

Þórunn
Kristjánsdóttir, Strandgötu, 35b, Hafnafirði
Þórunn
var fædd að Kirkjuvogi í Höfnum 12.8.1890. Dóttir merkis hjónanna Kristjáns
Jónssonar, útvegsbónda og konu hans Guðbjargar Jónsdóttur frá Kirkjuvogi.
Ung að árum giftist Þórunn manni sínum Guðmundi Eiríkssyni
ættuðum frá Norðfirði. Stundaði hann sjósókn hjá föður Þórunnar.
Guðmundur
og Þórunn eignuðust 13 börn
![]() |
![]() |
Mér er í fersku minni fyrstu kynni
okkar Þórunnar fyrir 44 árum. Á sólbjörtum sumarkvöldi var mér reikað
fram á Grímstaðarholt í leit að konu með stóran barnahóp. Maður hennar
var í atvinnuleit á Siglufirði og veiktist skyndilega og var lengi helsjúkur,
svo lítið var að bíta og brenna á heimilinu með stóra barnahópinn og móðirin
rétt að komast í rúmið með nýjan þjóðfélagsþegn. (Amma Nína) Er ég
barði að dyrum í litla húsinu kom ung og falleg kona til dyra, sviphrein og
hæversk og úr augunum skein trúnaðartraust og tryggð, sem með okkur hélst
alla tíð. Mér duldist ekki, að hér var á ferð meira en meðalkona.
Innanstokksmunir
voru ekki margir, en fallegi barnahópurinn, hreinn og bættur í rúmunum, ljómandi
af gleði. Gólfið svo hvítskúrað, að ég hefði helst kosið, að á vængjum
mætti ég berast yfir það. Þórunn lagði líka oft nótt með degi, til að
þvo, bæta og laga, svo hægt væri að koma hópnum á fætur næsta dag.


Oft
er við minntumst þessara fyrstu kynna okkar, brosti Þórunn og sagði að þetta
væri allt Guðsblessun. Maðurinn minn lét mig aldrei standa eina, þegar hann
gat og oft af veikum mætti var hann mér og börnunum allt. Guðmundur dó
eftir langa og stranga vanheilsu árið 1935. Þórunn var trúuð kona og trúði
á mátt bænarinnar og varð að trú sinni.
Ég
þakka vinkonu minni allar góðar stundir er við áttum sameiginlegar. Þær
voru mér ómetanlegar til þroska og skilnings á svo ótal mörgu í lífi
hinnar stórbrotnu en trúföstu alþýðu konu, sem í gegnum allt stóð, sem
bjarg með sínu fólki, til betri og bættari lífskjara. Mér eru líka ógleymanlegar
ánægju stundirnar á litla fallega heimilinu hennar Þórunnar, núna í
seinni tíð, er öll börnin og barna börnin komu saman, stórglæsileg.
Syngjandi, og spilandi, svo tíminn gleymdist. Blær vináttunnar var svo hreinn
og einlægur, því börnin báru móður sína á ástarörmum þakklætis og
skilnings fyrir allar þær fórnir er hún færði þeim af sönnum móður kærleika.

Þórunnar
er sárt saknað af öllum ástvinum og vinum gestristni var henni í blóð
borin og aldrei leið henni betur, en er hún gat miðlað, því hvers manns
vanda vildi hún leysa eftir getu. Þórunn var sí starfandi meðan heilsan
leyfði og allt er hún lagði gjörfa hönd á, var fágað og fallegt.
Nú
ert þú vinkona mín horfin sjónum okkar í bili. Kölluð til æðri starfa
Guðs í víðum geimi. Með kærleika kveð ég þig Þórunn mín. Farð þú
í friði, friður Guðs blessi þig. Hafðu þökk fyrir allt og allt, gakk
þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðar hnoss þú hljóta skalt.
Jónína Guðmundsdóttir
(eldri).