Kúmenkaffi

Í sambandi við fyrstu embættisyfirreið Guðlaugs sýslumanns spunnust ýmsar sögur og smáskrítlur. Þessi nýi, hann mundi vera nokkuð drembinn og fljótur til. En ekki væri að "tvíla" gáfurnar. Sumum þótti einkennilegast, að hann virtist vera hræddur við brennivínið(!), og var þá oft vitnað í komu hans að Brunnhóli.

Á Brunnhóli á Mýrum bjó þá Þorleifur Pálsson oddviti og kona hans, Hallbera Bjarnadóttir. Þorleifur var vínmaður, en þær sögur höfðu borist honum til eyrna af sýslumanni, að ekki væri vert að hampa fyrir hann flösku eða staupi. Þau hjón voru veitul og höfðu heyrt, að sýslumaður neitaði ekki kaffibollanum, því að hann væri mikill kaffimaður. Konan ætlaði því að gæða honum á verulega góðum kaffi sopa, minna mætti það þó ekki vera.

Hún malaði því ofurlítið kúmen saman við kaffið, því mörgum þótti kúmenkaffi mesta hunang. Bar hún svo þetta ilmandi kúmenkaffi ásamt nýjum pönnukökum á borð fyrir Guðlaug og biður hann að gjöra svo vel.

Nú er sýslumaður bergir á kaffibollanum, rýkur hann upp og segir af miklum móði:

"Það á að svíkja ofan í mig brennivín, en það skal ekki takast," gengur snúðugt út, snarast í kápu sína og segir fylgdarmanni að koma með hestinn.

Hjónin verða sem steini lostin, og tjáir Þorleifur honum, að í kaffinu væri ekki dropi af áfengi, en konan hefði ætlað að hafa sem mest við og malað kúmen saman við, því að mörgum þætti kúmenkaffi mesta sælgæti. En sýslumaður hélt, að hann þekkti nú bragðið, og engum, hvorki hér né annars staðar, skyldi takast að svíkja ofan í sig brennivín.

Engar fortölur tjóuðu, og hjónin stóðu þarna eftir steinhissa á þessari ásökun.

Þegar leiðir okkar Guðlaugs sýslumanns lágu fyrst saman, 1891, var ég 27 ára (Þorleifur Jónsson í Hólum), svo að segja ónvanur öllum embættisverkum og forustustörfum utan heimilis, hafði einvörðungu stundað sveitabúskap og lítið gefið mig að félagsmálum, nema hvað ég var í stjórn Framfarafélagsins, eins og áður getur.

Guðlaugur var þá hálffertugur, háskólagenginn lögfræðingur og í hvívetna vanur lögfræði og framkvæmdaratriðum, sýslumaður um tíma, síðar málfærslumaður við landsyfirréttinn. Þar að auki var Guðlaugur ljóngáfaður og orðlagður mælskumaður. Skapmaður var hann eflaust mikill og þurfti stundum ekki mikið til að fá það til að ólga, eins og drepið er á hér um fyrstu ferð hans hingað.

 

Heimild: Þorleifur á Hólum ævisaga bls 256-257. Skaftfellinga rit, Skaftfellingafélagið gaf út í Reykjvík 1954