
Þeir sem þekkja til ferðalaga í Vestur-Skaftafellsýslu að fornu og nýju, munu flestur á einu máli um, að Hólmsá hafi verið eitt örðugasta og geigvænlegasta vatnsfallið hér, áður en brúuð var. ....................
Einhverju sinni sem oftar var Guðlaugur sýslumaður Guðmundsson á ferð til Reykjavíkur og þurfti að hraða ferð sinni. Má vera, að þá hafi verið liðið mjög að setningu Alþingis, og því hafi sýslumaður, sem þá var þingmaður Vestur-Skaftfellinga, þurft að hafa hraðan á borði. En hvert sem erindi hans var, þá falaði hann fylgd mína yfir Hólmsá. Sagði ég honum hið sanna um að áin var þá talin ófær. Sýslumaður kvaðst þurfa áfram, hvað sem það kostaði, og ítrekaði fylgdarbeiðni sína. Var þá lagt af stað. Rann áin þá fram aurinn suður við Hrífuneshólm í einum ál og allþröngt. Var þetta seint í Júní og því nokkur vöxtur í ánni af jökulvatni. Sá ég þegar, að sundlaust myndi mega komast suður yfir með því eina móti að hleypa liðugt undan straum, en þó svo djúpt og strangt, að ófært myndi norður yfir án sunds. Þetta sagði ég sýslumanni, en hann bað mig að fara með sér yfir um, ef ég treysti mér aftur norður yfir. Var þá eigi fleira um rætt. Lagði ég út í ána fyrstur, en þeir sýslumaður og fylgdarmaður hans þegar á eftir. Fórum við við svo hiklaust suður yfir og sundlaust. Skyldust nú leiðir okkar. Fóru þeir ferða sinna vestur Mýrdalssand, en ég norður yfir aftur. Reið ég fyrst þvert út í ána á meðan skaraði, en hleypti síðan undan á sundi og komst heilu og höldnu yfir um. Sagði sýslumaður mér síðar, að þetta atvik, með öðrum fleiri, hafi orðið sér að nokkru liði, til þess að fá því framgengt, að Hólmsá yrði brúuð, sem varð litlu síðar.
Heimild: Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar.