Hr. Þórður Tómasson, safnvörður
Byggðasafninu að Skógum
Reykjavík, 23. júlí 2001
Síðast þegar ég kom í heimsókn í safnið sá ég að safninu höfðu borist gripir sem amma mín, Oliva Maria Guðmundsson fædd Svenson, eiginkona Guðlaugs Guðmundssonar sýslumanns, hafði átt.
Ég tel vel við hæfi að halda áfram að safna saman gripum frá afa mínum og ömmu á Byggðasafninu að Skógum, þar sem ég er þess fullviss að þeir muni varðveitast betur þar, en ef þeir væru dreifðir meðal afkomenda minna.
Af þeim sökum langar mig nú á sjötugsafmæli mínu að færa safninu að gjöf, myndir og gripi sem hafa verið í minni eigu.
Hér er um að ræða:
- Styttu sem afa mínum var færð sem gjöf að skilnaði, þegar hann lét af störfum sem sýslumaður Vestur Skaftfellinga. Styttan er gyðja réttlætisins með sverð og vogarskálar. Þá er ágrafinn silfurskjöldur á fætinum.
- Heiðursmerkið Riddari af prússnesku Arnarorðunni sem honum var veitt þann 29. nóv. 1903, fyrir björgun þýskra skipbrotsmanna. Sennilega hafa þetta verið skipbrotsmenn af þýska togaranum Friedrich Albert frá Geestemünde sem strandaði á Svínafellsfjöru þann 19. janúar 1903. Við fyrstu fréttir af slysinu mun hann hafa tekið forustu um flutning skipbrotsmanna til læknis og hann átti þátt í að kalla Þorgrím lækni Þórðarson, héraðslækni í Hornafjarðarhéraði, til að aðstoða héraðslækninn í Síðuhéraði við að operera hina kölnu skipbrotsmenn. Í framhaldi af því er líklegt að hann hafi stutt spítalahaldið með ráðum og dáð, svo sem hann var með lífi og sál í sjálfum aðgerðunum. Eitthvað hefur uppákoman kostað, og voru fáir líklegri til að útvega fé til þess en Guðlaugur sýslumaður. Að lokum er líklegt að undir hann hafi heyrt að annast brottflutning skipbrotsmanna, þangað sem útgerðin tók við þeim.
- Ágrafnar tóbaksdósir sem eru gjöf frá stúkunni Verðandi no. 9 frá 1891.
- Tvö sporöskjulaga innsigli Guðlaugs.
- Myndir af Guðlaugi og Olivu.
- Mynd af börnum þeirra Guðlaugs og Ólivu, væntanlega tekin á Klaustri.
Þá er þess að lokum að geta að þegar Guðlaugur hafði verið skipaður sýslumaður Eyfirðinga og bæjarfógeti á Akureyri var honum haldi kveðjuhóf. Í því hófi var honum færð styttan að gjöf, en einnig hafði verið samið eftirfarandi þakkarljóð, sem var flutt í hófinu að Kleifum:
Vér komum til að kveðja í hinnsta sinni
vér komum til að þakka liðna stund
vér komum til að halda heiðursminni
þótt hulin söknuð geymi marga lund.
Að fullu vér ei fáum yðar notið
þér framar hér ei myndið bræðralag
hve stórt er skarð í skjöld vors héraðs brotið
vér skiljum vel nær endum þennan dag.
Þér hafið unnið vorri sveit til sóma
og sífellt reynt að bæta úr vorum hag
því skulu ávallt ástarþakkir óma
fyrir öll þau störf um sérhvern ævidag.
Kvæðið orti Ágúst Jónsson í Þykkvabæ í Landbroti. Það kom til mín þann 28. desember 1995 frá Sigríði Þorsteinsdóttur, ekkju Guðlaugs Guðmundssonar sonarsyni Guðlaugs sýslumanns. Guðlaugur Guðmundsson skrifaði það eftir frásögn Þorbjörns Bjarnasonar frá Heiði.
Með bestu kveðjum
____________________________
Guðlaugur Hjörleifsson
Birt með leyfi höfundar.