
Jóhanna Guðmundsdóttir fæddist á Norðfirði 17. febrúar 1916. Hún lést á St. Jósepsspítala 5. júlí síðastliðinn. Heim
Fjölskylda
Bróðir Jóhönnu, samfeðra, var Guðmundur Guðmundsson, f. 6.4. 1905, nú látinn, kenndur við Ölduna, var búsettur í Hafnarfirði og í Reykjavík.


Alsystkini Jóhönnu: Eiríka f. 5.1. 1909, nú látin, var búsett í Hafnarfirði; Kristín, f.9.7. 1910, nú látin, var búsett í Reykjavík; Þórður Guðni, f. 14.11. 1912, nú látinn, var búsettur í Hafnarfirði;Vilhelmína, f. 15.9. 1914, nú látin, búsett í Hafnarfirði og Reykjavík; Stefanía, f. 8.10. 1917, búsett í Hafnarfirði; Jónína, f. 7.8. 1923, búsett í Hafnarfirði, Ólafur, f. 16.6. 1928, búsettur í Reykjavík og Garðabæ.
Foreldrar
Jóhönnu voru
Guðmundur
Eiríksson,
f. 24.6. 1874, sjómaður í Höfnum, á Norðfirði og síðast í Hafnarfirði,
og k.h., Þórunn Kristjánsdóttir, f. 12.8.
1890, húsmóðir.
|
Jóhanna giftist 20. október 1934 Sigurði Árna Guðmundssyni, f. 8. september, 1907, d. 2. nóvember 1938. Börn þeirra eru 1) Guðmundur Þórir, f. 2. apríl 1935, maki Hjördís Þorgeirsdóttir, f. 10. ágúst 1936. Þau eiga þrjú börn og fimm barnabörn. Áður átti Guðmundur Þórir einn son, Jóhann, og á hann tvö börn. 2) Sigríður Sesselja, f. 24. maí 1938, gift Róbert Head. Hún á tvö börn og fjögur barnabörn, öll búsett erlendis. Seinni maður Jóhönnu var Ársæll Kr. Jónsson, f. 3. janúar 1913, d. 23. mars 1985. Þeirra synir eru: 1) Óskírður drengur, f. 1941, andvana. 2) Ársæll Kr. Ársælsson, f. 4. ágúst 1942, maki Erla Laxdal Gísladóttir, f. 5. janúar 1946. Þau eiga þrjú börn og sjö barnabörn. 3) Sigurður Jóhann Ársælsson, f. 26. september 1943, maki Erla Björnsdóttir, f. 18. júní 1944. Þau eiga tvær dætur og eitt barnabarn.
Útför Jóhönnu fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.
Þegar ég hugsa um engla, þá hugsa ég um þig með þitt fallega bros og verkin þín góð. Ég heyrði að þú værir farinn. Nei,það getur ekki verið satt. Þegar ég hugsa um engla,þá hugsa ég um þig. Guðs blessun til þín, engill, hvert sem þú ferð. Þótt þú sért farinn, þá veistu af hjörtum okkar fullum af sorg. En við styðjum hvert annað og höldum veginn áfram, án þín. Ég sé þig aftur, elsku engill, þegar tími minn kemur. Þegar ég hugsa um engla, þá hugsa ég um þig. (K. K.)
með þitt fallega bros og verkin þín góð.
Ég heyrði að þú værir farinn.
Nei,það getur ekki verið satt.
Þegar ég hugsa um engla,þá hugsa ég um þig.
Guðs blessun til þín, engill, hvert sem þú ferð.
Þótt þú sért farinn, þá veistu af
hjörtum okkar fullum af sorg.
En við styðjum hvert annað
og höldum veginn áfram, án þín.
Ég sé þig aftur, elsku engill, þegar tími minn kemur.
Þegar ég hugsa um engla, þá hugsa ég um þig.
(K. K.)
Guðmundur Þórir
Sigurðsson yngri.
Elsku systir, nú er komið að leiðarlokum eftir nær 80 ára samferð. Margs er að minnast eftir svo langt ferðarlag. En það sem mér er efst í minni er samveran með þér eftir að þú giftist Sigga og áttir Þóri. Þið fóruð norður á Djúpuvík um sumarið en Þórir varð eftir í Hafnarfirði hjá mömmu og mér. Þórir lærði að ganga um sumarið og honum fór vel fram. Það var mikil gleði þegar þið komuð heim um haustið, og mér þótti mikið vænt um ykkur öll.
Þið áttuð heima í Reykjavík á Njálsgötu 52 og þar fæddist Sigga 24. maí 1938 og minnist ég sérstaklega sendiferða niður í miðbæ í útgerðina sem Siggi vann hjá. Um haustið kom reiðarslagið, togarinn Ólafur (frá Alíance hf.) sem Siggi var matsveinn á fórst með allri áhöfn. Það þarf ekki að orðlengja þá sorg og örvinglan sem heltók þessa litlu fjölskyldu. Mamma tók ykkur til sín á Reykjavíkurveg 10 í Hafnarfirði þó þröngt væri í búi og þú fórst að vinna af miklum dugnaði, settir upp verslun og rakst hana í nokkur ár.
Þú fórst að búa með Kidda og bjugguð þið á Vesturbraut 12 í Hafnafirði og þar fæddust ykkur tveir synir, Ársæll og Siggi. Á þessum árum var ég meira og minna á heimili ykkar við heimilisstörf og barnagæslu, og var heimilið mitt annað heimili. Þú varst áberandi falleg kona og myndarleg, góð og glaðlynd þrátt fyrir mótlæti í lífinu. Þessi fjölskylda hefur verið stór hluti af mínu lífi og fæ ég aldrei fullþakkað ykkur fyrir ást ykkar og umhyggju.
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Þín systir
Nína og
fjölskylda.
Það er aðeins rúmlega hálfur mánuður síðan ég heimsótti hana Jóhönnu ömmu mína á St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði. Hún var þá til þess að gera nýstigin upp úr aðgerð eftir erfitt beinbrot og ég hálfkvíðinn því að sjá hvernig líðan hennar væri. Kom það mér þægilega á óvart að sjá ömmu, hún var stórglæsileg að vanda, vel til höfð og í góðu skapi. Ekki man ég eftir mörgum tignarlegri manneskjum en henni ömmu minni. Fljótlega fann ég að það var vel hugsað um ömmu á þessum stað, henni leið vel og því hvarf allur kvíði úr mér. Ekki fór þó á milli mála að amma var farin að velta framtíð sinni fyrir sér. Eins og venjulega, þegar við amma ræddum saman, þá fór manni strax að líða vel, því amma var einstaklega viðræðugóð kona. Aldrei stóð á umræðuefnum, hún sagði einstaklega skemmtilega frá og jafnvel þótt mennirnir og málefnin væru stundum frá því fyrir mína tíð var alltaf gaman að hlusta á frásagnir hennar. Ekki man ég eftir að hafa þótt "jafngott" að fá orð í eyra frá nokkrum öðrum eins og frá ömmu. Það var væntanlega vegna þess að auðvelt var að skynja velviljann í orðum hennar, tilgangur þeirra var ekki að vekja upp vanlíðunartilfinningu, heldur að veita leiðsögn sem miðaði að því að gera mann að betri manneskju, að auðvelda manni lífsins göngu. Þegar slíkur velvilji er fyrir hendi þá er ekki hægt annað en að þykja óendanlega vænt um viðkomandi. Með mikilli vissu veit ég að það eru margir sem bera sama hug til ömmu og ég geri.
Eftir nokkra stund, sem eftir á að hyggja var þó alltof stutt, kvaddi ég ömmu og hélt frekar glaður í bragði norður yfir heiðar, heim á leið. Grunlaus var ég um að við myndum ekki fá fleiri tækifæri til að setjast niður tvö saman og ræða málin. Kom það mér talsvert á óvart er hringt var í mig fyrir rúmri viku og mér tilkynnt um að amma væri mikið veik og ætti sennilega stutt eftir. Reyndar finnst mér eins og að amma hafi verið þennan síðasta mánuð samkvæm sjálfri sér, ófeimin við að nefna smákvilla sem hrjáðu hana en var ekkert að bera á torg þau áföll sem hún varð fyrir í lífinu.
Aftur fór ég kvíðinn til ömmu, aftur varð ég hissa á því hvað amma var enn stórglæsileg og tignarleg kona þrátt fyrir að ekki fór á milli mála í hvað stefndi hjá henni. Augljóst var að henni leið vel þrátt fyrir að hún gæti ekki tjáð sig, hún var klædd í glæsilega peysu, nýlega naglalökkuð og með hlýju og fallegu dúnsængina sína. Þegar við bætist hópur af hlýlega þenkjandi ættingjum, vinum og starfsfólki spítalans þá er ekki hægt að hugsa sér fallegri umgjörð um lokaskref langrar leiðar.
Þrátt fyrir að það verði aldrei eins að koma í Hafnarfjörðinn, nú þegar ekki er hægt að fara og spjalla við ömmu, þá veit ég að hún er ekki fjær okkur núna en áður og hún hugsar fallega til okkar eins og hún hefur ávallt gert. Ég hugga mig við það að ég hef ekki misst minn besta og traustasta vin, heldur hefur hann aðeins fært sig um set.
Góði Guð, vinsamlega taktu vel á móti ömmu. Það á hún skilið.
Amma, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína.
Þinn sonarsonur
Ársæll Kristófer.
Allt á sér upphaf og endi. Líf hefst og líf endar, slíkt er lífsins gáta.
Upphaf lífshlaups langömmu minnar Jóhönnu K. O. Guðmundsdóttur varð 17.2. 1916 og lauk 4.7. 2002. Hún var vafalítið hvíldinni fegin og vel undir dauða sinn búin, eftir frekar stutt og erfið veikindi. Hún sjálf sagði við mig og mömmu þegar við heimsóttum hana stuttu áður en hún lést, að þetta væri orðið nóg, hún væri búin að lifa það lengi og best væri að taka öllu eins og það kæmi. Og það kom.
Amma baba eins og við krakkarnir kölluðum hana oft, var afskaplega fínleg kona og eftir henni tekið fyrir glæsilegan klæðaburð og fágaða framkomu, hún var mikil útsaumskona og eru því margar glæsilegar útsaumaðar myndir eftir hana. Amma Jóhanna var ákaflega trúuð kona og lifði samkvæmt öllu því besta sem kristin trú boðar og allir þeir fjölmörgu sem kynntust henni fundu það og sáu að góðmennskan og hjartahlýjan streymdi frá henni. Það sem ég kunni persónulega best við í fari hennar var hvað hún var hrein og bein og kom ávallt fram við mann sem jafningja og talaði heldur aldrei illa um neinn og vildi öllum vel.
Í stúdentsveislunni minni fyrir ári var hún hrókur alls fagnaðar og er ég þakklát fyrir þá stund sem að við áttum saman þá.
Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt hana að vini, fyrir öll samtölin okkar, ræktarsemi hennar og einstaka væntumþykju í minn garð. Hafi hún þökk fyrir allt og allt.
laðar til sín
lokakafla æviskeiðs.
hinsta andardráttinn.
Andinn yfirgefur húsið
heldur sig til himna
við hliðið bíður drottinn.
Það er sumt sem að maður saknar
vöku megin við,
leggst útaf
á mér slokknar
svíf um önnur svið.
Í svefnrofunum finn ég
sofa lengur vil
þegar svefninn verður eilífur
finn ég aldrei aftur til.
(Björn Jörundur og Daníel Ágúst)
Elsku afi, Sigga, Ársæll og Siggi, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Hvíldu í friði, elsku amma mín.
Þitt langömmubarn
Hjördís Halldóra
Sigurðardóttir.
Jóhanna Guðmundsdóttir kvaddi þennan heim með sömu reisn og þokka sem einkenndi allt hennar líf og andlegum kröftum hélt hún fram til hinstu stundar. Í augum mínum var hún jafnan glæsilegur fulltrúi hins íslenska aðals, sem ólst upp við kröpp kjör, tók margvíslegu mótlæti af hetjulund en greip sérhvert tækifæri til að gleðjast og fagna. Af gengnum sporum hennar þyrlast upp fallegar svipmyndir sem ég minnist með þakklæti.
Það var árið 1974 sem fundum okkar bar saman. Þá bjó hún um stundarsakir með systrum sínum tveimur, Eiríku og Kristínu og voru allar komnar af léttasta skeiði. Hver um sig átti sér ólíka sögu, en þær sögur áttu allar sama upphaf, bernskuheimili í sárri fátækt, umvafið kærleiksyl, tónlist og glaðværð. Það var bjart yfir þeim systrum þegar þær sögðu frá æskuárunum þegar þeim tókst með vinnusemi að draga dýrmæta björg í bú foreldranna eða áttu sér gleðistundir við heimilisorgelið. Þær lýstu því fjörlega hvernig þær komu sér upp ballkjólum, trítluðu á dimmum vetrarkvöldum suður í Gúttó og meðtóku grafalvarlegar boðskap bindindispostulanna svo að þær kæmust ókeypis á ball sem haldið var á eftir. Stundum mátti vart greina orðaskil fyrir þríradda gleðihlátri þegar þær útmáluðu fortíðina í allri sinni dýrð.
Slík voru böndin sem tengdu þær saman, en lífið hafði ekki alltaf farið um þær mjúkum höndum og svo voru þær skemmtilega ólíkar, Eiríka þeirra mælskust, Kristín léttlyndust og Jóhanna höfðinglegust. Þær áttu stundum til að kýta um eitt og annað, enda hafði mikið vatn runnið til sjávar áður þær hófu eins konar samyrkjubúskap í blokkinni okkar við Álfaskeið í Hafnarfirði. Vindlareykurinn frá Eiríku fór í taugarnar á Kristínu, Eiríka kvartaði stundum yfir smámunaseminni í Kristínu og Jóhanna hristi höfuðið yfir karpinu í systrum sínum. Öllum var þeim í mun að halda sjálfstæði sínu í þessu nána sambýli og þótt aldur og heilsuleysi hefðu gert þeim nokkrar skráveifur báru þær sig eins og greifafrúr þegar þær tóku á móti gestum eða brugðu sér af bæ, stundum með viðkomu á dansstöðum Reykjavíkur. Í slíkum ævintýraferðum bar ýmislegt til tíðinda sem vakti innilegan hlátur er heim var komið, ekki síst þegar spaugið beindist að þeim sjálfum.
Þegar fram liðu stundir skildi leiðir okkar og upp frá því tók að halla undan fæti hjá Eiríku og Kristínu. Jóhanna, sem var yngst og keikust þeirra þriggja, bjó þá í eigin íbúð sinnti systrunum af alúð og hlýju þar til yfir lauk. Í tæp 20 ár bjó hún ein og prýddi tilveru sína með listfengi, trúrækni og glaðværð. Ævinlega var hún í nánum tengslum við börnin sín fjögur en henni var mikið í mun að standa á eigin fótum og þurfa sem minnst til annarra að sækja. Hún var gjöful í samskiptum, hafði frá mörgu að segja og perlurnar úr sjóði minninganna voru hver annarri fegurrri, ekki síst þær sem sorgin hafði slípað. Einatt rifjaði hún upp fyrir mér þá þungbæru stund er henni, kornungri móður, var tilkynnt að eiginmaður hennar hefði hlotið vota gröf, löngu áður en aðstæður skópu fyrirbærið áfallahjálp. Þá þótti ekki sæma stoltri konu að bera tilfinningar á torg. Þótt Jóhanna nyti stuðnings kærleiksríkrar fjölskyldu, eignaðist síðar nýjan lífsförunaut, efnilega afkomendur og lifði marga bjarta daga var auðfundið að tíminn hafði aldrei megnað að græða hið djúpa hjartasár.
Samt var það jafnan fjarri Jóhönnu að barma sér og kvarta og meðfædd listhneigð fékk útrás við margvísleg verkefni á sviði hannyrða og tónlistar. Hún var líka mikill lestrarhestur og sýndi mér eitt sinn stolt heildarsafn verka Halldórs Laxness er hún faldi fyrir Kristínu systur sinni, sem hafði af því áhyggjur að hún eyddi um efni fram. Hún gerði sér far um að fylgjast með þjóðmálum og vakti yfir sporum afkomendanna, ekki síður þeirra sem bjuggu erlendis en hinna sem henni auðnaðist að hafa náinn samgang við. Aldrei lét hún falla styggðaryrði í garð samferðafólks síns og ævinlega var stutt í bros og blessunarorð þrátt fyrir versnandi heilsu síðustu æviárin.
Nú eru þær allar fallnar frá vinkonur mínar frá frumbýlingsárunum í Hafnarfirði. Fyrir tilstilli þeirra öðlaðist ég svolitla hlutdeild í heimi sem ég kynntist aldrei af eigin raun, þar sem hendur kærleika og samheldni máðu út fátækt, fásinni og raunir. Þeim tókst að hefja sig upp yfir aðstæður sínar og eru í huga mínum meiri aðalskonur en aðrar sem ég hef kynnst. Um leið og þeim er þökkuð samfylgdin vona ég að þríradda hláturinn þeirra ómi nú handan fortjaldsins mikla en aldrei efuðust þær um að þar biðu þeirra sæluríkir dagar.
Blessuð sé minning Jóhönnu Guðmundsdóttur.
Guðrún Egilson.
Vesturbraut heitir gata sem liggur upp brattann frá höfninni og sker Vesturbæinn í Hafnarfirði. Á fyrstu áratugunum eftir seinni heimsstyrjöld sameinaði hún íbúana sem bjuggu þar í kring, - var þeirra aðalsamgönguæð og aðsetur matvöruverslana. Kiddabúð var sú verslun kölluð sem lengst var starfrækt þar, nefnd í höfuðið á eiganda sínum Ársæli Kristni Jónssyni, sem einnig rak reykhús á bakvið hús sitt sem var tvílyft steinhús og stóð á mótum Merkurgötu og Vesturbrautar. Fyrst sá ég Kidda í eldhúsinu heima. Hann kom þjótandi upp stigann og snaraði kassa með vörum í upp á skörina. Hávaxinn, þunnhærður vingjarnlegur maður, sem var að flýta sér. Seinna þegar ég var farin að rata milli húsa varð búðin hans að stað þar sem ég eyddi löngum stundum eins og aðrir Vesturbæingar. Barn var ekki bara oftast velkominn gestur heldur fékk þar ýmsa nauðsynlega félagslega þjálfun. Þar var maður settur upp á kassa og látinn lesa upp úr Morgunblaðinu svo allir gætu fylgst með og dáðst að því hversu vel manni miðaði í andlegum þroska og þar var manni kennd sú gullna list Gaflarans að þegar búið væri að skófla hlutunum af ætti maður að gefa sér góðan tíma til að ræða um heima og geima. Kiddi var óvenju vel lesinn maður og sá fyrsti er ég kynntist og kannski sá eini í Vesturbænum er var áskrifandi að erlendum tímaritum um stjórnmál og ýmis önnur efni. Ég var ekki há í loftinu þegar hann var farinn að segja mér frá ýmsu sem hann las og ræða það við mig eins og væri ég fullorðin. Hann þessi kraftmikli maður sem eiginlega var erfitt að hugsa sér að gæti staðið kyrr, hallaði sér þá venjulega upp að vegg með hendurnar krosslagðar á brjósti, fylgdist með umferðinni út á götunni og rifjaði alvörugefinn upp eitthvað sem hann hafði lesið eða ræddi af ákefð það sem ég, er sat í gluggakistunni, hafði til málanna að leggja. Truflaði okkur einhver afgreiddi hann hinn sama fljótt og vel svo við gætum haldið samræðum okkar áfram. Þessar samræður okkar stóðu, með hléum þó, liðlega tvo áratugi.
Samband mitt við eiginkonu hans Jóhönnu Guðmundsdóttur var annað og eiginlega veit ég ekki hvernig stóð á því að allt í einu var ég komin upp á efri hæðina og sat við eldhúsborðið hjá þeirri góðu konu og drakk kakó og borðaði dýrindis kökur, og hún hinum megin horfandi allan tímann á mig brosandi en spyrjandi ekki margs. Síðan leiddi hún mig inn í barnaherbergið þar sem ég var skilin eftir ein og fékk að velja mér úr bókum Siggu dóttur hennar, sem var nokkrum árum eldri en ég, þær bækur sem ég vildi að láni. En Sigga átti dýrindis safn unglingabóka sem ekki voru til á mínu heimili. Oftast trítlaði ég svo glaðbeitt heim með feng minn. En það kom einnig fyrir að saman gengum við Jóhanna áður til stofu. Í minningunni er stofan sveipuð dularfullu rökkri sem hún hverfur inn í þannig að ég sé aðeins ljósan koll hennar við píanóið og von bráðar fyllist hugurinn af tregafullum lögum um ástina og dauðann. Lék hún þau lög fyrir mig? Ég veit það ekki. En ég vissi þá að hún hafði orðið fyrir þeirri miklu sorg að fyrri eiginmaður hennar sem var sjómaður hafði drukknað og hún staðið ein uppi með tvö kornung börn. Ef til vill er það einungis þess vegna að mér finnst alltaf að þessi fríða, brosmilda, kona sem kom með rómantíkina inn í líf mitt, hafi haft þunglyndisleg augu og að hún hafi leikið þessi lög fyrir mig á píanóið.
Ég á þessum vandalausu hjónum ýmislegt fleira upp að unna en það hvernig þau reyndu að auðga anda minn á uppvaxtarárunum. Það var til dæmis ekki alltaf gott atvinnuástand í Vesturbænum og á tímabilum gengu margir atvinnulausir. Þegar þannig áraði og ég var send með ákveðna upphæð til að kaupa fyrir í matinn vigtaði Kiddi ætíð meira en greitt var fyrir og svo mikið að dugði fyrir allan systkinaskarann. Þegar reynt var að hindra hann í rausnarskapnum og beðið um ákveðið magn, kom það fyrir ekki, hann vissi nákvæmlega hvað þurfti til að ekkert okkar væri svangt. Fleiri en við nutum þessa hjartalags enda urðu þau hjónin aldrei auðug af þessa heims gæðum og misstu að minnsta kosti einu sinni nær allt sem þau áttu.
Ársæll Kristinn Jónsson lést langt fyrir aldur fram en þá var hann horfinn úr Vesturbænum og þau hjón skilin. Jóhanna Guðmundsdóttir lést í Hafnarfirði hinn 4. júlí síðastliðinn. Börnum hennar Þóri og Sigríði, og sonum þeirra Kidda, Ársæli og Sigurði, og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína. Ef því er þannig farið að æðsti tilgangur lífsins sé að hlúa vel að börnum, einnig þeim sem eru manni allsendis óviðkomandi, og ef svo ólíklega vill til að einhver guð sé til þá er ég viss um að Jóhanna og Kiddi sitja nú við háborðið hjá honum.
María Kristjánsdóttir.
Ársæll Kristófer.
© Morgunblaðið, 2003