyldu hans í kveðjusamsæti að Vík, þá er hann færi þar um á leið út úr sýslunni. Það kom aðalega í hlut síra Magnúsar Bjarnasonar á Prestbakka að gangast fyrir þessu austan Kúðafljóts og í minn hlut, (Gunnars Ólafssonar kaupmanns í Vík í Mýrdal), fyrir vestan, eða í Álftaveri og Mýrdal. Skyldi sýslumanni í samsætinu færður einhver, þótt ekki væri nema smávegilegur minjagripur, t.d. gullúr með áletrun, ef í það næðist.

En það fór í handaskolum, helst vegna þess, að tíminn reyndist of naumur. Við höfðum tekið lagið of seint, og fyrir það hlutum við nokkurs konar "uppslátt", ekki alveg ósvipað því , sem áður er frá sagt, þegar menn ýttu of seint út í brimið. Það gekk bara eins og hjá fleirum, sem taka ekki lagið á réttum tíma.

Við bjuggumst við að geta keypt gullúrið í Reykjavík, en það brást. Við urðum að ná í það frá Kaupmannahöfn, en þá voru samgöngur ekki eins greiðar og síðar varð milli Íslands og Danmerkur, og enn voru bara mánaðarlegar póstferðir milli Víkur og Reykjavíkur.

Auk þess stóð sláttur sem hæst, og menn urðu að sinna honum, hvað sem tautaði. Hér var ekki um annað að gera en hætta á þetta, að minnsta kosti í bili. Og sýslumaður fór úr sýslunni, án þess að menn gætu kvatt hann, eins og upphaflega var ákveðið.

Nokkru síðar kom gullúrið.

Hvað átti nú að gera? Senda það norður með einhverju móti, það urðum við að gera, ekki var annars kostur.

Okkur kom saman um að semja ávarp til sýslumanns, láta skrautrita það í Reykjavík og senda það ásamt gullúrinu norður á Akureyri.

Vegna fjarlægða lenti það einna helst á mér að gangast fyrir þessu. Ég skrifaði Benedikt Gröndal, sendi honum ávarpið og bað hann að skrautrita það fyrir okkur. Skömmu síðar kom bréf frá honum, og sagðist hann vera hættur að skrautrita fyrir aðra, og vildi hann nú vera laus við að gera það fyrir okkur.

Ég skrifaði honum aftur og sagði sem var, að okkur langaði mest til þess, að hans handbragð yrði á skjalinu. En ef þess yrði enginn kostur, þá bað ég hann fá annan mann, er hann teldi til þess hæfan, að skrautrita skjalið. Nokkru síðar kom skjalið skrautritað með handbragði meistarans, eins og við höfðum óskað. Það kostaði 50 krónur, gjafaverð, og borgað með fyrstu ferð.

Leiðast þykir mér nú að eiga ekki bréfin frá Gröndal. Svona er slóðaskapurinn. Ég hefi aldrei haldið þessu eða þvílíku saman og oft saknað þess eftir á. En af einhverri tilviljun hefur uppkatið að ávarpinu ekki glatast. Það er eins og hér segir:

 

Velborni herra sýslumaður Guðlaugur Guðmundsson.

Við brottför yðar úr sýslufélagi voru, þar sem þér hafið starfað í undanfarin 13 ár, vottum vér yður þakklæti vort fyrir starfsemi yðar sýslufélaginu til eflingar og almenningi til heilla.

Þér hafið eigi aðeins reynst oss réttlátt og röggsamt yfirvald, heldur hafið þér og í orði og verki með framúrskarandi dugnaði og hagsýni unnið að velferðarmálum sýslu vorrar.

Fyrrir mikilvæga starfsemi yðar hafa flest framfarafyrirtæki í héraðinu komist fljótt og vel áleiðis.

Þér hafið sem oddviti sýslunefndarinnar, sem amtsráðamaður og alþingismaður haft þýðingarmikinn og víðrækan verkahring og jafnan unnið sýslufélagi voru og landinu í heild mikið gagn.

Þér hafið unnið að útrýmingu áfengis og eflingu bindindis og í því sýnt sömu hæfileika, hinn sama einlæga og sterka vilja sem við önnur störf yðar í þarfir sýslunnar og þjóðfélagsins.

Vér vitum, að sæti það, sem autt var við brottför yðar héðan úr sýslu, er vandskipað og að jafnt lægri sem æðri sakna yðar, því að ekki hafið þér gert yður mannamun, heldur jafnan fylgt orðatæki yðar: Suum cuique (látið hvern og einn hafa sitt).

Vér þökkum yður einlæglega fyrir öll störf yðar vor á meðal, er vér söknum yðar úr sýslufélagi voru, þá gleður það oss, að þér hafið hlotið þá sýslu, er þér óskuðuð að hljóta.

Starfssvið yðar verður nú að vísu víðtækara, en við það munu jafnframt eftir vorri reynnslu betur sýna sig starfsþol yðar og hæfileikar.

Sem þakklætisvott fyrir hin mikilvægu og margháttuðu störf yðar vor á meðal, sem oss munu lengi í minnum verða, biðjum vér yður að þiggja þá litlu gjöf, sem hér með fylgir.

Með einlægri virðingu og óskum um fagnaðarríka framtíð.

 

Skjalið var sent til undirskrifta víðs vegar um sýsluna og að því loknu til síra Matthíasar Jochumssonar á Akureyri, og var hann um leið beðinn að afhenda það, ásamt úrinu, á þann hátt, sem honum þætti best við eiga.

Síðar kom bréf frá síra Matthíasi. Hann sagði í því, að hann hefði fengið með sér til fylgdar nokkra mikils metna menn á Akureyri og hefði hann með þeim heimsótt sýslumann og afhent honum skjalið og gjöfina með tilhlýðilegri viðhöfn og nokkrum orðum.

Ekki get ég fundið bréfið frá síra Matthíasi frekar en bréfin frá Benedikt Gröndal, sem áður eru nefnd. Það er allt á eina bókina lært hjá mér í þessum efnum, eins og máltækið segir.

En Guðlaugi sýslumanni þótti sér virðing sýnd og vinsemd með þessu, þótt lítið væri og minna en verðugt var.

Heimild: Gunnar Ólafsson (Vík í Mýrdal) endurminningar. Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar gaf út í Reykjvík 1948

 

Dynskógar

Vík, 28. nóv 1904.

Góða mamma. Það er efni þessa miða að láta þig sjá ávarp til Guðlaugs sýslumanns og því meðfylgjandi gullúr, verð 140 kr., myndin 4 kr. virði og bókin sem menn skrifa nöfn sín á kostar um 30. kr. og er gert ráð fyrir að hlutur kosti fyrir manninn 5-10 kr. og vilja þeir að þú verðir með og hefi ég heldur stutt að því og það er víst alveg greitt fyrir þig og get ég þá skrifað hér undir fyrir þig. Þú lætur mig vita um Högna.

Ég hef engar fréttir síðan póstur fór nema að ítreka með hestana, en nú sátu margir fyrir hér í gær, en ef ég verð ekki albúinn þegar póstur fer austur, hef ég hér annan hestinn.

Kveð ég þig og þína bestu kveðju minni. Þinn sonur,

Eggert Guðmundsson

Heimildir: Úr bréfasafni Eggerts Guðmundssonar úr bókinni Dynskógar.