Norðurland á Akureyri
Þann 9. ágúst var eftirfarandi tilkynning í blaðinu Norðurland á Akureyri.
Hérmeð tilkynnist, að minn elskulegi eiginmaðurinn,
bæjarfógeti og sýslumaður Guðl. Guðmundsson,
andaðist á heimili okkar þriðjudaginn 5. þ. mán.
Jarðarförin fer fram fimmtudaginn 14. þ. m. og hefst
kl. 12 á hádegi.
Olíva M. Guðmundsson
Sama dag birtist á forsíðu blaðins eftirfarandi minningargrein:
┼
sýslumaður og bæjarfógeti
Hann andaðist á heimili sínu, þriðjudaginn 5. þ.m., eftir langvarandi og þung veikindi.
Guðl. Guðmundsson var fæddur að Ásgarði í Grímsnesi 8. desmber 1856, sonur Guðmundar óðalsbónda Ólafssonar er þar bjó lengi, og var mikill atgerfismaður um margt. Guðlaugur fór ungur í menntaskóla og útskrifaðist þaðan árið 1876. Silgdi því næst á Khafnarháskóla og lauk þar embættisprófi árið 1882. Var settur, sama ár, sýslumaður í Dalasýslu en fluttist svo þaðan til Rvíkur og var settur málaflutnings-maður við landsyfirréttinn, bar þar snemma á áliti því, er á honum var, sem bráðskörpum lögfræðingi, að honum, svo ungum, skyldi vera fengið það starf í hendur.
Árið 1891 var hann skipaður sýslumaður í Skaftafellssýslu, og gengdi hann því embætti þar til að honum 20. júlí 1904 var veitt bæjarfógetaembættið á Akureyri og sýslumannsembættið í Eyjafjarðarsýslu, um leið var hann skipaður forseti Norðuramtsins og var það þangað til amtsráðin féllu niður 1907.
Alþingismaður fyrir Vestur-Skaftafellssýslu var hann árin 1893 til 1907, og alþingismaður Akureyrarkaupstaðar frá 1911 þar til í sumar að hann sökum vanheilsu sagði af sér þingmennsku.
Var skipaður nefndarmaður í milliþinganefndina er um skattamál fjallaði 1907.
Sæmdur var hann riddarakrossi » Arnarorðunnar« af Þýskalandskeisara og riddarakrossi Dannebrogsmanna var hann sæmdur af Friðriki konungi VIII, er hann kom hingað 13. ágúst 1907.
Árið 1882 giftist hann eftirlifandi ekkju sinni Olivu Maríu, f. Svensson, af merku sænsku fólki komin, þau eignuðust níu börn, hvert öðru mannvænlegra, er heita:
Þórdís (dáin), Karólína (gift Jóh. Jósefssyni íþróttakappa), Guðlaug (dáin), Ásdís, ritsímamær, Guðmundur, stud. (er verið hafði löggæzlumaður á Siglufirði tvö undanfarin ár, en gat nú eigi tekið þann starfa í sumar vegna veikinda), Margrét, talsímamær, Ólafur, stud. real., Franciska, stud. real. og Kristín yngst.
Ekki hygg eg að það geti orkað tvímælis, að með Guðl. Guðmundssynisé einn af allra merkustu og mikilhæfustu mönnum þessa lands fallinn frá. Bar margt til þess. Hann hafði óvanalega skarpar gáfur og virtist sem alt lægi opið fyrir honum er hann fjallaði um. Minni hafði hann einnig afbragðsgott. Mælskumaður var hann annálaður, hafði óþrjótandi orð og rökfimi svo unun var að hlýða á mál hans, röddin var hrein, fögur og sterk, hann hafði lag á að tala svo ljóst að ekki var hægt annað en fylgjast með efni því er hann talaði um. Það þótti því vel áhorfast fyrir hverju því máli, er hafði fylgi hans.
Meðan Guðl. Guðmundsson var í Skaftafellsýslu bjó hann ávalt stóru búi í Kirkjubæjarklaustri. Var mikil rausn jafnan hjá þeim hjónum og hafa margir útlendingar getið þeirra í ferðabókum sínum, og látið afarvel yfir viðtökum hjá þeim.
Páll Hermann prófessor í Torgau ferðaðist um Skaftafellsýslur og kom þá til Guðl. sýslumanns, er hann fór þar um og lét hann mjög vel yfir viðtökum þar og allri híbýlaprýði í sinni miklu ferðabók sinn um Ísland; það mátti sjá það á þeim bæ, segir hann, hvað góður vilji, dugnaður og hyggindi geta áorkað, og það á sjálfu Íslandi. Húsin voru með nýtízkusniði og hentuglega fyrirkomið, og embættisskrifstofa hans með skrifborði, bókaskáp fullum af lagabókum og stóreflis röðum af skjalapökkum, og þótti mér það einna furðulegast. Hjá bænum var stór sáðgarður, ágætlega hirtur, og svo fjárhús og vatnsmylla. Meðal annars getur hann þess, að það muni hafa aðallega verið af hvötum sýslumanns að sæluhús fyrir skipbrotsmenn var reist við Hvalsíki.
Á alþingi var hann með allra duglegustu og atkvæðamestu þingmönnum, hann starfaði þar afarmikið, var ávalt í öllum helstu nefndum þar og oftast framsögumaður. Eru margar ræður hans þar annálaðar.
Embættum sínum gengdi hann jafnan með hinni stökustu reglusemi og dugnaði, hef ég heyrt úr stjórnarráðinu, að hann hafi verið fyrstur sýslumanna á landinu með reikninga og reikningsskil. Dómari var hann mjög skarpur og munu flestir dómar hans hafa staðist, þótt til æðri dómstóla færu. Síðari árin sem hann var hér voru annir embættis hans orðnar svo miklar að hann örsjaldan hafði næði á daginn til dómsstarfa, varð svo að vaka við það á nóttum. Fráfall hans er afarmikill missir fyrir alt landið, þennan bæ og héraðið, en mestur og sárastur er þó missirinn fyrir konu hans og börn.
E.St.
Í sama blaði er kvæði sem séra Matthías Jochumson orti eftir Guðlaug sýslumann.
Skríður og skríður um skarir tjalda
hljóðlaus hönd, - hérna- þarna;
en ýlandi fer um allar gættir
þungur dragsúgur dauðastefnu.
Um miðmunda mene-tekel
hart er að sjá á hússins tjaldi!
Sýkn og sekur, - það er svarinn eiður, -
einn og sama úrskurð býður.
* *
*
Hjótt varð í húsi,
helstríði lokið;
hvein þá héraðsbrestur:
Liðinn var lofsæll
lýðskörungur
heim frá ströngu stríði.
* *
*
Hnigið er höfuð, það er hér á landi
einna fjölfimast flestum þótti;
stirðnuð tunga sú er á stórþingum
þjóðmál þuldi, eins og þegi aðrir.
Hnígin er hönd, sú er hamhleypa
mest var metin mál að reifa,
og öfgan staf nær aldregi
ritfim reit í réttarþrautum.
Fallinn er úr sæti, sá er flesta átti
valdsmannskosti á voru landi,
og svo dyggur og drottinhollur
að aldrei hans land eyris missti.
Dómarinn dáinn, sá er dæma vildi
öllum líkn og engan græta;
var sem valmennskan væri tíðum
hans veikust hlið, þegar vega skyldi.
Og veikar hliðar víst hann hafði, -
geðstór garpur með glóð í æðum.
En hver er sá er skyldi skörungmanna
bernska bresti bjálka dæma?-
* *
*
Skrifar hönd á skapa tjaldi
allra örlög og aldurtila;
en á hans tjald hinumegin
skrifar Guðs mildi miskunn og líkn.
Norðri á Akureyri
Þann 9. ágúst 1913 var eftirfarandi minningargrein á forsíðu blaðsins:
┼
Guðlaugur Guðmundsson
sýslumaður og bæjarfógeti
andaðist að heimili sínu á Akureyri 6. þ.m. 56 ára gamall. Hann hafði verið mjög heilsulasinn í allan vetur og lengst af rúmfastur í sumar.
Guðlaugur sýslumaður var mikilhæfur atgjörfismaður, þjóðkunnur mælskumaður og einn af þeim þingmönnum er ávalt þótti kveða mikið að, þegar hann sat á þingi.
Síðan 1904 var hann sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri. Þótti hann gegna þeim umfangsmiklu emættum með dugnaði og skyldurækni. Á þessum árum tók hann allmikinn þátt í ýmsum félagsmálum héraðsns og þótti þar sem annarsstaðar atkvæðamikill. Vinsældir og traust Guðlaugs sýslumanns fór vaxandi hér nyrðra eftir því sem kynning hans við alþýðu jókst, enda hafði hann sjálfur meira álit á Norðlendingum síðustu árin, sem hann dvaldi hér en þau fyrstu.
Guðlaugur sýslumaður var mjög hjálpsamur maður við þá sem voru í fjárkröggum, lánaði hann mörgum eða fór í ábyrgðir fyrir þá. Hann trúði flestum svo vel til að geta staðið í skilum og hafa vilja til þess. Hætt er þó við að sumir hafi brugðist honum og erfitt verði fyrir erfingja hans að ná sumu af því er hann ábyrgðist fyrir menn í góðu trausti.
Séra Matthías hefir ort eftir hinn látna merkismann eftirfarandi kvæði. (Sjá ofan)
Þjóðviljinn í Reykjavík
Þann 13. ágúst 1913 var eftirfarandi grein forsíðu Þjóðviljans í Reykjavík:
┼
Guðlaugur Guðmundsson
bæjarfógeti á Akureyri
Guðlaugur Guðmundsson, sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri, andaðist 5. ágúst þ.á.
Hann andaðist á heimili sínu á Akureyri litlu eptir hádegi greindan dag (kl. 140 e.h.).
Guðlaugur var fæddur 8. des. 1856, - Árnesingur að fæðingu, og lauk stúdentsprófi við lærða skólann í Reykjavík vorið 1876. Silgdi hann síðan til háskólans, og lauk þar lögfræðisprófi 1882.
Eptir að hafa lokið embættisprófi var hann um hríð settur sýslumaður í Dalasýslu, en gengdi síðan málfærslumannsstörfum í Reykjavík, unz hann varð sýslumaður í Skaptafellssýslum árið 1891, og síðan (árið 1904) sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri.
Hann varð þingmaður Vestur-Skaptfellinga 1893, eða sat þá í fyrsta skipti á alþingi, og síðan æ sem þingmaður þeirra, unz hann eigi gaf kost á sér við þingkostningarnar 1908. En árið 1911 var hann að nýju kosinn þingmaður á Akureyri, og sat því á aukaþinginu 1912.
Á alþingi var Guðlaugur einatt í röð fremstu og afkastamestu þingmanna, enda vel máli farinn, og starfsmaður mikill í nefndum. Fyllti hann þar og einatt framsóknar-flokkinn, nema hvað hann að lokum því miður varð heimastjórnar- liðinu fylgjandi að málum.
Hann var kvæntur sænskri konu, Olive Marie að nafni, er lifir hann. Varð þeim hjónum alls 9 barna auðið, og eru nu þessi 7 á lífi:
1. Karólína, gipt Jóhannesi glímukappa Jósepssyni.
2. Guðmundur (nú á heilsuhælinu á Vífisstöðum).
3.-6. Ásdís, Margrét, Soffía og Kristín, allar heima hjá móður sinni á Akureyri, og
7. Ólafur, einnig á Akureyri.
Tvær dætur eru dánar, sem fyr segir.
Bindindismálið var eitt þeirra mála, er Guðlaugur sálugi mjög lét til sín taka, eður frá því er hann, árið 1885 gekk í Goodtemplarraregluna.
Síðustu árin, sem hann lifði, var heilsa hans að bila, og sáust þess óræk merki á aukaþinginu 1912, síðasta þinginu sem hann sat á, - lagði og niður þingmennsku á síðastl. vori, treysti sér eigi til þingmennsku frekar heilsunnar vegna.
Við fráfall Guðlaugs heitins Guðmundssonar átti landið á bak að sjá einum sinna nýtari sona. ________________
Þá var í blaðinu einnig sagt frá því að:
Á kvöldfundi neðrideildar Alþingis, er hófst kl. 9 e.h. sama dag, er Guðlaugur bæjarfógeti andaðist, byrjaði forsetinn fundarhaldið með því, að skýra deildinni frá fráfalli hans þá um daginn, og minnast þá og jafn framt þingstarfa hans, sem og þess, hve mikils þjóðin hefði misst við lát hans.
Þingmenn hlýddu standandi á ræðu forsetans, og var síðan tekið til þingstarfa.