Ólafur Helgason, Ole H. Olson

 

Ólafur Helgason frá Björnskoti undir Eyjafjöllum kom til Utah 1892. Var hann þá 22ja ára, fæddur 23. júní 1870. Foreldrar hans voru Helgi Ólafsson og Þuríður Halldórsdóttir. Helgi andaðist vorið 1889 og fór Ólafur þá til Vestmannaeyja. Þar kynntist hann Þorbjörgu Hólmfríði Magnúsdóttur frá Norðurgarði og felldu þau hugi saman. Ekki urðu þau þó samferða til Utah. Er jafnvel ýmislegt sem bendir til að Þorbjörg hafi farið á undan þó að mér sé ekki kunnugt um hvenær það var. Tæpum mánuði eftir komu Ólafs vestur voru þau gefin samn í hjónaband í Spanish Fork. Þau settu saman heimili í Scofield. Þar starfaði Ólafur um skeið sem námuverkamaður. Ekki leið þó a löngu þar til þau fluttust aftur til Spanish Fork. Eftir komuna til Utah kallaði Ólafur sig Ole H. Olson. Hann var gæddur ágætum gáfum og varð m.a. vel ritfær á enska tungu. Lengst af var hann starfsmaður kaupfélagsverslunar í Spanish Fork. Ólafur andaðist af heilablæðingu 24. apríl 1945. Þorbjörg þótti mikil húsmóðir og atorkukona. Hún ól Ólafi sjö börn en af þeim dóu í bernsku. Þorbjörg lést 5. des. 1942.

Faðir Þorbjargar, Magnús Gíslason í Norðurgarði, fluttist til Utah um þetta leyti ásamt eiginkonu og syni. Magnús var þríkvæntur. Fyrstu konu sína Þorbjörgu missti hann eftir fárra mánaða sambúð. Önnur kona hans hét Ingveldur Sigurðardóttir og var hún þrettán árum eldri en hann. Með henni eignaðist Magnús Þorbjörgu konu Ólafs Helgasonar. Ingveldur dó 1883. Skömmu síðar kvæntist hann Guðbjörgu Jónsdóttur ættaðri af Kjalarnesi. Sonur þeirra Ólafur fór vestur með foreldrum sínum og var þá barn að aldri. Í Spanish Fork starfaði Magnús lengst af við trésmíðar. Þótti hann hagleiksmaður og hygginn vel.

Íslendingabók

Vestur Íslendingar

Mormónar

Upplýsingar

 

Heim