Kristín Guðbjörg Guðmundsdóttir húsmóðir. f. 9.júlí. 1910, nú látin, var búsett í Reykjavík


Fjölskylda
Bróðir Kristínu, samfeðra, var Guðmundur Guðmundsson, f. 6.4. 1905, nú látinn, kenndur við Ölduna, var búsettur í Hafnarfirði og í Reykjavík.


Alsystkini Kristínu: Eiríka f. 5.1. 1909, nú látin, var búsett í Hafnarfirði ; Þórður Guðni, f. 14.11. 1912, nú látinn, var búsettur í Hafnarfirði;Vilhelmína, f. 15.9. 1914, nú látin, búsett í Hafnarfirði og Reykjavík; Jóhanna, f. 17.2. 1916, búsett í Hafnarfirði og Reykjavík; Stefanía, f. 8.10. 1917, búsett í Hafnarfirði; Jónína, f. 7.8. 1923, búsett í Hafnarfirði, Ólafur, f. 16.6. 1928, búsettur í Reykjavík og Garðabæ.
Foreldrar
Kristínu voru
Guðmundur
Eiríksson,
f. 24.6. 1874, sjómaður í Höfnum, á Norðfirði og síðast í Hafnarfirði,
og k.h., Þórunn Kristjánsdóttir, f. 12.8.
1890, húsmóðir.
Fimmtudaginn 4. maí, 1989 - Minningargreinar
Dáin 28. apríl 1989 Kristín Guðmundsdóttir lézt á Sólvangi 28. apríl og verður jarðsungin á morgun. Langt og erfitt sjúkdómsstríð er að baki og hvíldin kærkomin þreyttri sál, sem þráði lengi að svífa guðs um geim til samfundar við elskulegan eiginmann og aðra ástvini.
Þótt síðustu ár Kristínar vinkonu minnar væru mikil þrautarganga er óvenju bjart yfir minningu hennar. Frá henni stöfuðu persónutöfrar, fegurð og smekkvísi. Allt líkamsþrek var löngu þorrið en hugurinn var skýr og hjartað fullt þakklætis yfir ánægjuríkum ævidögum.
Kristín fæddist að Merkinesi í Höfnum 9. júlí 1910, dóttir hjónanna Þórunnar Kristjánsdóttur og Guðmundar Eiríkssonar, sem bjuggu lengst af í Hafnarfirði við kröpp kjör. Guðmundur missti heilsuna á bezta aldri, en börnin voru fjórtán og strax eftir fermingu var haldið út á harðan vinnumarkað tilað létta undir með foreldrunum. Kristín gekk til allra verka, og ótrúlegt þótti mér að heyra þessa litlu, fíngerðu konu lýsa því hvernig hún vann við uppskipun hvíldarlaust sólarhringum saman, vart komin af barnsaldri. En yfir þeim minningum var einnig birta í huga Kristínar. Á æskuheimilinu réð lífsgleðin ríkjum, þótt ekki yxi þar auður í garði. Þar var spilað og sungið og dansað þegar tóm gafst frá brauðstritinu og allir stóðu saman í gleðiog þraut.


Kristín var aðeins nítján áragömul þegar hún giftist Jóni Guðjónssyni, sem lengi var bifreiðarstjóri. Var hjónaband þeirra einstaklega farsælt og markaðist af gagnkvæmri ást og virðingu. Jón var mjög virkur í íþrótta- og félagsstarfi og Kristín fylgdist með hugðarefnum hans af lífi og sál. Smekklegt heimili þeirra var ævinlega opið félögum hans og samherjum, sem og fjölskyldu og vinum. Næmt fegurðarskyn og snyrtimennska Kristínar leyndi sér hvergi og allir hlutir voru valdir og meðhöndlaðir sem í hefðargarði væri. Hjá þeim hjónum ríkti svipaður andi og á æskuheimili Kristínar í Hafnarfirði, enda voru fjölskylduböndin sterk og hlý. Heimili Jóns og Kristínar stóð alla tíð í Reykjavík og þar ól ust upp synirnir, Guðmundur og Guðjón Már. Meðan þeir voru á æskuskeiði vann Kristín ekki utanheimilis en þegar um fór að hægjast réðst hún í fiskvinnu. Henni þótti gaman að taka til hendinni og blanda geði við fólk á vinnustað, enda dugnaðarforkur sem fyrr og létt í lund. En skyndilega dró ský fyrir sólu, er alvarlegur heilsubrestur gerði vart við sig og hún þurfti að láta af störfum. Þá hafði Jón átt við veikindi að búa um skeið, en andlát hans bar að nokkuð skyndilega í júní 1972. Það varð Kristínu þvílíkt reiðarslag að hún varð tæpast söm og jöfn. Og næstu árin varð heilsa hennar fyrir hverju áfallinu af öðru.

Leiðir okkar Kristínar lágu saman þegar skærasta hamingjusól hennar var hnigin til viðar. Þá bjó hún ásamt Eiríku systur sinni í Hafnarfirði í sama húsi og við hjónin. Á milli okkar urðu fljótt gagnvegir og margar góðar stundir áttum við saman. Kristín hafði unun af að rifja upp minningar frá liðnum dögum og það kom fram í hvívetna að hún taldi sig mikla gæfukonu þrátt fyrir erfið áföll. Þegar heilsa hennar leyfði brá hún fyrir sig betri fætinum og skrapp á knattspyrnuleiki, spilamennsku eða dansleiki ásamt systrum sínum. Og ekki var kotungshættinum fyrir að fara hjá þeim heldur minntu þær á tignar konur, þegar þær höfðu búið sig upp. Oft höfðu þær frá ýmsu skrýtnu og skemmtilegu að segja þegar heim var komið og þá dillaði í þeim hláturinn og kætin.
Samheldnin á æskuheimili Kristínar varð henni drjúgt veganesti. Eftir lát Eiríku naut hún umhyggju Jóhönnu systur sinnar, en fluttist á Sólvang þegar heilsunni var svo komið að hún þurfti stöðuga hjúkrun. Þangað heimsóttu hana nær daglega systkini hennar, tengdafólk og börn þeirra - og synirnir tveir og fjölskyldur þeirra áttu að sjálfsögðu mörg spor að beði hennar. Þaðan fylgdist hún með öllu því sem var að gerast í fjölskyldunni, - fæðingum, húsakaupum, menntun barnanna og öðrum tíðindum. Öllum bað hún blessunar guðs og þakklát var hún fyrir hvert það lítilræði sem hægt var að víkja að henni.
Nú þegar Kristín Guðmundsdóttir er horfin til nýrra heimkynna þökkum við henni samfylgdina í fullri vissu þess að "þar bíði vinir í varpa sem von er á gesti . . ."
Guðrún Egilson
Myndir: