

Soffía Fransiska Guðlaugsdóttir, fædd 6.júní 1898 á Kirkjubæjarklaustri og dáin 11. júlí 1948, leikkona á Akureyri og í Reykjavík. Fyrri maður var Ágúst Jósefsson Kvaran, stórkaupmaður og leikstjóri á Akureyri. Seinni maður var Hjörleifur Hjörleifsson, fjármálastjóri í Reykjavík.
For.: Guðlaugur Guðmundsson f. í Ásgarði í Grímsnesi 8. des. 1856, d. 5. ágúst 1913.
K. (30. maí 1882) Oliva Maria (f. 21. mars 1858, d. 22. mars 1937) húsmóðir.
Systkini Soffíu: Þórdís María (1881), Karólína Amalía (1882), Guðlaug Valgerður Oktavía (1883), Ásdís Charlotta (1887), Guðmundur Þorkell (1889), Margrét Ólöf (1893), Ólafur Jóhannes (1896), Kristín Guðný (1900).
Stutt æfiágrip
Soffía Fransiska Guðlaugsdóttir fæddist á Kirkjubæjarklaustri í V Skaftafellssýslu þann 6. júní 1898 og andaðist þann 11. júlí 1948.
Soffía ólst upp á Kirkjubæjarklaustri til 6 ára aldurs, en þá flutti fjölskyldan til Akureyrar, þar sem Guðlaugur faðir hennar hafði verið skipaður sýslumaður og bæjarfógeti. Til Reykjavíkur fluttist hún síðan með móður sinni og systkinum árið 1918, en faðir hennar andaðist á Akureyri 1913.
Soffía byrjaði mjög snemma að leika. Fimmtán ára gömul lék hún á Akureyri annan púkan í Skugga Sveini og litlu síðar Donnu Luciu í Frænku Charleys. Sjálf hafði hún miðað leikara-afmæli sitt við 7. janúar 1917, er hún lék í fyrsta skipti hjá Leikfélagi Reykjavíkur, hlutverkið Þórdísi í Syndum annarra eftir Einar H. Kvaran.
Næstu árin lék hún mörg hlutverk ungra kvenna á leiksviði í Reykjavík, svo sem Ljósbjört í Nýársnóttinni, Áladrottninguna í Konungsglímunni og Helgu í Lénharði fógeta. Þá lék hún ýmis smærri hlutverk í uppfærslum um og upp úr 1920.


Soffía dvaldist í Danmörku og Þýskalandi á árunum fyrir 1930 við nám og leikstörf.
Lárus Sigurbjörnsson segir í minningargrein um Soffíu að:
Það var hin sundurleita skapgerð heimskonunnar eða tælandi ástríða Evudætra, sem henni lét bezt að lýsa. Á því sviði var list hennar sterk og tók yfir allan tónstigann frá gleðileiknum til harmleiksins.
Í Íslensku Alfræðiorðabókinni frá 1990 segir svo um Soffíu:
Ein fremsta leikkona sinnar kynslóðar og brautryðjandi í í raunsærri túlkun kvenna, ásta þeirra og sorga. Soffía lék fyrst hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1917 og 1924 lék hún titilhlutverkið í Fröken Júlíua eftir A. Strindberg á svo ögrandi hátt að næstum þótti hneykslanlegt. Soffía túlkaði helstu kvennhlutverk ísl. bókmennta á tilkomumikinn hátt, m.a. Steinunni í Galdra Lofti (1933) og Höllu í Fjalla Eyvindi (1940) eftir Jóhann Sigurjónsson.
Hjá Leikfélagi Reykjavíkur lék hún 65 hlutverk. Auk þessa hélt hún sjálfstæðar leiksýningar með nemendum úr leiklistarskóla, sem hún rak um nokkurn tíma, um og eftir 1940. Þá var hún oft fengin til að heimsækja leikfélög utan Reykljavíkur, til að kenna og setja upp leikrit. Þá lék hún gjarnan eitthvert hlutverk í leikritinu.
Í útvarpi leikstýrði hún og lék í fjölda leikrita auk þess að lesa upp úr ýmsum verkum.
Síðasta hlutverk Soffíu á leiksviði var í Dödedansen, með Önnu Borg, Paul Reumert og Mogens Wieth, sem Norrænafélagið sýndi í Iðnó snemma sumars 1948.
Eftir andlát Soffíu stofnuðu nokkrir vinir og velunnarar hennar Minningarsjóð um Soffíu Guðlaugsdóttur leikkonu. Sjóðnum var ætlað að veita verðlaun fyrir bestan leik á hverju ári. Verðlaunin voru styttan Skálholtssveinninn. Fyrst voru verðlaunin veitt 1958 og síðast 1965. Loks var Borgarleikhúsinu afhent eitt eintak af Skálholtssveininum við vígslu þess 1989,
til að votta hinum fjölmörgu leikurum Leikfélags Reykjavíkur virðingu, sem með frábærum leik á undanförnum árum hefðu verið verðugir þess að hljóta Skálholtssveininn
Soffía var tvígift. Fyrri manni sínum, Ágústi J. Kvaran, giftist hún 1919 og eignuðust þau eina dóttur, Þórdísi Eddu. Þau skildu. Síðari manni sínum, Hjörleifi Hjörleifssyni, giftist Soffía 1930 og áttu þau einn son, Guðlaug.
Guðlaugur Hjörleifsson tók saman.