Bréf frá Valtýr til móður sinnar 8. desember 1909
Þú furðar þig á, að ég skuli hafa gert svo lítið úr mér að sækja um bankastjórastöðuna -
Valtýr skýrir fyrir móður sinni ástæður fyrir því, að honum hugkvæmdist að flytja heim til Íslands. Hann lýsir vonbrigðum sínum vegna aðgerða nýja ráðgjafans. "Eg hefði aldrei trúað því, að Björn Jónsson væri svona gerður."
Khöfn, 8. desember 1909
Elsku móðir mín!
Ég þakka fyrir bréf þitt frá 27. október. Það gleður mig að sjá af því, að ykkur líður vel, öllu frændfólki mínu þarna vestra. Nema þú minnist ekkert á Kristjönu. Það er nú orðið býsna langt síðan ég hef heyrt nokkuð frá henni og högum hennar. En seinast þegar ég heyrði sagt frá henni (annaðhvort þú eða Guðrún hefur víst skrifað mér það), þá stóð hagur hennar með meiri blóma en áður, og vona ég að áframhald hafi orðið á því.
Það er og gleðilegt að heyra, að Guðmundur skuli vera að rétta við og komast úr skuldakröggum sínum. Það væri líka óeðlilegt, ef hann gæti ekki þrifist í hinni feitu og frjósömu Argyle-jörð, barnlaus maðurinn, og þau dugnaðarmanneskjur hjónin bæði.
Þú furðar þig á, að ég skuli hafa gert svo lítið úr mér að sækja um bankastjórastöðuna, eftir alla meðferðina á mér í fyrra. Það eru víst fleiri, sem furða sig á því en þú, og það liggur við að ég geri það sjálfur. En ástæðan var eingögnu sú, að pólitíkin er nú einu sinni búin að gagntaka mig svo, að ég á erfitt með að láta vera að taka einhvern þátt í henni. En hér í Khöfn er ég mjög illa settur í því efni, og því vildi ég heldur komast heim til Íslands, því þar hefði ég getað sinnt henni. Ég minnist svo á bankastjórastöðuna við Björn Jónsson hér í sumar, og að ég ætlaði að sækja, og þar sem hann var gamall vinur minn, sem ég hafði gert mjög margt gott, áleit ég að hann mundi ráða mér frá að sækja, ef hann áliti að ég ætti ekki að fá stöðuna og hann hefði ákveðið öðrum hana. En hann impraði ekki einu orði á því, að ég skyldi ekki sækja. En ég hef nú bæði af því og fleiru síðan sannfærst um, að hann er einn af þeim, sem getur verið góður vinur meðan hann getur haft eitthvert gagn af manni, en svo eru vinirnir ekki lengur til, þegar hann ekki þykist þurfa þeirra með lengur. Ég hefði aldrei túað því, að Björn Jónsson væri svona gerður, en verkin sýna merkin. Því svona hefur hann haft það ekki aðeins við mig, heldur og við Kristján Jónsson háyfirdómara, hinn besta og vandaðasta mann, og þar áður alveg eins við Guðlaug sýslumann, þó það væri sök sér við hann. En framferði hans gegn Kristjáni er óhæfilegt og ófyrirgefanlegt. ..............................................
Þinn elskandi sonur
Valtýr Guðmundsson