Skref fyrir skref 

„Við erum frjáls!“ 

Bros leikur um varir hennar um leið og hún segir þessa langþráðu setningu, sveipar vaðmálssjali um sig miðja og hnýtir vandlega klút um höfuðið. Hún er rúmlega tvítug vinnukona á höfðingjasetri, kotungsstelpa sem hefur orðið ástfangin af bláfátækum vinnumanni. Í draumkenndri bjartsýni æskufólks taka þau þá djörfu ákvörðun að segja upp vistinni og halda fótgangandi til Reykjavíkur; hefja nýtt líf og standa á eigin fótum. Efnin eru nánast engin. Dót þeirra kemst fyrir í einu kofforti sem hefur verið flutt á undan þeim svo að þau þurfi ekki að bera það.

Og nú er stundin runnin upp.

Það er 14. maí árið 1903, vinnuhjúaskildagi, en eingöngu þann dag má vinnufólk koma í vist eða fara úr henni. Hann ber einnig nafnið krossmessa frá fornri tíð og var haldinn til minningar um þann atburð þegar kross frelsarans fannst.1

Snjóa hefur að mestu leyst, vor er í lofti og krían komin. Það er eilítið andkalt og napurt en bjartviðri og fjallasýn.

Vinnufólkið stendur í hnapp á hlaðinu og kveður með virktum þessa ungu félaga sína. Sambland af öfund og samúð skín úr svip þess.

Í baksýn gnæfa við himin stæðilegar burstir, því að vel er hýst í Kaldaðarnesi, stórbýli að fornu og nýju í Flóa rétt austan við Ölfusá. Þar búa sýslumaður Árnesinga, Sigurður Ólafsson, og kona hans, Sigríður Jónsdóttir, ásamt börnum og fjölda vinnufólks.2

Áður var Kaldaðarnes kirkjustaður og á guðshúsinu var heilagur kross sem átrúnaður fylgdi í kaþólskri tíð. Múgur og margmenni safnaðist þar saman með gjafir og áheit, einkum á krossmessunni vor og haust. Oft voru farnar þangað svokallaðar heitgöngur úr fjarlægum byggðarlögum, og dugði stundum að sjá frá Kambabrún heim að kirkjunni til að hryggir fengju huggun og sjúkir heilsubót. Við siðaskiptin var krossinn tekinn niður og fluttur í Skálholt. Það gerði Gissur biskup Einarsson, en skömmu síðar tók hann sótt og andaðist og að sjálfsögðu var það talin hefndarráðstöfun himnaföðurins. Gísli biskup Jónsson lét kljúfa helgidóminn og brenna, en almenningur hafði enn svo mikla trú á mætti krossins að sem flestir reyndu að næla sér í flís úr honum eða ösku.3

Ef til vill þurfa þau á blessun æðri máttarvalda að halda umkomulaus vinnuhjúin þar sem þau leiðast og ganga hröðum skrefum klædd þykkum vaðmálsfötum í sauðalitunum. Þeim liggur á, líkt og þau vilji sem fyrst komast úr augsýn höfuðbólsins.

Ekki líður úr huga þeirra kveðjustundin í Kaldaðarnesi og ummæli húsbóndans. Sýslumaðurinn er ekki ýkja hár vexti en höfðinglegur, fallega eygður, með stutt og vel snyrt alskegg. Hann er virðulegur í fasi og ævinlega prúður; samt gat hann ekki stillt sig um að lýsa skoðun sinni á uppátæki smælingjanna og nefndi fyrirætlan þeirra feigðarflan.  „Reykjavík er ekki fremur en Ameríka hið fyrirheitna land alþýðufólksins,“ segir hann. „Öðru nær, elskurnar mínar, öðru nær. Engu að síður óska ég ykkur velfarnaðar og vona að ótti minn sé ástæðulaus.“

Vinnukonan unga er kotroskin og höfðingjadjörf og svarar fullum hálsi. „Frelsið er dýrmætt, herra sýslumaður,“ segir hún, „og sjálfstæði eftirsóknarvert. Það kann að verða okkur dýrkeypt – en borgar sig trúi ég í fyllingu tímans.“4

Var þetta ekki kokhreystin einber? Hugurinn reikar víða og sú grunsemd er áleitin að óviturlegt hafi verið af þeim að sleppa því sem þau höfðu. Enginn vissi í rauninni hvað biði þeirra.

Sýslumannshjónin voru góðir húsbændur og heimili þeirra eitt hið stærsta og myndarlegasta á öllu Suðurlandi. Frúin var mikil kona, hnarreist og sköruleg og stjórnaði heimilinu af röggsemi. Hún var stórlynd en hafði jafnan hemil á skapi sínu; kröfuhörð og ströng, en hlýleg í viðmóti á yfirborðinu. Hún bað vinnufólkið vel en það var meira en hægt var að segja um húsbændur yfirleitt í þá daga. Viðbrigðin voru vissulega ólýsanleg fyrir fátækt vinnufólk sem réð sig í vist á slíku herramannssetri: Í Kaldaðarnesi var allt til af öllu, húsakynnin glæsileg og matur gómsætur og nóg af honum. Þegar að því kom að neyta hans fór hins vegar ekki á milli mála að heimilin voru í rauninni tvö. Borðað var í tvennu lagi: Vinnufólkinu var skammtað í askana, en lagt á borð fyrir fjölskylduna með leirtaui og fíneríi. Vinnutíminn var frá morgunsári til miðnættis en launin góð miðað við það sem gerðist; hann fékk sextíu krónur á ári en hún þrjátíu. Vinnukona nokkur í Önundarfirði varð að sætta sig við tólf krónur; hún réðist í það stórvirki að kaupa sér söðul og var fimm ár að vinna fyrir honum.5

 

Kyrrstætt og íhaldssamt bændasamfélag ríkti um aldir á Íslandi með ranglátri stéttaskiptingu sem reyndist erfitt að uppræta. Litið var niður á vinnufólkið og mikils af því krafist. Vinnuhörkunni er ef til vill best lýst með málshættinum: „Haldi maður að sér höndum, situr maður undir sjö djöflum, en hampar þeim áttunda.“6 „Alltaf kvað við kveinið og kvartið um það, hvað vinnufólkið væri orðið eða að verða latt, svikult, svörult, ónýtt og ótrútt,“ skrifar Jónas frá Hrafnagili.7 Og í ljóðum kveður við sama tón: „Ríkismaðurinn við lítilmagnann kýtir“, yrkir Skáld-Sveinn,8 og í Vinnumannakvæði Stefáns Ólafssonar standa þessar hendingar: „Ei má nú á minna/ undirgefinn lýð,/ og ekki að við finna,/ uppi er fors og strí𠅓9

Hjónaleysin bjartsýnu máttu þakka fyrir að vera ekki uppi fáeinum áratugum fyrr. Þá hefðu þau átt á hættu að verða lögsótt fyrir tiltæki sitt og dæmd í háa fjársekt, fangelsi eða jafnvel húðstrýkingu. Á landshöfðingjatímabilinu 1873–1904 þrengdi svonefnt vistarband fast að vinnufólki, en það var skyldugt til að vera í vist nema það keypti sér lausamennskubréf af yfirvöldunum sem fáir höfðu efni á. „Vistabandið var nauðung,“ skrifaði Indriði Einarsson, leikritaskáld og fyrsti lærði hagfræðingur landsins, „… Þessi lög voru blettur á íslenskri löggjöf og boðuðu miklum fjölda fólks þrældóm …“10

En nú er góðu heilli komið rót á gamla bændasamfélagið. Útgerð þilskipa hefur vaxið hröðum skrefum, þéttbýli hefur myndast við sjávarsíðuna og fólki í sveitum fækkað. Árið 1890 bjuggu 88,9% landsmanna í sveitum en aðeins 11,1% í kaupstöðum og verslunarstöðum með yfir 300 íbúa. Árið 1901 eru sambærilegar tölur 80,2% á móti 19,8% og 1910 67,8% og 32,2%.11

Kjör vinnufólks og lausamanna voru oft til umræðu á alþingi, en hvorki gekk né rak að bæta þau. Sem dæmi má nefna frumvarp frá 1887, en tilgangur þess var greinilega sá að draga úr brottflutningi úr sveitum til sjávarsíðunnar. Í greinargerð með frumvarpinu er komist svo að orði að mikill fjöldi fólks flykkist til sjávarplássanna, „bæði sem hjú og búandi menn, sem hafa yfirgefið jarðir og sveitabúskap og á þann hátt eytt því, sem þeir áttu af fjármunum á stuttum tíma; hafa þeir týnt niður því að vinna það, sem þeir kunnu upphaflega að sveitavinnu, og þannig er fjöldi barna uppalinn í iðjuleysi og ómennsku, sem leggur grundvöllinn til ævilangrar vesalmennsku, sem því miður oft leggst í ættir.“12 „Svo stríðir hleypidómar eru ekki óalgengir í þingskjölum og þingræðum þessara ára, er sjávarútvegurinn er farinn að teygja til sín sveitafólkið,“ skrifaði Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur.13

Vinnufólkið kvartaði sáran undan vistarbandinu sem vonlegt var, og sumarið 1881 mættu sautján vinnumenn í Árnessýslu til fundar að Gröf í Hrunamannahreppi til þess að mynda samtök um bætt kaup og betri kjör. Forystumenn voru Gísli Einarsson, sem var vinnumaður hjá séra Valdimari Briem í Hrepphólum, sálmaskáldi og síðar vígslubiskupi, og Jón Jónsson, vinnumaður hjá séra Steindóri Briem í Hruna. Þeir sömdu skjal og sendu það húsbændum sínum og alþingi og meira að segja blaðinu Þjóðólfi til birtingar.

Auk hins illræmda vistarbands var arðrán bænda aðalástæðan fyrir kröfunum en þeim leyfðist að senda vinnumenn sína á vertíð og hirða sjálfir laun þeirra. Einnig var skorað á alþingi að fella niður dagsverk til presta, sem þeim var gert að vinna ókeypis, og hálfan ljóstoll, en það var kvöð greidd til kirkna í tólg, sem vinnufólk var skyldugt að inna af hendi.14 Það sýnir vel mótstöðu bænda á þingi að vistarbandið mun aldrei hafa verið afnumið með lögum, en gufaði smám saman upp.15

Lengi eimdi eftir af áðurnefndu arðráni húsbænda, meira að segja á mölinni í Reykjavík. Eftirfarandi dæmi er til vitnis um það: Verkstjóri nokkur réð til sín sem vinnukonu unga stúlku sem fluttist til Reykjavíkur úr sveit. Hann lét hana starfa í fiskvinnu. Þar tók hún á móti fjörutíu og tveimur krónum og fór með þær til húsbónda síns í hverri einustu viku. Hins vegar greiddi hann henni umsamið kaup mánaðarlega – og það var fjörutíu og fimm krónur!

Þessi stúlka gekk til vinnu sinnar um rismál dag hvern. Í hádeginu þurfti hún að kaupa til heimilisins, þvo upp – og þjóta síðan í fiskvinnuna. Á kvöldin sótti hún vatn í bæinn, skúraði gólf og tók til. Frúin var of fín til að vinna.

Stúlkan giftist og undi þá hag sínum hið besta en gat ekki gleymt þrældómnum í vistinni. Þegar hún sá andlát gamla húsbóndans síns auglýst í blaði, sagði hún:

„Jæja, þá er karlrassinn loksins dauður! Guði sé lof!“

Síðan sló hún á lær sér og rak upp skellihlátur.16

Fyrsta spölinn ganga þau yfir mýri uns þau koma að bænum Arnarbæli. Þar þekkja þau til heimilisfólksins, hljóta góðar móttökur og þaðan eru þau ferjuð yfir ána. Litla stund stansa þau á bakka Ölfusár en eru síðan reidd upp á Kambabrún. Þegar þangað kemur og þau hafa kvatt fylgdarmann sinn, setjast þau á stein og horfa yfir undirlendið.

Útsýni er óvenju fagurt þennan dag; Flóinn að venju dökkur, en Ölfusið hýrlegt og hafið blátt. Og langt í burtu dansa Vestmannaeyjar í tíbránni.

Hugurinn reikar víða. Hann sveiflast á milli ótta við framtíðina og réttlætiskenndar sem særð var þegar í bernsku.

Í hug hennar markaði dýpst spor minning frá Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu, en sérstök ástæða er til að rifja hana upp einmitt nú:

Það er morgunn á aflíðandi vetri árið 1893. Sandarnir eru hrímaðir og hvítt yfir að líta, þótt gras gægist á stöku stað upp úr moldinni. Loftið er líkt og mengað frostþoku. Fyrir neðan túngarðinn í Hörglandskoti, þar sem hún er fædd og uppalin, er alfaraleið og auðvelt að fylgjast með tíðum mannaferðum.

Hún er að leika sér á hlaðinu þegar hún sér lest koma um veginn. Þarna eru fjórir hestar; hún sér ólöguleg hrúgöld á tveimur fyrstu hestunum og greinir að þar muni vera maður og kona. Þau reiða sitt hvort barnið en teyma tvo hesta. Á þeim eru klyfjar og yfir þær sér hún gægjast tvö dúðuð barnsandlit.

Þetta fólk er dapurt á svip, og fer illa á hestbökunum og milli klyfjanna. Það lítur varla upp, hvað þá að það veifi til fólksins á hlaðinu.

„Hvaða fólk er þetta og hvert er það að fara?“ spyr Jóhanna móður sína.

„Það er verið að flytja það sveitarflutningi vegna fátæktar,“ svarar hún með hryggðarhreim í rómnum. „Heimili þess var einhvers staðar fyrir austan en faðirinn er fæddur í okkar sveit og þess vegna er fjölskylda hans flutt hingað.“

„Líður því ekki vel, fyrst það er komið til okkar?“

„Við skulum vona það.“

Hjónin voru sett í vinnumennsku, sitt á hvorn bæinn. Móðirin fékk að hafa yngsta barnið með sér, en börnin þrjú voru boðin upp – eða öllu heldur niður, því að þeir fengu þau sem lægst buðu.

En vonir móðurinnar brugðust hrapallega varðandi eitt af börnunum fjórum. Það kom í ljós laugardaginn fyrstan í einmánuði árið 1903.

Sendiboði frá hreppstjóranum á Síðu kemur til Guðlaugs Guðmundssonar sýslumanns á Kirkjubæjarklaustri – og ríður geyst. Hann hefur þá fregn að flytja að tíu ára gamall drengur, sem hafi verið niðursetningur á bæ einum í sveitinni, sé dáinn. Það fylgir sögunni að ekki sé allt með felldu varðandi dauða drengsins.

Þetta var eitt af börnunum fjórum sem hún sá í bernsku.

Guðlaugur sýslumaður bregður skjótt við, sendir fjóra menn eftir líkinu og lætur flytja það heim til sín ásamt bóndanum á bænum. Að svo búnu kveður hann til tvo lækna að skoða líkið. Þeim kemur saman um að drengurinn hafi þjáðst af næringarskorti og finna auk þess áverka á líkinu.

Við yfirheyrslur sannast að áverkarnir eru eftir misþyrmingar þeirra hjóna, annars eða beggja. Að lokum játar bóndinn að hafa misþyrmt drengnum nokkrum dögum áður en hann dó.

Við rannsókn málsins kemur í ljós að þessi vesalings piltur hafði verið niðursetningur á öðrum bæ í sveitinni og hafði verið greitt með honum 50 króna meðlag í þeirri vist. En þá býðst umræddur bóndi, sem nýfluttur var í sveitina, til að taka drenginn fyrir aðeins 20 króna meðlag. Og hreppsnefndin var náttúrlega ekki sein á sér að taka slíku kostaboði!

Faðir drengsins heimsótti hann, hafði orð á því að hann sætti illri meðferð og vildi koma honum í aðra vist. Oddvitinn nennti hins vegar ekki að sinna slíku kvabbi, en bað sóknarprestinn að athuga aðbúð drengsins. Og klerkur gaf vottorð þess efnis að staðurinn væri „forsvaranlegur“.

Málinu lyktaði á þann veg að bóndinn var dæmdur í tólf mánaða betrunarhússvinnu.17

Hér var að sjálfsögðu um einsdæmi að ræða en það eitt að slíkur atburður skyldi geta gerst sýnir aldarandann. Viðhorf almennings til sveitarómaga var miskunnarlaust og afstaða bænda og sveitarstjórna enn verri, nánast óskiljanleg. Og þeir voru ekki fáir sem neyddust til að leita á náðir sveitarinnar sökum fátæktar. Fardagaárið 1901–1902 voru þeir 7,8% landsmanna; fjöldi íbúa var þá 78.470, svo að sveitarlimirnir voru hátt á sjöunda þúsund talsins.18

Hreppstjórarnir vildu fyrir alla muni losna við að fá í sína sveit fólk sem þurfti að hjálpa. Jón Thoroddsen lýsir í Pilti og stúlku slíku atviki á kaldhæðnislegan hátt:

„… Í langan aldur höfðu hreppstjórar þessir gengið í friði og spekt hvor hjá öðrum á leið lífsins og hreppstjórnarinnar, þangað til steinn kom í götuna, en það var kerlingarskepna gömul og slitin; enginn maður vissi með sönnu að segja, hvar hún var í heiminn borin, og sjálf mundi hún ekki fyrir víst, hvað hún hafði heyrt um það … Tekur hreppstjórinn í Sigríðartungu þá það ráð að hann flytur kerlingu með tilstyrk sveitarmanna á Indriðahólshrepp. Hreppstjórinn þar bregður skjótt við, safnar að sér mönnum og lætur flytja hana um hæl yfir að Sigríðartungu. Bænum í Sigríðartungu var lokað, þegar sást til fararinnar, og fyrirbauð hreppstjóri nokkrum manni að vera svo djarfur að ljúka upp. Hinir skildu kerlinguna eftir á hlaðinu, en ekki var bærinn opnaður, fyrr en Hólhreppingar voru farnir burtu fyrir góðri stundu. Þetta var á miðri jólaföstu, og var veður fremur kalt fyrir gamalmenni, og var farið að slá að kerlingu, þegar komið var út til hennar. Sagði Bjarni hreppstjóri að best væri að velgja dálítinn mjólkursopa ofan í hana, áður en farið væri með hana aftur. „Flytjið þið mig nú hvert sem þið viljið, skepnurnar mínar“, sagði kerling, „en guð fyrirgefi kónginum, nú situr hann og drekkur kaffi og brennivín og veit ekki hvað hér gerist.“ Þetta voru síðustu orð hennar hér í heimi.“19

Björn nokkur Jónsson í Lundi lenti skamman tíma á sveit, og sú munnmælasaga er til um hann að gestur hafi spurt hann af kerskni:

„Ert þú niðursetningur hér, Björn?“

„Það þarf nú ekki tvenn gleraugu til að sjá það,“ svaraði hann.

Um vist sína sem sveitarómagi sagði hann öðru sinni:

„Allir eru mér góðir, og þó eru hundarnir bestir!“20

Þegar þau hafa hvílt sig um stund og rabbað saman standa þau upp og halda af stað yfir heiðina í áttina til Reykjavíkur. Þau eru létt á fótinn í fyrstu, en smátt og smátt fer þeim að finnast brekkurnar verða æ brattari. Það er hins vegar misskilningur, því að þau fara niður í móti en ekki upp. Áfram halda þau samt þrátt fyrir þreytuna – skref fyrir skref.

Ekki komast þau til Reykjavíkur þennan dag; þau gista að Lækjarbotnum en leggja aftur af stað í bítið morguninn eftir og koma til höfuðstaðarins laust eftir hádegi.

Þau mæta fólki sem er illa til fara og kemur ekki heim og saman við hugmyndir þeirra um Reykvíkinga. Þau mæta vinnuklæddu fólki og sliguðu. Og þau sjá þreytulegar konur sem eru að fara með þvott inn í Laugar; sumar bera þvottinn á bakinu en aðrar draga hann í hjólatíkum.

„Skyldi þetta verða hlutskipti mitt,“ hugsar hún.

Það læðist að henni illur grunur.

Þau fá hvorki húsnæði né vinnu fyrsta árið og verða því að ráða sig í vist til annarra. En þau gefast ekki upp. Þau gifta sig hjá séra Ólafi Ólafssyni fríkirkjupresti 24. nóvember 1904 og fá leigt húsnæði: eitt herbergi á Hverfisgötu 50 og aðgang að eldhúsi sem er ekki annað en ferköntuð kolavél frammi á gangi.

 

Hann fær vinnu öðru hverju við kola- og saltuppskipun og þykist góður. Þetta er þrælavinna – en menn eru fegnir að fá að þræla.

Engin höfn er í Reykjavík, svo að skip sem koma til landsins liggja fyrir festum nokkuð langt frá landi. Af sjávarkambinum framan við Hafnarstræti liggja margar litlar bryggjur fram á fjöruna og við þær lenda árabátar sem flytja varning milli skips og lands. Bryggjurnar eru brattar og mjóar, svo að ekki er unnt að koma við hestvagni; menn verða því að bera vörurnar á bakinu.

Kjör hans eru hin sömu og Pétur Pétursson verkamaður lýsir á þessa leið:

„Um leið hóf ég þunga göngu sem stóð óslitið í fjögur ár og verður mér ógleymanleg, eins og ég hugsa að fari fyrir öllum sem hana hafa orðið að þreyta. Ég gekk um eyrina í Reykjavík og snapaði eftir vinnu; elti alla þá, sem höfðu yfir einhverri vinnu að segja, og þá fyrst og fremst verkstjórana. Þarna var ég nafnlaus verkamaður í stórum hópi nafnlausra verkamanna. Ef mér tækist ekki að fá eitthvað að vinna í dag, fengjum við ekkert að eta á morgun. Og allir vorum við undir sömu sökina seldir. Þetta var erfitt líf og niðurlægjandi … Það var ekki svo erfitt að vera á sjálfum uppskipunarbátunum en erfiðara var að kasta af þeim, skipa upp úr þeim í flæðarmálinu. Ég vann líka að því að bera á bakinu vörur úr fjörunni og í hús. Það var erfitt verk, og margir heltust úr lestinni yfir daginn, gáfust hreinlega upp – og ég hef aldrei séð aðra eins hryggðarmynd og þá menn sem streittust í lengstu lög við vinnuna þræluppgefnir og raunverulega orðnir veikir af ofreynslu. Menn geta líka gert sér í hugarlund, hvort þeir hafa ekki reynt að halda sér uppi eins lengi og mögulegt var, því að um leið og þeir hættu, misstu þeir kaupið og fengu á sig þann stimpil að þeir þyldu ekki erfiðisvinnu. Það var sama og dauðadómur. Í þá daga unnu ekki aðeins karlmenn að burði úr skipum og upp í hús heldur einnig konur. Það var ljótt upp á að horfa. En hvað gat fólk gert? … Ef ég væri spurður að því, hvaða vinnu ég hefði stundað erfiðasta við sjóinn í Reykjavík, áður en höfnin kom, yrði ég ekki lengi að svara því. Það var saltburður, annað hvort niður í saltkjallara eða upp úr honum. Það var djöfulleg vinna! Hún tók sannarlega blóð úr heilu holdi. Oft kom ég heim blár og bólginn á öxlum og baki eftir svona vinnu, og var ég þó ungur og fílefldur karlmaður og léttur til allrar púlsvinnu. Fyrst svo var um hrausta menn er auðvelt að gera sér í hugarlund, hvernig konurnar hafa verið útleiknar …“21

Í blaðinu Þjóðólfi má lesa eftirfarandi klausu frá þessum tíma: „Hið sanna er, að verstu ævi í þessum höfuðstað vorum eiga gamlir þægir útigangshestar – og þar næst gamalt, heilsulaust kvenfólk sem félaust og munaðarlaust er að reyna að hafa ofan af fyrir sér.“22

***

Þau búa aðeins einn vetur á Hverfisgötunni, en flytja því næst á Laugaveg 73; þar fá þau eitt herbergi og eigið eldhús fyrir fimm krónur. Marga daga stendur hún við gluggann til að fylgjast með hvenær eiginmaðurinn komi heim. Hún sér á göngulagi hans hvort hann hefur fengið vinnu eða ekki. Ef hún heyrir fótatak hans í stiganum snemma morguns, veit hún að engin von hefur verið um vinnu þann daginn.

Vinnuhjúin frá Kaldaðarnesi hétu Ingimundur Einarsson og Jóhanna Egilsdóttir. Þau eru gott dæmi um aldahvörfin sem urðu hér á landi síðustu áratugi nítjándu aldar og í byrjun hinnar tuttugustu. Alls staðar örlar á breytingum og nýjar atvinnustéttir vaxa úr grasi.

Jóhanna Egilsdóttir á eftir að koma við sögu síðar í þessari bók.

 

Þegar hún rifjaði upp fyrstu búskaparár þeirra hjóna hér í Reykjavík háöldruð, sagði hún:

„Við þraukuðum í þeirri von að eitthvað mundi gerast. Ranglætið var svo sárt, fátæktin ömurleg og öryggisleysið yfirþyrmandi. Fyrr eða síðar hlaut íslensk alþýða að rísa upp og krefjast réttar síns.“23

Hún var sannfærð um það.

 Heimildaskrá:

  1   Sjá: Dr. Árni Björnsson: Saga daganna, 1993, bls. 53–61.

  2   Börn þeirra: 1) Guðrún, f. 13. september 1884 á Kirkjubæjarklaustri, d. 15. maí 1904, 2) Jón, f. 18. febrúar 1886 á Kirkjubæjarklaustri, d. í Reykjavík 31. október 1957, skrifstofustjóri alþingis og rithöfundur; hann var sýsluskrifari föður síns um þetta leyti, kvæntur Önnu Guðmundsdóttur, 3) Halla, f. 18. júní 1887 á Kirkjubæjarklaustri, seinni kona Eggerts Briems óðalsbónda í Viðey, 4) Ólafur landbúnaðarkandídat, f. 31. janúar 1889 á Kirkjubæjarklaustri, d. 2. apríl 1928, 5) Haraldur prófessor í Kaupmannahöfn og píanóleikari, f. 5. maí 1892 í Hjálmholti, kvæntur Dóru Köcher söngkonu frá Leitmeritz í Bæheimi.

  3            Þorsteinn Jósepsson: Landið þitt, þriðja útgáfa 1970, bls. 192–193.

  4            Jóhanna Egilsdóttir í samtali við bókarhöfund 1980.

  5   Gunnar M. Magnúss: Ár og dagar, 1976, bls. 23; skv. dagbókum Magnúsar Hjaltasonar Magnússonar.

  6   Jónas Jónasson frá Hrafnagili: Íslenskir þjóðhættir, þriðja útgáfa 1961, skv. Jón Árnason: Íslenskar þjóðsögur, II, bls. 549.

  7   Sama heimild, bls. 128.

  8   Íslands þúsund ár, kvæðasafn, 1947: Skáld-Sveinn: Heimsósómi, bls. 50.

  9   Íslensk úrvalsrit: Stefán Ólafsson: Ljóðmæli, 1948, bls. 112.

10   Ár og dagar, bls. 22.

11   Jón Blöndal: Félagsmál á Íslandi, 1942, bls. 39.

12            Alþingistíðindi, 1887, C, bls. 165.

13   Sverrir Kristjánsson: Alþingi og félagsmálin, 1954, bls. 27.

14   Sjá: Ólafur R. Einarsson: Upphaf íslenskrar verkalýðshreyfingar, 1970, bls. 34; Ár og dagar, bls. 22–24.

15            Þórleifur Bjarnason: Aldahvörf, 1974, bls. 140.

16   Gylfi Gröndal: 99 ár, Jóhanna Egilsdóttir segir frá, 1980, bls. 76.

17   Sama heimild, bls. 15–22. Sjá einnig: Gils Guðmundsson: Öldin okkar, 1901–1930, 1950, bls. 25.

18   Gísli Ágúst Gunnlaugsson: Milliþinganefndin í fátækramálum 1902–1905, Saga XVI, 1978, bls. 73–150; Tölfræðihandbókin, 1967, bls. 19.

19   Jón Thoroddsen: Piltur og stúlka, fimmta prentun, 1942, bls. 4–5.

20   Arnór Sigurjónsson: Einars saga Ásmundssonar, fyrsta bindi, 1957, bls. 3–4.

21            Vilhjálmur S. Vilhjálmsson: Við sem byggðum þessa borg, I, bls. 215–216.

22   Ár og dagar, bls. 22.

23            Jóhanna Egilsdóttir í samtali við bókarhöfund 1980.

Gylfi Gröndal veitti góðfúslega leyfi til birtingar.

Heimild framtíð.is