Alþingiskostningar 1. sept. 1900

                                                         

Fyrstu kostningar til Alþingis, eftir að ég (Gunnar Ólafsson kom austur í Vík í Mýrdal), fóru fram 1. sept. 1900. Þá var einn kjörstaður fyrir hverja sýslu, og þangað skyldu þeir sækja, er neyta vildu kosningarréttarins.

Í Vestur-Skaftafellssýslu var kjörstaður að Leiðvelli í Meðallandi, rétt fyrir vestan Kúðafljót, gegnt prestsetrinu Mýrum í Álftaveri, sem er fyrir vestan fljótið. Úr Út-Mýrdalnum er dagleið austur í Álftaver eða austur yfir Kúðafljót og því enginn hægðarleikur að sækja á kjörstað austur yfir Kúðafljót. Ekki áttu þeir frá Núpsstað og úr Fljótshverfinu skemmra á kjörstaðinn. Nei, það var talsvert lengra.

Um þessar mundir var Valtýskan komin á sveim um landið, og ýmsir hugðu gott til hennar bæði í Skaftafellssýslum og annars staðar.

Guðlaugur Guðmundsson sýslumaður var þingmaður kjördæmisins og hafði verið það frá 1893. Hann var hlynntur Valtýskunni og kjördæmið sömuleiðis, að minnsta kosti fyrir austan Sand. Þar fóru menn mjög eftir stefnu þingmannsins í landsmálum, eins og vonlegt var um svo mikilhæfan mann, sem flestir eða helst allir sýslubúar báru traust til, bæði sem sýslumanni og þingmanns. En Mýrdælingar sumir hverjir voru andvígir Valtýskunni, og var ég meðal þeirra. Þetta var óendanlegt samningajapl og dekur við hinn danska Íslandsmálaráðherra. Það var óþolandi, miklu réttara að tala um hreinan skilnað og krókalausan, eins og við höfðum skýlausan rétt til að heimta, hvenær sem var.

Flestir eða allir bjuggust við því, að sýslumaður yrði einn í kjöri við þessar kosningar til Alþingis, og allir vissu það, að sýslumaður yrði kosinn, hver sem á móti væri. En svo kom dr. Jón Þorkelsson og bauð sig fram móti sýslumanni. Ýmsir Mýrdælingar létu vel yfir framboði hans, og sumir munu hafa lofað honum atkvæði sínu, þótt þeir hins vegar vissu, að hann mundi ekki komast að.

Doktor Jón var Skaftfellingur að ætt og uppruna, fóstursonur hjónanna í Hlíð í Skaftártungu og frændmargur þar og á Síðunni. Hann mun hafa búist við nokkru kjörfylgi fyrir austan Sand, þótt önnur yrði þar raun á.

Á þessum árum, eins og bæði áður og síðan, bjó Helgi Þórarinsson í Þykkvabæ í Landbroti, einhver allra mesti athafnamaður í sýslunni og á undan öðrum í jarðabótum og húsabyggingum þar um slóðir. Hann lét mikið til sín taka um framkvæmdir og héraðsmál, og í landsmálum fylgdi hann stefnu sýslumanns án þess beinlínis að gera sér grein fyrir, hvort það var Valtýska eða eitthvað annað.

Nú, þegar doktor Jón Þorkelsson var kominn þar á næstu grös sem þingmannsefni fyrir kjördæmið, tók Helgi sig til og nokkrir fleiri austan Sands og riðu um hreppana allt vestur að Kúðafljóti og hvöttu menn til þess að sækja kjörfund og reka hinn óboðna gest af höndum sér með því að fylkja liði og kjósa sýslumann, er þeir höfðu reyndan af öllu góðu, utan þings og innan.

Svo kom kjördagurinn, 1. september. Mýrdælingar nokkuð margir höfðu ætlað sér að sækja á kjörstað og kjósa dr. Jón Þorkelsson, ef þeir gætu farið að heiman eða mættu fara að heiman. Það hafði verið vætusamt allan síðari hluta ágústmánaðar, en nú, þegar að kjördegi kom leit þerrilega út, og urðu menn þá að meta hirðingu heyjanna en kosningu þingmannsins. Þeir voru því ekki fleiri en átta eða níu, er hinn 31. ágúst lögðu leið sína austur yfir Sand til þess næsta dag að mæta á kjörfundi að Leiðvelli austan Kúðafljóts.

Ég hafði engan áhuga á því að kjósa sýslumanninn með Valtýskuna né heldur að mæta á kjörfundi. En af því að ég hafði verið kosinn í kjörstjórnina, þótti mér réttara að sækja kjörfund, enda var þetta ekki nema smávegis gamantúr eða ofurlítill útreiðartúr. Ég vissi það ofurvel eftir þeim fregnum, sme borist höfðu austur yfir Sand, að dr. Jón mundi alls ekki fá nema örfá atkvæði. Og þó að Mýrdælingar hefðu sótt kjörfund, eins og þeir ætluðu sér í fyrstu, var þess engin von, að dr. Jón mundi bera sigur af hólmi. Bæði voru þingmannsefnin mætt, og einhverjar smávegis umræður urðu millum þeirra, áður en kjörfundurinn var settur. En ekkert þótti mér að þeim kveða, og man ég nú ekki, hvað þeir sögðu, né heldur séra Sveinn í Ásum og Helgi Þórarinsson, er báðir lögðu sýslumanni lið með nokkrum orðum, minnir mig.

Svo byrjaði kosningin. Sýslumaður, oddviti kjörstjórnarinnar, hafði kjörskrána fyrir sér og kallaði upp nöfn kjósenda eftir stafrófsröð og sagði við hvern einn, er gaf sig fram: "Hvern kjósið þér?" Oftast kom svarið: "Ég kýs sýslumanninn," - eða: "Ég kýs Guðlaug sýslumann."

Mitt hlutverk var þarna að skrifa nöfn þeirra, er kusu, og þess, sem atkvæði hlutu. Það gekk herfilega með atkvæði dr. Jóns, og hann fór af kjörfundi, áður kosningu var lokið. Það var ekki svo vel, að frændur hans veittu honum lið, svo að teljandi væri.

Nú höfðu allir kosið nema kjörstórnin. Hún átti að kjósa síðast.

"Ég kýs dr. Jón," sagði sýslumaður. Þá var það enn ekki venja, að menn kysu sjálfa sig, og hér var engin hætta á ferðum. Þetta var áttunda atkvæði doktorsins.

" Hvern kjósið þér?" sagði sýslumaður við mig. "Engan," sagði ég.

Halldór Jónsson, er einnig var í kjörstjórninni, kaus sýslumann.

Guðlaugur sýslumaður fékk um 50 atkvæði, miklu mera en áður hafði þekkts þar í sýslu.

Meðal þeirra, er þarna voru staddir, var síra Sveinn Eiríksson í Ásum, eins og áður er sagt. Hann var eins og flestir góðir menn  fyrir austan Sand ákafur fylgismaður sýslumanns. Hann gerði mér nokkurs konar tiltal fyrir að kjósa ekki sýslumanninn og ekki síður fyrir það að taka ekki þátt í kosningum, þegar ég var í kjörstjórninni. - Ég tók þessu vel, því að kannske hafði prestur rétt fyrir sér. En eitthvað mun ég þó hafa sagt í þá átt, að þessu ætti ég sjálfur að ráða og enginn skylda lægi á mér að kjósa þá menn, sem hér væru í kjör.

Sýslumaður hlustaði á talið og fleiri, er inni voru, en enginn lagði þar orð til, svo að ég muni.

Þegar dr. Jón frétti af kosningaúrslitunum, brást hann illa við og skrifaði greinarstúf í Þjóðólf eða Ísafold og hreytti ónotum í Mýrdælinga fyrir það að sækja ekki kjörfund, einkum þá, er honum höfðu lofað stuðningi. Þorsteinn Jónsson hreppstjóri varð einna helst fyrir þessu, því að vitanlega hafði hann kosið yfirmann sinn, sýslumanninn.

Skömmu síðar kom svar við grein doktorsins í Ísafold, og svaraði Þorsteinn engu góðu, eða öllu heldur, hann tók aðfinningu doktorsins svo illa, að hann taldi sig neyddan til að lögsækja hreppstjórann fyrir meiðyrði. Gleymt hef ég nú, hver það var, sem annaðist málsóknina fyrir dr. Jón, en sjálfur hafði hann skrifað kæruna til sáttanefndar, og var þess meðal annars krafist, auk sektar og málskostnaðar, að hann segði frá því  á sáttafundi, hver hefði skrifað greinina, sem hann hafði léð nafn sitt undir. Þorsteinn hefði nú líka getað kallað þetta móðgun, en hann var friðsamur maður og svaraði þessu ekki. Sáttatilraun varð árangurslaus, og málið gekk í dóm. Þorsteinn hreppstjóri fékk 10 króna sekt, en málskostnaður féll niður, eins og oft á sér stað, einkum ef hvorugur málsaðila hefur skýlausar kröfur á hinn.

Að loknu reglulegu Alþingi 1901 var það "leyst upp", eins og venjulega var sagt, og nýjar kosningar fyrirskipaðar í júní 1902. Við þær kosningar fékk Guðlaugur sýslumaður aðeins 36 atkvæði, og var hann þá einn um hituna.

Þannig var fylgi þessa manns innan sýslunnar, að ekki urðu aðrir til að keppa við hann, og um mig er það að segja, að mér þótti hann því meira verður sem ég þekkti hann betur.

 

Heimild: Gunnar Ólafsson (Vík í Mýrdal) endurminningar. Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar gaf út í Reykjvík 1948