Úr líkræðu við útför Olivu.
Meðan Guðlaugur hélt Skaftafellssýslu, bjó hann á Kirkjubæjarklaustri, en var sjálfur eins og nærri má geta iðulega langdvölum fjarverandi heimilinu, bæði vegna embættisanna, þingmennsku og annarra opinberra starfa, sem á hann hlóðust. Má þá nærri geta, að megin örðugleikarnir og áhyggjur af búskapnum hafi hlaðist á herðar húsfreyjunnar, frúarinnar á Klaustri eins og hún var kölluð þar austur frá, og róma þeir, sem henni voru þar kunnugir, hversu vel og sköruglega henni hafði farið úr hendi umsjón og húsmóðurstörf á stóru og gestkvæmu heimili, svo og það, hvernig henni tókst það furðanlega vel að samþýðast fólkinu, þrátt fyrir ólíkar siðvenjur og þá erfið- leika, sem erlend tunga og framandi hugsunarháttur skópu henni í fyrstu. Er rómuð gestrisni hennar, brjóstgæði og umhyggja fyrir þeim, sem bágt áttu og illa voru staddir í mannfélaginu.
Við hlið manns síns, sem var stórbrotinn gáfumaður og einn hinn mesti skörungur í sinni stétt, minnast menn hennar einnig hér á Akureyri, sem hinnar glöðu og gestrisnu húsmóður, sem með alúð fagnaði hverjum þeim, sem að garði bar. Hef ég heyrt alla, sem hér áttu saman við þau hjón að sælda minnast hennar með hlýju og virðingu, og þeirra glöðu stunda, er þeir hafi notið á heimili hennar og þó mun það sanni næst, að þeir hafi virt hana mest, sem best þekktu hana, hennar viðkvæmu tilfinningar og kjærleiksríka hjartalag. Og best þekktu það börnin hennar, sem hún annaðist með frábærri ástúð og sneri öllum huga sínum að, eftir að hún missti manninn og heimili hennar sjálfrar leystist upp.
En dagur lífsins færir svo margt að höndum, hið stríða ekki síður en hið blíða, vonbrigðin engu síður en vonirnar, jafnt storm sem stillur, skúrir sem skin. Þau hin sælu sólskinslönd sumardraumanna hverfa stundunm í kaf undan hagli og frosti sárrar lífsreynslu. Nærri má því geta, að oft hefur köldu nætt umhverfis hina framliðnu konu, er hún tók þann kostinn, að slíta sig frá landi sínu og setjast hér að oft í örðugum kjörum, vinafá og iðulega misskilin, sökum annarslegs þjóðernis og hugsunarháttar. Það er örðugra, en nokkurn rennir grun í, að brjóta þannig allar brýr til fortíðar sinnar, og ætla sér að samlagast til fulls annarri þjóð, en sinni eigin. Í hinnsta skilningi er það ekki hægt. Svo nákomin erum vér þeim jarðvegi sem vér vöxum úr, vorri eigin þjóð, að annarsstaðar hljótum vér æfinlega að vera útlendingar, hvaða bönd sem að binda oss, hversu lengi sem vér dveljum þar. Og ég get þess til, af því að það fer að náttúrulegum lögum, að oft hafi hinni framliðnu fundist útlegðin hér einmannaleg, einkum framanaf og oft hafi henni fundist hún vera vinasnauð og yfirgefin er hún stóð mitt í lífsbaráttunni við hlið manns síns sem venjulega var yfirhlaðinn opinberum störfum og með hugann við þau bundinn. Þá snerust tilfinningar hennar að börnunum, og umhyggjunni fyrir þeim. En þar hitta hana einnig sárustu spjót lífsreynslunnar í vanheilsu þeirra og dauða, en fjögur þeirra dóu á ekki löngu árabili. Þannig draga vonbrigðin og sársaukinn alla uppi að lokum. Þannig bíður allra langi frjádagur sorgarinnar og þjáningarinnar, þegar veturinn leggst að með ís og snæ.
Þeir ástvinir sem ekki deyja burt á undan oss, hverfa á burt til að lifa sínu lífi, og svo kemur ellin og vinnur sitt verk uns moldin heimtar duftið að lokum.