Laugavegur 90  Ath í vinnslu!

 

Ég hef aðeins skoðað þetta með Laugaveg 90, sem reyndar hefur um langt árabil (a.m.k. frá 1973) verið skráð sem Laugavegur 92.

Í bók Árna Óla, Reykjavík fyrri tíma, 1. bindi bls. 23, segir að Guðlaugur, sýslumaður, hafi byggt húsið að Laugavegi 90 og síðan selt það baróninum C. Gauldréc Boileau. Ekki kemur beinlínis fram í bókinni hvenær þetta var, en baróninn er sagður hafa komið hingað til lands árið 1898.

Ég leitaði fanga hjá sýslumanninum í Reykjavík, en veðmálabækur frá þessum tíma eru komnar í Þjóðskjalasafn. Ég fékk hins vegar ljósrit úr veðmálabókaregistri, en það nær ekki lengra aftur en til 1928. Ég setti mig þá í samband við deildarstjóra þjónustudeildar Þjóðskjalasafns, sem gerði lauslega könnun, en segir að erfitt sé að leita í þeim "grunnregistrum" sem þar er að finna, en athugunin hafi ekki leitt neit tí ljós sem bendir til að Guðlaugur Guðmundsson eða baróninn á Hvítárvöllum hafi tengst Laugavegi 90 eða 92! Deildarstjórinn taldi að registur frá þessum tíma ætti að vera til hjá sýslumanni! Ég er ekki búinn að snúa mér þangað aftur.

Ég kannaði einnig hjá Árbæjarsafni. Þar fundu menn út úr gömlum brunavirðingum o.fl. gögnum að hvorki Guðlaugur né baróninn hafi verið á meðal eigenda að Laugavegi 90 (eða 92). Eigendalistinn er svona:
1898 Gísli Þorbjarnarson, búfræðingur byggði húsið. (Þeir á Árbæjarsafni telja líklegt að faðir Guðjóns Samúelssonar (Samúel Jónsson) hafi komið að byggingu Laugavegshússins, en hann mun hafa byggt hús á Eyrarbakka með sams konar bogaþaki og var á Laugavegshúsinu).
1901 Sturla Jónsson og Þórður Guðmundsson.
1902 Gísli Þorbjarnarson kaupir það aftur.
1902 Gísli afsalar húsinu til Jes Ziemsen, Jóhannesar Nordal og H. Thorarensen.
1902 Jóhann Þorsteinsson.
1922 Þórður Jóhannsson.
1947 Snæbjörn Kaldalóns.
1956 Jóhanna Kaldalóns.
1962 Þorgeir B. Skaftfells.
1973 Davíð Sigurðsson
(Ég er hræddur um að þetta sé ekki alveg tæmandi eigendalisti, en svona fékk ég hann frá Árbæjarsafni).

Á árinu1995 eignaðist borgin húsið og seldi það til flutnings / niðurrifs á árinu 2002. Efri hluti þess er nú geymdur á lóð ÍAV að Höfðatúni 6 - 8. Eigandi þess er Gamlhús ehf., sem hefur hug á að endurreisa það, en óvíst er hvort eða hvar lóð fæst undir það.

Það er athyglisvert, að Gísli Þorbjarnarson, sem Árbæjarsafn segir að hafi reist húsið, var samkvæmt Árna Óla verkstjóri hjá baróninum á Hvítárvöllum um sláttinn. Árbæjarsafn telur að baróninn hafi búið hjá Gísla í bæjarferðum, líklega á Laugavegi 90 (92). Þá telja þeir á safninu einnig að Gísli kunni að hafa unnið fyrir baróninn í byggingu fjóssins við núverandi Batónsstíg.

Lengra er ég ekki kominn.

Kær kveðja,
Ágúst